12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð. Eins og sjá má á brtt., sem fyrir liggur á þskj. 169, hefur orðið samkomulag í allshn. um að mæla með þessari till. sem breyt. við 1. gr. frv. Ég hafði þá á orði innan n., þegar málið var til meðferðar, að ég gæti fallizt á þessa breyt. til samkomulags, ef af hálfu n. yrðu ekki fluttar aðrar till. eða gerð önnur breyt. á málinu. Það var að vísu ekki á valdi n., að ekki kæmu breyt. annars staðar frá, svo að þetta snertir ekki brtt. hv. þm. N.-Ísf. (SB). Hv. þm. Snæf. (GTh) mun hafa látið í ljós, að hann ætti erfitt með að greiða atkv. á móti slíkri brtt., ef fram kæmi, og hefur mér nú skilizt á honum, að hann muni ljá henni atkv. sitt.

Í sjálfu sér finnst mér ekki viðfelldið af þingsins hálfu að ætla að gera nýja skipun á embætti, nema af breyt. leiði, að það sé óhjákvæmilegt eða embættismaður hafi ekki staðið vel í stöðu sinni. Eftir þeim kynnum, sem ég hafði af þessu á síðasta þ., og eftir viðtali við þá menn, sem gleggst deili vissu á þessu, er greinilegt, að þessi maður hefur staðið vel í stöðu sinni, og ég get enn fremur skírskotað til orða dómsmrh. hér á síðasta þ., sem vitaskuld veit bezt, hvernig þessi störf eru unnin, þar sem hann er yfirmaður þeirra mála og hlýtur að hafa gleggst kynni af því, hvernig með þau er farið, og eins og það var orðað við 2. umr. málsins, hefur þessi embættismaður hið bezta orð.

Mér finnst það breyta nokkru, ef þessi brtt. er afgreidd núna, þótt auk þeirra skilyrða, sem áður voru sett fyrir veitingu þessa embættis, sé lögfræðipróf gert að skilyrði, því að hér er vissulega farið fram á meira en lögfræðiprófið eitt og þá vitaskuld þau kynni af störfunum, sem .gert er ráð fyrir samkvæmt till.

Hv. þm. N.-Ísf. (SB) veik að því, hvernig þessi embættisveiting hefði orðið til, og út í það ætla ég ekki að fara að neinu ráði. Hitt ætla ég, að ég muni rétt, að það hafi ekki verið óhjákvæmilegt skilyrði, að lögreglustjórinn í Reykjavík væri lögfræðingur, svo að að því leyti ætla ég, að ekki hafi verið breytt neinum lagastaf fyrir þessa veitingu, og eftir því, sem fram hefur komið af hálfu þeirra manna, sem gleggst mega vita, með hverjum hætti þessi embættisveiting var, að það mun hafa verið fullt samkomulag innan alls ráðuneytisins um þessa embættisveitingu. Og ég hygg það líka hafa komið ótvírætt fram, að þessi maður var sá eini sjálfsagði. Þess vegna held ég, að í þessum ummælum hjá hv. þm. N.-Ísf. (SB) sé fullfreklega að orði komizt, eftir því sem málavextir eru, og þó að hann líti nú þannig á, að öðruvísi hefði átt að fara að á þeirri tíð og að annar hefði verið æskilegri, finnst mér, að till. hans í þessu efni sé ekki heldur viðfelldin og nú stefni hann að því að koma af stað verknaði, sem er óviðfelldinn, svo að ég viðhafi ekki sterkari orð, svo framarlega sem ekki liggja til þess nægilegar ástæður. Og það er ekki komið fram af hálfu hv. þm. N.-Ísf. enn. Ástæðan, sem hann færir fram, er sú, að veiting hafi farið fram með óviðurkvæmilegum hætti að hans áliti, en ég held, að ég geti alveg fullyrt, að fyrir veitingunni hafi verið full stoð í l. Ég er búinn að upplýsa, að allt ráðuneytið stóð að þessari veitingu, og jafnframt hef ég líka skírskotað til þeirra manna, sem bezta þekkingu hafa á störfum þess manns, sem fyrir valinu varð, og nú síðast vitnisburðar dómsmálaráðh. Allt þetta sýnist mér benda til, að hv. þm. N.-Ísf. (SB) hefði getað látið sér þá lagabreyt. nægja, sem allshn. varð ásátt um. Ég vona, að d. geti fallizt á þetta samkomulag n. um afgreiðslu málsins og afgreitt það þannig til Ed. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. En hafa skyldu menn það í huga, að það er ekki beinlínis hvöt fyrir menn að taka að sér embætti, ef þeir mega eiga von á að verða vikið frá embættinu með lagabreyt. hvenær sem vera skal, án nokkurra saka. Það eru engar sárabætur, þótt embættismanni sé lofað einhverju öðru starfi, sem engin vissa er fyrir, að henti honum og hann geti sætt sig við. Þá mætti ekki minna vera en embættismaðurinn réði einhverju um það sjálfur, hvaða starf hann tæki.

Hv. þm. N.-Ísf. hlýtur að vita það ofurvel, að sá maður, sem nú gegnir embættinu, á enga sök á því sjálfur, að hann var valinn til þess. Þó að ég þekki hann ekki nema af afspurn og þeirri kynningu þessa máls, sem þm. hlýtur að fá, virðist mér hann hafa staðið þannig í stöðunni, að þá hljóti aðrir embættismenn að ugga um sig, ef hann telst réttrækur.

Ég tók till. mína aftur í trausti til samkomulagsins í n., en veit ekki, hvort ég hefði gert það, ef ég hefði átt von á samþykkt slíkrar till., sem hv. þm. N.-Ísf. ber fram. Ég hélt, að nm. mundu að fengnu samkomulagi hvorki flytja né styðja slíka till.