12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu að svara. Það voru fáein atriði hjá hv. 1. þm. Árn. (JörB). Hann lagði á það mikla áherzlu, að samkv. l. frá 1939 hefði það ekki verið óviðurkvæmilegt að veita ólöglærðum manni embættið. Ég hef alltaf tekið fram, að skipunin var lögleg, undanþága var komin í l. En það haggar ekki því, að skipun þessa manns í embættið var óviðurkvæmileg. Það er upplýst, að stjórnin hafi boðið fleiri mönnum embættið og þeir hafnað. En allt var það í laumi gert. Embættinu var ekki slegið upp. Það er ekki aðeins ómerkileg venja að slá upp embættum, heldur einn af grundvallarháttum lýðræðisskipulagsins. Með því er verið að tryggja hagsmuni þjóðfélagsins. Ef dómsmrh. hefur sniðgengið þessa venju og boðið hinum og þessum mönnum embættið bak við tjöldin, er óhætt að segja, að það eitt gerði embættisveitinguna óviðurkvæmilega, þótt eigi komi fleira til.

Þá er það undanþágan í l. Frv. 1939 var stjfrv., samið af hæstarétti, og fyrir lá umsögn lagadeildar háskólans. Í frv. var krafizt, að lögreglustjórinn fullnægði almennum dómaraskilyrðum. Þannig var það samþ. í Ed. Það var fyrst í allshn. Nd., sem undanþágan var sett inn. Þegar fyrir liggur álit hæstaréttar, lagad. háskólans og 4 lögfræðinga allshn. á fyrra þingi um nauðsyn þess, að lögreglustjórinn sé löglærður, hygg ég það vega þyngra en skoðun hv. 1. þm. Árn. á því atriði.

Þá ber hann það fram, að fullt samkomulag hafi verið um veitinguna í ríkisstj. 1939. Ég vil minna á, að ríkisstj. flutti frv. á þingi 1939 án þess að gera ráð fyrir öðru en lögreglustjórinn yrði að vera löglærður, svo að fullyrðing þm. um fullt samkomulag um hið gagnstæða lætur undarlega í eyrum. Ég verð að játa, að mig brestur trú á yfirlýsingar framsóknarmanna um það, hvað samkomulag hafi verið um í ráðuneytinu 1939, — þó að hv. 1. þm. Árn., sem er hinn greindasti og gegnasti maður, muni þar síður sekur um óheilindi en margir flokksbræður hans, sem hafa undanfarið ár haldið uppi látlausum, rætnum rógi um 2 ráðherra, er í ráðuneytinu voru, út af kjördæmamálinu og kallað þá eiðrofa. Það má hver lá mér það, sem vill, þó að mér falli ekki allur ketill í eld, þegar hv. 1. þm. Árn. lýsir yfir því, að samkomulag hafi verið um þetta innan ríkisstj., þar sem ég hef bent á, að þegar ríkisstj. flutti frv, upphaflega, var þetta ákvæði ekki í frv.

Ég get verið stuttorður úr þessu. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. 1. þm. Árn. segir, að till. mín sé óviðfelldin og stefni að óviðfelldnum verknaði. Ég held, að með samþykkt þessarar till. minnar sé einungis stefnt að því, að Alþ. sé sjálfu sér samkvæmt. Ef Alþ. afgreiðir l. svo, að það segir, að til þess að fara með þetta embætti þurfi lögfræðimenntun, en að samt skuli maður, sem hefur ekki slíka menntun, sitja í embættinu áfram, er það ekki sjálfu sér samkvæmt.

Ég vil að lokum víkja að því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að till. mín tryggði ekki fráfarandi lögreglustjóra, og þyrfti að gefa honum kost á, hvaða stöðu hann vildi. Mér finnst hv. þm. nokkuð viðkvæmur. Till. mín fylgir ákvæði stjskr., þar sem honum er gefinn kostur á að fá þá stöðu, sem hann sé jafnvel sæmdur af fjárhagslega, en það verður að vera undir mati komið, hvað langt á að ganga í því að fara eftir, hvað slíkum embættismönnum geðjast að. Aðalatriðið er, að vel sé séð fyrir honum, og það tel ég gert með till. minni, enda er það mjög fjarri mér að vilja í nokkru níðast á þeim unga manni, sem var sérstaklega dugandi maður, meðan hann vann að því starfi, sem hann hafði menntun til, meðan hann var flugmaður. Ég tel vitanlega alveg sjálfsagt, að hann fái embætti við sitt hæfi.

Það er von mín, að hv. Nd. samþ. þessa till., og atkvgr. um hana tel ég prófstein á það, hverjir það eru innan þ., sem vilja viðhalda ranglátum og hættulegum embættaveitingum, aðeins af því að þær hafa verið framdar.