12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að gera nokkra grein fyrir atkv. mínu viðvíkjandi brtt. hv. þm. N.-Ísf.

Þegar lögin, sem hér á að fella úr gildi, voru til umr. hér árið 1939, þá átti ég sæti í allshn. Nd., og það er rétt, að þegar frv. kom frá Ed., þá hafði það ekki það ákvæði, að það mætti með konunglegri tilskipun veita undanþágu frá því skilyrði, að lögreglustj. skyldi vera lögfræðingur. Ég hef nokkra hugmynd um það, hvers vegna þetta ákvæði var þá ekki í frv., þótt ég skýri ekki frá því hér. En hitt veit ég líka, að það var þáverandi hæstv. dómsmrh., sem kom til allshn. Nd. með tilmæli um, að þessu ákvæði yrði bætt inn. Mér var líka kunnugt um það, að ríkisstj. hafði rætt þetta og orðið sammála um að fá þessu bætt inn í frv. Mér er þetta allt vel kunnugt vegna þess, að ég var eini maðurinn í allshn., sem var á móti þessu, því að ég hef alltaf viljað, að lögreglustj. væri lögfræðingur, og eins og þskj. 576 frá 1939 ber með sér, þá skrifaði ég undir nál. með fyrirvara, en það gerðu hinir ekki, og sýnir það, að þeir voru sammála um þetta. Eins og sjá má í nál. þessu, þá kemur þetta undantekningaratriði um lögreglustjóra fram í Nd., og vil ég nú lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo: „Þó telur nefndin, að svo geti staðið á, að réttlætanlegt megi teljast að víkja í einhverju frá skilyrðum greindrar lagagreinar, að því er snertir lögreglustjóra“.

Svo vil ég benda á, að það var fyrir mitt tilstilli, að bætt var inn í þetta nál. ákvæði, sem ég skal nú lesa, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar þannig: „En auðvitað ætlast nefndin til, að heimild þessi sé því aðeins notuð, að í stað lögfræðimenntunar og annarra sérstakra dómaraskilyrða sé í tilskipuninni krafizt sérstakrar þekkingar eða menntunar, sem telja má svo mikils virði fyrir forustumenn lögreglunnar, að það jafngildi hinum sérstöku dómaraskilyrðum.“

Þessa skoðun hef ég alltaf haft og aldrei frá henni vikið. Þótt þetta hins vegar væri þá samþ. af Nd. og Alþ., þá var það af sérstökum ástæðum, sem öll ríkisstj. hafði komið sér saman um þetta, því að það er rétt, að ríkisstj. var sammála um þetta, og þótt ég vilji síður en svo vitna með hv. 2. þm. S.-M. í öðru því, sem hann sagði hér áðan, þá er þetta rétt hjá honum. Það mætti segja, að það væri óeðlilegt, ef ég kynni að greiða atkv. á móti brtt. hv. þm: N.-Ísf., þar sem ég hef áður verið meðflm. hans að frv., sem fer í sömu átt. En þegar þetta kom nú til umr. í allshn., þá þótti það nokkuð harkalegt að fara að svipta mann nær því fyrirvaralaust því embætti, sem Alþ. hefur áður komið honum í með lagasetningu.

Þá var það og í öðru lagi, að ég, með fullu samþykki a. m. k. annars meðflm. míns að áðurnefndu frv., fór til hæstv. dómsmrh. og fór fram á það, að hann hlutaðist til um það, að núverandi lögreglustj. tæki að sér annað embætti í sambandi við flugmál, og ég veit, að hæstv. dómsmrh. mun kannast við þetta. Í frv. ríkisstj. er sett það skilyrði, að lögreglustj. skuli vera lögfræðingur, en hins vegar er það tekið fram, að núverandi lögreglustj. skuli þó ekki missa embætti sitt, og ég hef fellt mig við það. Í upphafi klofnaði allshn. raunverulega um þetta mál, þótt ekki kæmu fram tvö nál. Hv. 1. þm. Árn. vildi ekki, að það yrði gert að skilyrði, að lögreglustj. skyldi vera lögfræðingur, en ég var honum mótfallinn í því. Hann kom svo fram með sína brtt. um þetta atriði. Í framhaldi af þessu er það svo, að hæstv. dómsmrh. orðar aðra brtt., sem hann síðan lagði fyrir nefndarfund í morgun. Ég lýsti þá þegar yfir því, að ég felldi mig við þetta sem miðlunartill., ef hv. 1. þm. Árn. tæki aftur sína brtt., og féllst hann á það. Þegar ég gaf þessa yfirlýsingu, vissi ég ekkert um þessa brtt. hv. þm. N.-Ísf., en ég lýsti yfir þessu, og ég geng ekki frá því, sem ég lýsi yfir á nefndarfundi.

Það má deila um það, hvað sé fyrsta skilyrði þess, að maður sé hæfur lögreglustjóri. Ég held því eindregið fram, að hann þurfi að vera lögfræðingur, því að það koma næstum daglega fyrir atvik, sem lögfræðileg þekking er nauðsynleg til úrskurðar á, en hitt er líka, að það getur oft komið fyrir, að nauðsyn sé á því, að lögreglan hafi duglegan stjórnanda. Þegar svo eru jafnframt sett skilyrði um það í l., að lögreglustj. skuli vera lögfræðingur og að hann skuli hafa raunhæfa þekkingu á stjórn lögreglumála, þá munu þeir lögfræðingar hér frá háskólanum, sem hafa hug á þessu embætti, fara utan til þess að kynna sér lögreglustörf og stjórn þeirra mála.

En eins og málum er nú háttað, dettur engum manni í hug að fara utan til þess að mennta sig í þessu skyni, ef opin leið er til að skipa aðra menn án sömu menntunar. Eins og mönnum er kunnugt, útskrifar háskólinn árlega fjölda lögfræðinga með hæfileika til þess að stjórna öðrum. Þeir mundu því taka það sem sína sérgreinað stunda þetta nám, eins og aðrir hafa gert. Mætti í því sambandi benda á Jónatan Hallvarðsson og Hermann Jónasson, sem báðir fóru utan til þess að kynna sér þessi mál. Mér finnst því eina lausnin, sem viðunandi sé fyrir alla aðila, vera sú, að í framtíðinni sé tryggt, að þessir menn séu bæði lögfræðingar og hafi þessa sérþekkingu.