20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Ólafur Thors:

Ég get tekið undir með hv. 2. þm. S.-M. um það, að ekki sé nóg að standa hér og segja: Klippt er það, — skorið er það — og slá fram staðhæfingu gegn staðhæfingu. Ég hefði fyrir löngu gefið skýrslu um þetta, en áleit það engum til framdráttar, hvorki þessum hv. þm. né þ. í heild, að tilgreina allt, sem fram hefur farið milli fyrrv. samstarfsmanna. Ég tel, að í þjónustu almenningsheillar beri mönnum að sýna hver öðrum fullan trúnað, þó að það geti orðið til þess, að menn standi ekki alltaf jafnvel að vígi gagnvart flokksbræðrum sínum, ef skýra ætti frá öllum einkastörfum eftir á, en ég ætla ekki að láta hafa mig út á þá braut að nauðsynjalausu. Ég efast líka um, að þeir hv. þm. Str. og hv. þm. S.-M. yxu nokkuð af þeim skýrslum. En um leið og ég mótmæli þeim blæ, sem hv. þm. S.-M. hefur reynt að varpa á þessi viðskipti okkar, vil ég taka það fram, að ég hef enga ástæðu til að rengja það, sem hann segir, að fram hafi farið í hans herbúðum. Hv. þm. segir það hafa verið álit Framsfl., að nauðsynlegt væri að hafa samstarf við Sjálfstfl., og hefur auk þess lýst yfir því, að það hafi verið skoðun meiri hl. Framsfl., að kosningafrestunin væri fullkomið réttlætismál, á meðan ekki gæti komið út í Reykjavík nema eitt blað ákveðins flokks. (PZ: Nei!) Ég tel hv. 2. þm. S.-M. gildara vitni í þessu efni en hv. þm. N.-M. En þrátt fyrir það, að meiri hl. Framsfl. taldi, að hér væri annars vegar um fullkomna nauðsyn að ræða og hins vegar um algert réttlætismál, skilst mér, að þetta hefði alls ekki fengizt nema með afarkostum. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að því er snertir það, sem gerðist í sambandi við skattamálin, að ég stakk sjálfur upp á þeirri lausn, sem varð að samkomulagi. En að það sé líklegt, að heimtað hafi verið af okkur og við unnið eið að því, að við mundum undir engum kringumstæðum fallast á, að kjördæmamálið yrði samþ. á Alþ., hvernig sem það yrði fram borið, held ég, að þessum hv. þm., þótt rökfimur sé, takist ekki að telja neinum trú um. Raunar sagði hv. þm., að við hefðum heitið að taka ekki upp kjördæmamálið með andstöðuflokkunum að þessu sinni. En það, sem við höfðum raunar sagt, Jakob Möller og ég, í bréfi til samstarfsmanna okkar í stjórninni, þeirra Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar, var, að við teldum víst, að Sjálfstfl. mundi ekki taka kjördæmamálið upp á næsta þingi. Þessum hv. þm. mun reynast örðugt að telja þingheimi trú um, að við höfum þurft að sæta þeim afarkostum að láta af þriggja ára samstarfi til að koma því réttláta máli fram, að bæjarstjórnarkosningunum yrði frestað. Honum verður erfitt að telja mönnum trú um, að fyrir þetta, sem Framsfl. ráðh. töldu réttlátt mál, höfum við selt okkur dýru verði. Eða er það nokkur borgun, þó að tveir þm. Sjálfstfl. bindi sig til að hreyfa ekki kjördæmamálinu, — en þetta var sú eina borgun, sem gefin var. Hitt, að Sjálfstfl. byndi sig til að vera undir öllum kringumstæðum á móti allri lausn, sem kynni að verða lögð fyrir þingið um kjördm., var nokkuð, sem var ekki á okkar valdi að lofa.

Öll rök þessa hv. þm. hníga þess vegna að því, að við Jakob Möller höfum ekki ætlað okkur á þeirri stjórnartíð, sem yfir stóð, að taka upp kjördæmamálið, og það er alveg það sama og ég hef sagt. Hann má lesa eins og hann vill úr gömlum blöðum til að reyna að sanna, að ég og aðrir samstjórnarmenn mínir höfum verið því andvígir að fresta kosningunum 1941. Ég get sannað, að Sjálfstfl. hélt fast við kosningafrestun. Ég óska hv. 2. þm. S.-M. til hamingju með það vitni, sem hann hefur fengið. Ég ætla ekki að gera veg míns gamla samherja minni með því að rísa gegn honum, en ég óska hv. þm. til hamingju með þessa sterku stoð, sem hann hefur fundið, þar sem Árni frá Múla er. Hann ætlaði að taka af mér æruna með því að vitna í hann, en honum tókst það ekki, því að Árni frá Múla hefur ekkert sagt, sem hann gæti byggt slíkar tilraunir á.

Þá þóttist hv. þm. hafa náð í góð rök, þar sem voru mín eigin ummæli við útvarpsumr., þar sem ég sagði, að hann hefði haft rökstudda ástæðu til að ætla, að kjördæmamálið næði ekki fram að ganga. Það er í fullu samræmi við það, sem ég hef sagt, að við byggjumst við, að Sjálfstfl. mundi ekki taka málið upp fyrir kosningar og við mundum ekki slást í för með Alþfl. í málinu. Hitt er ekki rétt hjá honum, að við höfum aldrei minnzt á neinar lausnir á því máli.

Ég skal svo aðeins að lokum segja það, að þótt ég lesi ekki Tímann spjaldanna á milli, þá var mér sagt frá ummælum eftir minn fyrri starfsbróður um þetta mál, og las ég þau. Ég svara engu því, sem ritstjóri Tímans segir um mig í þessu eða öðrum málum. Kjósendur í mínu kjördæmi segja: „Við þekkjum þig“, — en þeir segja líka: „Við þekkjum ritstjóra Tímans“. Mitt mannorð verður ekki skert með hans orði. Okkur er það ljóst, og ég veit, að hv. fyrri samstarfsmönnum mínum í stjórn er það ljóst, að það er ekki til framdráttar samvinnu milli flokkanna, ef ráðh., sem fyrr hafa verið saman í stjórn, fara að reyna að hafa æruna hver af öðrum. Það er ekki til þess að auka þá samheldni í þjóðfélaginu, sem við öll viðurkennum, að þörf sé fyrir.