20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Ég get ekki áttað mig á því, hvaða erindi hv. þm. Ísaf. þykist eiga inn í þessar umr. Hann er fullur vandlætingar og segir í háðungarskyni við Framsfl. og Sjálfstfl. og vítir sterklega, að það hafi verið verzlað með frestun bæjarstjórnarkosninganna og frestun kjördæmamálsins. Það er eins og gerzt hafi eitthvað sérstaklega óvenjulegt, að tveir flokkar skuli hafa getað komið sér saman um að fresta ágreiningsmálum, af því að þeir sáu nauðsyn þess að vinna að öðrum málum sameiginlega. Þessi málflutningur er í hæsta máta óviðkunnanlegur, þegar þess er gætt, að flokkur þessa hv. þm. studdi Framsfl. 1928–31 á þeim grundvelli, að kjördæmamálið yrði ekki tekið upp. Samvinna Framsfl. og Alþfl. 1934–1937 var byggð á sömu forsendum, — að þetta mál yrði lagt til hliðar. Svo kemur þessi hv. þm. og fer að gera sig að vandlætara yfir því, að samkomulag varð um að fresta afgreiðslu þessa máls, af því að menn töldu meira um vert að hafa samkomulag um annað.

Hv. þm. G.-K. er nú orðið það mikið áhugamál að beina hugum manna að því, að það sé aðeins blæmunur á því, sem við hv. þm. Str. höfum upplýst, og því, sem hann segir, að farið hafi okkar á milli. En hann er of klókur til að líta fram hjá því, að of margir vitnisburðir liggja fyrir um það mál, til þess að reynandi sé að halda fram, að ekkert hafi verið um það talað. Þá tekur hann þann kostinn að segja: „Já, það var að vísu um það talað, en ekki eins miklu lofað og hv. þm. hafa sagt“. Hér er ekki um neinn blæmun að ræða. Það rétt er, að þessir tveir fyrrv. ráðh. tóku á sig loforð um, að kjördæmamálið skyldi alls ekki afgr. fyrir kosningar. Þetta höfum við sagt og ekkert annað, og þetta var alveg skýlaust, svo að ekkert var um að villast. Hv. þm. gerði enn mikið úr því, að það væri með ólíkindum, að hann hefði þurft að sætta sig við aðra eins afarkosti og þá að láta kjördæmamálið liggja. En voru það afarkostir? Nú vitna ég í það, sem hann sagði sjálfur. Hann segir sjálfur, að þeir hafi lofað því að taka ekki upp kjördæmamálið. (ÓTh: Ég sagði, að Sjálfstfl. hefði ekki hug á því) . Nú vil ég spyrja: Eru það afarkostir að heita því, að fylgja ekki því máli, sem menn hafa lýst yfir, að þeir ætli ekki að taka upp, þar sem þeir telji það ekki tímabært? Jafnáhugasamur maður og hv. þm. G.-K. mundi efalaust telja skylt að taka upp mál, ef hann teldi það tímabært. Hitt væri fullkomið ósjálfstæði að ætla sér ekki að taka upp mál, en telja sér skylt að vera með í afgreiðslu þess, ef aðrir taka það upp, enda þótt menn telji það ekki tímabært. Allt ber að sama brunni. Það voru engir afarkostir fyrir ráðh. Sjálfstfl. að lofa því, að kjördæmamálið yrði ekki afgreitt, enda var það loforð gefið.

Ég skal nú ekki gerast mikið fjölorðari, en segja enn einu sinni, að það er raunar þýðingarlaust hér að telja frekari líkur fram. Mér er nóg, að það er rétt, sem við hv. þm. Str. höfum upplýst.

Ég ætla ekki að fara að svara vitnisburði hv. þm. G.-K. um ritstjóra Tímans, því að ég legg ekkert upp úr því, sem hv. þm. segir um hann, — fremur en öðru því, sem þessi hv. þm. segir, og vona ég að hann skilji það.

Hv. þm. G.-K. sagði, að sér væri ekki til neinnar ánægju að halda uppi viðræðum á þingi út af þessu. Mér þykir þetta nú ekkert undarlegt. Það, sem hér hefur gerzt, er hættulegt fyrir stjórnmálalífið í landinu og stjórnmálastarfið, en hv. þm. G.-K. getur ekki kvartað yfir því, að hann hafi ekki verið aðvaraður. Við margaðvöruðum hann og bentum honum á, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir stjórnmálalíf landsins og sambúðina á þingi, ef þeir ryfu loforð sín. En allt kom fyrir ekki.