20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Sigurjón Á. Ólafsson:

Brtt. á þskj. 198, sem hv. flm. var að lýsa, hefur ekki legið fyrir allshn., og mér er því ókunnugt um, hvernig einstakir nm. standa að henni. En ég vildi lýsa minni afstöðu og hvernig ég vil greiða þessari till. atkv. Hér er um algert nýmæli að ræða, embætti, sem ráðh. veitir og ríkið launar. Ég held, að það sé varla hægt að finna nokkurt fordæmi um það, að það skuli leita samþ. annarrar stofnunar, að slíkt embætti skuli veitt hinum eða öðrum.

Það eru mörg lögreglustjóraembætti í landinu, sem ríkið skipar embættismenn í, þar sem eins er ástatt og í Reykjavík, og bærinn greiðir þeim laun að svo miklu leyti sem þeir starfa í bæjarins þjónustu, en lögreglustjórinn í Reykjavík er embættismaður ríkisins, sem er launaður af ríkinu, og ber því dómsmrh. einum að segja til um, hverjum skuli veitt það embætti á hverjum tíma. Mér finnst því, að þessi brtt. geti tæplega staðizt, og mun því greiða atkv. á móti henni. Ég vildi gjarnan mælast til þess, að hæstv. dómsmrh., sem er lögfróður maður, vildi skýra nánar, hvort mín ætlun er rétt, að þetta geti tæplega staðizt í samræmi við önnur l., þar sem veitingarvaldið er eingöngu í höndum dómsmrh.

Till. sem þessar þyrfti að ræða innan n., þar sem um er að ræða verulegar breyt. frá því, sem áður var, en þar sem þetta er 3. umr. mundi þetta þýða frestun umr. og innan skamms, og verður því hver einstakur þdm. að gera það upp við sig, hvort hann álítur það rétta leið, sem hér er stungið upp á.