20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Hér er enn komin fram ný brtt. frá hv. 2. landsk. þm., og hefur hv. síðasti ræðumaður vikið að þeirri till. Það er að vísu svo, að lögreglustjóri hefur mikið saman að sælda við bæjarstjórn Reykjavíkur og er það rétt, sem hv. flm. brtt. sagði um það, en það er dálítil vandhæfni á því að framkvæma þessa till., ef hún verður samþ., vegna þess, að það virðist vera eftir henni, að það séu tveir jafnréttháir aðilar, sem eigi að veita þetta embætti. Eftir till. getur ráðh. ekki veitt embættið, nema bæjarstjórn samþ. það, en hins vegar, ef ráðh. vill veita þetta embætti sérstökum manni, en bæjarstjórn vill veita það öðrum, þá verður ekki hægt að veita embættið. Annars er það, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að það er eins ástatt hér í Reykjavík og í öðrum kaupstöðum. Ríkið skipar lögreglustjórann í Rvík, og ríkið launar hann og borgar skrifstofukostnað. Þess vegna væri dálítið ósamræmi í því, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði fullan ákvörðunarrétt um skipun þessa embættis, en bæjarstjórnirnar í hinum kaupstöðunum hefðu engan slíkan ákvörðunarrétt. Eðlilegast mundi vera, að ríkið kostaði alla lögreglu, hvar sem er á landinu, því að það er ríkisins að halda uppi lögum og rétti. Nú er þessu einu sinni þannig fyrir komið, að ríkið kostar þetta að nokkru leyti, en bæjarstjórnirnar að nokkru leyti. Ég held, að hv. flm. brtt. hefði átt að hafa till. dálítið vægari, það hefði t. d. ekkert verið á móti því að mæla svo fyrir, að veitingarvaldið skyldi leita tillagna bæjarstjórna um veitingu lögreglustjóraembætta í landinu. Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem flm. veik að, skal ég taka þetta fram:

Fyrir mér vakti ekki, eins og ég tók fram við 2. umr., að lögreglustjóri væri herfræðingur, og mér kom ekki í hug, þegar ég talaði um þetta, að lögreglan hefði afskipti af vinnudeilum á nokkurn hátt að öðru leyti en lög standa til. Það, sem ég átti við, var það, að lögreglan væri þannig undir stjórn hvers lögreglustjóra, að hann gæti ráðið við einstök óróamenni á skemmtunum og götuupphlaup, en ekki það, að lögreglan ætti að blanda sér í vinnudeilur framar en l. standa til. Það er eins og við vitum, að það geta stundum orðið róstur á götum og skemmtunum, t. d. dansskemmtunum, og það var þetta, sem ég hafði í huga, þegar ég talaði um það, að það væri eðlilegt, að lögreglustjóri kynnti sér á raunhæfan hátt lögreglu og lögregluvopn. Það getur verið, að ég hefði átt að tala nákvæmar en ég gerði, en þá kem ég með þessa viðbótarskýringu á því, sem ég átti við. Flm. veik að þessum vopnakaupum. Eins og stendur er ég ekki svo kunnugur þeim málum, að ég geti gefið neina skýringu á því, það hefur svo lítið borið á góma í minni ráðherratíð, að ég get varla talað um það hér. En hitt er það, að þegar fram kemur fyrirspurn um það þá, ætti að vera auðvelt að svara henni, eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja í dómsmrn. og eftir skýrslu lögreglustjóra sjálfs, þegar maður hefur fengið tækifæri til þess að búa sig undir það. En ég er ekki nú viðbúinn að skýra hv. þd. frá því, hvernig þessu er háttað.