04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

27. mál, fjárlög 1944

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm., sem síðast talaði, virtist hafa miklar áhyggjur af því, ef tekjurnar skyldu reynast hærri en þær eru áætlaðar af meiri hl. fjvn., en hún hefur nú um margra vikna skeið setið á fundum og verið að gera áætlanir um tekjur og gjöld þjóðarbúsins fyrir næsta ár. Það mætti ætla, að það sætti nokkurri furðu, að þeir menn, sem taka þátt í slíkri iðju, hafi miklar áhyggjur af því, ef tekjurnar skyldu verða meiri en þær eru áætlaðar. Enginn bóndi mun hafa áhyggjur af því, að tekjur af búi hans verði meiri en hann hafði gert ráð fyrir. Enginn verzlunarstjóri mun hafa áhyggjur af því, að rekstrarafgangurinn verði meiri í árslok en hann hafði gert sér vonir um í ársbyrjun. Engin ríkisstj., sem vill reka ríkisbúið með hagnaði, mun hafa áhyggjur af því, þó að tekjurnar reynist meiri í árslok en áætlað var í fjárl. Þess vegna held ég, að enginn ábyrgur stjórnmálamaður ætti að hafa áhyggjur af því, þótt tekjurnar í fjárl. reyndust meiri en þær voru áætlaðar af fjvn. En hvernig á því stendur, að þeir menn, sem skipa minni hl. fjvn., hafa svona miklar áhyggjur af því sérstaklega, að tekjurnar reynist meiri en þær voru áætlaðar, fæ ég naumast skilið.

Hv. 6. landsk. eyddi mörgum orðum að því, hve lágt meiri hl. fjvn. hefði áætlað tekjurnar. Meiri hl. áætlar tekju- og eignarskatt 19,5 milljónir, en minni hl. vill áætla þær tekjur 21 milljón. Við vitum ekkert um tekjur á þessu ári, en það eru miklar líkur til, að þær verði lægri en í fyrra. Vissa er fyrir því, að tekjur stórfyrirtækja verða mun minni en í fyrra, t. d. útgerðarfélaga. Því segi ég, að það sé ekki sæmandi að áætla þennan lið eins hátt og hann reyndist í fyrra. Það kann að vera sennilegt, að tekju- og eignarskattur reynist 22 millj. þetta ár, en alls óvíst, að hann reynist 19,5 millj. næsta ár.

Þá er það stríðsgróðaskatturinn. Meiri hl. n. áætlar hann 12 millj., en minni hl. vill áætla hann 14 millj. En eins og ég sagði áðan, þá verður útkoma stórfyrirtækja ekki eins góð og í fyrra, og því líklegt, að stríðsgróðaskatturinn reynist lægri en árið á undan. Ég álít því, að meiri hl. fjvn. hafi farið eins hátt í þessum lið og sæmandi er.

Þá er vörumagnstollurinn. Meiri hl. n. áætlar hann 8 millj., en minni hl. 9 millj. Það er vitað, að innflutningur verður minni á þessu ári en í fyrra, og erfiðleikar á innflutningi fara vaxandi. Af því má draga þá beinu ályktun, að hann verði minni næsta ár en í ár. Því tel ég óvarkárni að fara hærra en meiri hl. fjvn. hefur gert.

Sama máli gegnir með verðtollinn. Þó hann reynist 35 millj. í ár og reyndist 38 millj. 1942, þá eru erfiðleikar á innflutningi svo miklir, að ekkert vit er í að áætla hann eins hátt og fyrir þetta ár. Því er ekki vit í að áætla hann hærra en 30 millj. En minni hl. n. vill áætla hann 38 millj. En það er því miður allt of hátt.

Þá fór hv. 6. landsk. mörgum orðum um áfengið og tóbakið og taldi ekkert vit í að setja ekki tekjurnar af verðhækkun þessara vara inn í fjárlögin. Þó veit þessi hv. þm., að þetta er til athugunar fyrir 3. umr., og mér skilst á öllu, að það muni verða gert. En ég hélt, að það væri ekki afgerandi, hvort þetta yrði við 2. eða 3. umr. Það er því óþarfi að gera ágreining út af þessu atriði, þar sem vonir standa til, að það nái fram að ganga við 3. umr.

Þá eru það gjöldin, sem þessir hv. þm. í minni hl. fara mörgum orðum um. Þeir vilja hækka gjöldin að sama skapi og tekjurnar. T. d. vilja þeir hækka fjárveitingu til sjúkrahússins á Akureyri úr 200 þús. í 500 þús. Eins vilja þeir hækka framlög til sjúkrahúss á Siglufirði og í Vestmannaeyjum og gera þau að fjórðungssjúkrahúsum. Þessi hækkun á framlögum hefur í för með sér stórlega aukin útgjöld. Og svo skilst mér, þótt ég sé að vísu ekki lögfróður, að heimild bresti til að gera þessi umræddu sjúkrahús að fjórðungssjúkrahúsum, nema með sérstökum lögum.

Það má segja, að ekki muni um 300 þús. kr. hækkun á framlagi til sjúkrahúss Akureyrar, en ef samræma á aðra staði við það, þá mun það draga dilk á eftir sér.

Þá eru það framlög til barnaskóla. Meiri hl. leggur til, að veittar verði 400 þús. í því skyni, en minni hl. leggur til 750 þús. Nú er það upplýst frá fræðslumálastjóra, að 400 þús. mundu nægja til að ljúka við byggingu á þeim skólum, sem nú eru í smíðum. Hann minnist á 12 skóla. Vitanlega mætti byggja fleiri. En ég veit, að það er nú svo með margar sveitir, að þær treysta sér ekki út í skólabyggingar á þessum tímum. Það mundi sliga þær fjárhagslega, þrátt fyrir styrk frá ríkinu. Eins og dýrt er að byggja, þá finnst mér vel hægt að sætta sig við 400 þús.

Þá kem ég að húsmæðraskólunum og henni Árnýju okkar, sem hv. þm. var að tala um. Þeir vilja veita henni 20 þús. En hv. þm. sat hjá við atkvgr. um 15 þús., svo að hún fékk ekki nema 10 þús. Mér finnst því skjóta nokkuð skökku við hjá þessum hv. þm.

Ég vil ekki segja, að framlög til húsmæðraskóla séu of há eða jafnvel nógu há. En af því að kröfurnar koma alls staðar að, þá verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. En þar sem meiri hl. leggur til, að varið verði 340 þús. til þessara mála, þá er það meira en áður hefur verið. Og þótt þessir hv. þm. sætti sig ekki við þá upphæð, þá munu húsmæður líklega hafa betri skilning á málunum.

Þá er það íþróttasjóður. Minni hl. leggur til, að til hans verði varið 650 þús., en meiri hl. 450 þús., eða þeirri upphæð, sem íþróttafulltrúinn taldi æskilega. Ef við athugum þær upphæðir, sem varið hefur verið til þessara mála undanfarið, og berum það saman við þá upphæð, sem meiri hl. leggur nú til, að verði veitt, þá sjáum við, að 1942 voru veittar 125 þús., en 300 þús. í ár. 450 þús. fyrir næsta ár er því 50% hækkun frá því í ár. Ég held, að þessi aukning beri með sér fullan skilning fjvn. á íþróttalífi landsins.

Þá er það 15. gr., um bókakaup til landsbókasafnsins. Meiri hl. vill fylgja tillögum landsbókavarðar og ríflega það. En minni hl. leggur til, að 100 þús. verði varið í þessi bókakaup. Það er þó vissulega fullnægt skilyrði, sem taka verður tillit til, þegar veitt er ríflega það, sem landsbókavörður fer fram á. En þá koma þessir hv. þm. og gera meiri kröfur fyrir hans hönd. Vita þeir betur en hann? Ég skil það ekki. Ef tekið er tillit til tillagna landsbókavarðar og þeim fullnægt, þá álít ég, að óþarft sé með öllu að ganga lengra.

Þá er það styrkur til skálda og listamanna. Það er e. t. v. af því, að ég er enginn listamaður, að ég á dálítið erfitt með að skilja þýðingu þessara styrkja. Þó álít ég, að fullt tillit beri að sýna í þeim efnum. Ég held líka, að listamennirnir þurfi ekki undan neinu að kvarta í þessu sambandi.

Þá er það 16. gr. Þar fyrst ætla sósíalistar að slá sig verulega til riddara og sýna alþjóð stórhug sinn til umbóta. Þeir leggja til, að 10 millj. verði varið til byggingar skipa og eflingar sjávarútvegsins, og 4 millj. til nýsköpunar landbúnaðarins. Ég vildi gjarnan að þetta væri hægt. En það er ekki nóg að segja, að þetta þurfi að gera. Það verður um leið að benda á skynsamlegar tekjuöflunarleiðir í þessu skyni. Það er ekki nóg að áætla tekjurnar hátt og koma síðan með háværar kröfur um aukin útgjöld, sem á engum rökum eru reistar. Ég hefði e. t. v. tekið undir þessar till., ef þær hefðu verið orðaðar öðruvísi, bundnar því skilyrði, að tekjur hrykkju fyrir þessu, eða kveðið svo á, að tekjuafgang, sem verða kynni, skyldi nota í þessu augnamiði. Þá væri eitthvert vit í þessu, annars ekki. Ég held, að enginn lifi á því að nota háar tölur, sem enga stoð eiga í veruleikanum.

Þá hafi hv. þm. mörg orð um vitabyggingar samkv. 20. gr. Meiri hl. vill leggja fram 350 þús. til þeirra mála. Það er sú upphæð, sem vitamálastjóri fór fram á, er hann kom á fund fjvn., ef ég man rétt. Hann lýsti því, hve erfitt væri nú að byggja vita og útvega til þeirra ljósatæki, og hefði oft staðið lengi á þeim undanfarið. Hann fór svo fram á 350 þús., og það fékk hann. En nú koma þessir hv. þm. og gera meiri kröfur fyrir hans hönd, af því að hann hefur víst ekki vit á að gera þær nógu háar, og þeir heimta helmingi meira. Ég held, að hægt sé með góðri samvizku að fella till. minni hl., eftir að kröfum vitamálastjóra hefur verið fullnægt.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um till. minni hl. En þegar ég kom hér inn í d. í dag, var hv. þm. Ísaf., sem ekki er nú viðstaddur, að tala um framlag til áburðarverksmiðju, 2 millj. króna. Taldi hann það óþarft og óeðlilegt, að ríkið legði fram fé í þessu skyni. Sagði hann, að þessi verksmiðja ætti að standa undir sér sjálf, þannig væri það með síldarverksmiðjur ríkisins. En hér er ólíku saman að jafna. Síldarverksmiðjurnar framleiða vörur til útflutnings og eru lausar við samkeppni, en áburðarverksmiðja ásamt sementsgerð yrði hér væntanlega reist til að spara gjaldeyri og yrði að keppa við erlendar verksmiðjur. Þessi verksmiðja þarf að komast upp, því að einhvern tíma getur komið að því, að við þurfum að spara gjaldeyri, auk þess sem þessi atvinnurekstur yrði til atvinnuaukningar í landinu. Ég tel því alls ólíku gegna um þessa væntanlegu verksmiðju og síldarverksmiðjurnar. Ég álít það rétt af hæstv. stj. að leggja til hliðar 2 millj. í þessu skyni.

Hv. 2. þm. Reykv., sem ekki er heldur viðstaddur, var mikið að ræða um það, að hv. þm. S.-Þ. réði öllu í fjvn. og meiri hl. túlkaði einmitt stefnu hans. Nú ætla ég ekki að fara að gera lítið úr hv. þm. S.-Þ., en einkennilegt er það, að heyra sósíalista tala hér, alltaf eins og enginn sé til nema þessi hv. þm. Hann á að vera sá stóri maður, sem öllu stjórnar, sem illa fer að þeirra dómi, sá, sem öllu ræður. Ég ætla ekki að ræða þetta nánar, en ég legg það aðeins undir dómgreind hv. alþm., hvort þeir álíta, að við hinir nm. í fjvn. höfum okkar skoðun á hlutunum eða hvort við látum hv. þm. S.-Þ. stjórna öllu.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að stefna hv. þm. S.-Þ. væri sú að halda við nokkrum ríkum bændum í landinu, en gera hina öreiga og kallaði þetta upplausnarstefnu. En hverjir hafa raunverulega þessa stefnu, og hvað er það, sem gæti leitt til upplausnar? Er það það, að áætla fjárlögin varlega og stuðla að hagstæðum greiðslujöfnuði? Eða er það það, að þenja þau upp úr öllu valdi? Ég held, að það sé að stuðla að upplausn. Ég held þessi hv. þm. túlki sjálfur upplausnina og berjist fyrir þeirri stefnu m. a. með því að standa á móti góðri afkomu ríkisins.

Eftir till. meiri hl. fjvn. verður lítils háttar tekjuafgangur. En nú sjáum við, að fram eru komnar margar og háar brtt. frá ýmsum hv. þm. Ef þær verða allar samþ., þá verða fjárlögin afgr. með tekjuhalla. Það má ekki verða. Ábyrgðartilfinningin verður að ráða meira en kröfurnar. Ég vil því vona, að hv. þm. taki margt af brtt. sínum til baka, og ef þeir gera það ekki, þá fáist meiri hl. til að fella þær. Því að fjárlögin eru fullkomlega nógu hátt áætluð frá hendi fjvn: Eins og tímarnir eru núna, þá mega þetta teljast „hasard“fjárlög, er tekjur og gjöld ná nærri 90 millj. Ég vonast því til, að samkomulag náist um að fella margar af þessum brtt. og þinginu megi auðnast að skila fjárl. með hagstæðum greiðslujöfnuði og afgreiða þau sér til sóma.