22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Herra forseti. Viðvíkjandi aðalatriði frv., skiptingu embætta, finnst mér engin ágreiningsatriði og sjálfsagt, að sú skipting fari fram. Enda er ekki deilt um það. Það er aðeins um lögreglustjóra Rvíkur, sem ágreiningur stendur. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri rangt að blanda inn í þetta mál lögfræðilegri þekkingu lögreglustjóra. Það hefði vitaskuld verið hægt að ganga fram hjá því, en ef þetta frv. hefði gert það, þá voru aðrir menn í Nd., sem hefðu ekki látið það afakiptalaust, svo að málsmeðferðin hefði orðið svipuð og reynd hefur orðið á.

Um það er deilt, hvort lögreglustjóri þurfi að vera lögfræðingur. Ég hef þá skoðun, að hann eigi að vera það. Ég geri ráð fyrir, að hv. 6. þm. Reykv. sé mér sammála um, að þau fræði veiti alhliða andlega þjálfun. Það er hún, sem ég tel, að komi sér vel fyrir lögreglustjóra að hafa. Þar með er ég ekki að segja, að gáfaðir menn hafi ekki nokkuð af þessari þjálfun, þó að þeir séu ekki lögfróðir menn, menntun veitir það einnig, en þó dálítið öðruvísi.

Hv. 6. þm. Reykv. virðist hneykslast á, að skipun núverandi lögreglustjóra eigi að standa eftir sem áður. Hann veit, að oft er bætt við embættisskilyrðum, án þess að menn, sem í embættunum sitja, séu látnir fara frá, þótt þeir fullnægi þeim ekki, t. d. læknar. Það er rétt hjá hv. þm., að það má gera ráð fyrir, að núv. lögreglustjóri geti setið lengi, en „principsins“ vegna vildi ég, að þetta væri í frv.

Um það, sem hann segir, að það sé bábilja að breyta þessu, en láta hann sitja áfram, þá get ég ekki annað sagt en það, að þó að ég sé ekki svo framsýnn, að ég viti, hvað fram undan er, þykist ég vita, að það hljóti að koma sú tíð og það kannske fyrr en síðar, að það verði brýn nauðsyn að fá hann í annað starf, sem hann er allra manna færastur til að rækja, og ég get trúað því, að honum væri það starf ekki síður ljúft en það, sem hann hefur nú. Hann hefur látið þau orð falla við mig. En vitaskuld yrði það með þeim skilyrðum, að hann byði ekki við það fjárhagslegan hnekki.

En hvað sem því líður, þá lít ég svo á, að lögreglustjóri þurfi að hafa talsvert „autoritet“ og þurfi helzt að vera í því embætti þjálfaður maður, bæði andlega og líkamlega, og mér liggur við að segja ráðinn og roskinn. Ég er ekki að segja, að núverandi lögreglustjóri hafi ekki rækt starf sitt vel. Það má að öllu finna. Ég tel sjálfsagt, að hv. 6. þm. Reykv., sem sjálfur situr hátt og ekki í neinum friðarstóli, geti skilið það.

Ég tel óheppilegt, ef þessi deila yrði til þess, að málið félli eða að það sofnaði á þessu þingi, því að ég tel nauðsynlegt að skipta dómsmálastarfinu. Ég tel varla mögulegt, að einn og sami maður hafi yfirlit um allt starfið.

Viðvíkjandi niðurlagi brtt. hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja, að ég er þeirrar skoðunar, að lögreglukostnaður ætti allur að vera á landsins reikning, en að á meðan svo er ekki, ætti bæjarstjórn að hafa um val lögreglustjóra að segja, þó að bærinn greiði að vísu ekki kaup hans. En ég held þó, að þetta kunni að binda hnút, ef til vill óleysanlegan, t. d., ef bæjarstjórn óskar eftir sérstökum manni, en ríkisstjóri teldi sig ekki geta fallizt á hann. Þetta gæti komið fyrir. Það hefur komið fyrir svipuð deila milli lögreglustjórans og bæjarins út af skipun lögregluþjóna. Samkv. till. hv. þm. er enginn skipaður, nema báðir séu sammála. Mætti ríkisstjóri þá setja mann í embættið til bráðabirgða? Þyrfti hann samþykki bæjarstjórnar til þess? Og ef til þess kæmi að víkja lögreglustjóra frá, þyrfti þá líka samþykki bæjarstjórnar til þess? Hv. flm. hefur sjálfsagt hugsað þessi atriði.

Sem sagt, þó að mér finnist sanngjarnt, að bæjarstjórn hafi hönd í bagga með skipun lögreglustjóra, þá sé ég, að komið gæti til árekstra þarna. En ef hv. flm. getur leyst þessar gátur, þá gerir hann sjálfsagt grein fyrir því. Ég er ekki svo gáfaður, að ég geti í augnablikinu séð, hvernig verði úr þeim leyst.