23.11.1943
Efri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Út af orðum hæstv., dómsmrh. hér í gær, að skipting dómsmálaembætta hér í bæ hefði verið ráðgerð, án þess að gerði væri kostnaðaráætlun í því sambandi, — og að það væri slæmt, að þm. Barð. hefði ekki verið kominn á þing fyrr til að koma í veg fyrir slíkar skyssur —, þá vil ég upplýsa, að ég hef fengið þær upplýsingar, að kostnaðurinn við þessar breyt. muni verða um hálfa millj. króna. En hitt vil ég segja, að frv. hefði ekki hlaupið gegnum þingið, ef tölur hefðu verið fyrir því, og þá hefði ekki þessi leiðinlega deila um lögreglustj. átt sér stað.

Ég hélt annars, að sú ríkisstj., sem sett var til að ráðast á dýrtíðina, hefði öðrum hnöppum að hneppa en auka útgjöld ríkissjóðs. En auðvitað, þegar hún gefst upp við viðfangsefnið, þá er ekki að furða, þó að hún föndri við annað, á meðan hún situr hér í krafti ósamkomulags þingflokkanna.

Viðvíkjandi hafnarl., þá vil ég benda á, að þau eru ekki sett eingöngu fyrir Rvík, heldur fyrir allt landið, og ég vil líka benda á, að Rvík hefur ekki fengið nærri því eins mikið fé úr ríkissjóði til hafnargerðar að sínu leyti eins og aðrir staðir. Hún hefur aðeins fengið 400 þús. kr., þótt hafnargerð hér sé búin að kosta margar milljónir, en fyrir eyfirzkar hafnir og t. d. Húsavík hefur verið varið úr ríkissjóði margfalt meiru fé hlutfallslega. En þetta mannvirki hér er búið að verða til þess að veita ógrynni fjár út um allar sveitir landsins.

Um það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að mér hefði verið sagt að vera ekki að reisa mig hér á Alþ., — man hann, hver það var, sem sagði það? Það var hv. 2. þm. Árn., sem sagði, að ég skyldi ekki vera að reisa mig, vegna þess að ég væri útkjálkaþm. Og í hvaða sambandi? Af því að ég var að mótmæla þeim misrétti, sem þessum útkjálka var sýndur í vegamálum, meðan kjördæmið var í höndum framsóknarmanna.