24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera hér örstutta aths. út af ræðu hv. þm. Str. Hann ætti að geta sagt sögu þessa máls betur en ég, því að árið 1939, þegar l. voru sett, var hann sá ráðh., sem með dómsvaldið fór. En þegar hann talar um stefnubreyt. í þessu máli, held ég, að hún sé ekki eins veruleg og hann vill vera láta. Ég hef ekki annað fyrir mér en ákvæði laganna sjálfra, sem ég, með leyfi forseta, ætla að lesa upp, og er það 1. gr. l. nr. 67 31. ágúst 1939:

„Í Reykjavík skulu vera lögmannsembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. Konungur veitir þessi embætti, og skulu embættismennirnir fullnægja dómaraskilyrðum samkvæmt 32. gr. l. nr. 85 23. júní 1936.“

Þetta er fyrsta málsgr., en svo kemur innskot, sem mun hafa verið sett inn í l. fyrir forgöngu hv. þm. Str.:

„Undanþágu má þó veita frá framangreindum skilyrðum, að því er lögreglustjóra snertir, enda séu þá sett sérstök skilyrði fyrir veitingu þess embættis með konunglegri tilskipun.“ Þetta sýnir með öðrum orðum, að það er aðeins leyfð undantekning frá aðalreglunni með veitingu lögreglustjóra. Af hvaða ástæðum þetta er gert, hvorki get ég eða vil tala um. Það má vera, að formaður Sjálfstfl. hafi samþ. þetta, en að honum hafi ekki fundizt þetta falla undir valdssvið sitt, heldur dómsmrh. Þetta skiptir ekki svo miklu máli, því að aðalatriðið er nú, að samþ. hefur verið í Nd., ekki aðeins að fella niður undanþáguheimildina, heldur að gera enn þá frekari kröfur til þessa embættismanns. Og þá leiðir það af sér með rökréttri hugsun, svo sannarlega sem þessi embættismaður er fyrir borgara landsins, en ekki fyrir hann einan, að sá maður, sem uppfyllir ekki nema nokkuð af þeim settu skilyrðum, verður að víkja úr embættinu. Þegar maður svo athugar, að þessi maður er ekki nema 27 eða 28 ára, og óska menn honum sjálfsagt langra lífdaga, þá mundu l., sem nú er verið að setja, ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir 40 ár, ef draga ætti framkvæmd þessa ákvæðis, þar til hann lætur af embætti. Ég sé ekki, að manni sé gert neitt rangt til, þó að hann yrði fluttur til, og óska ég, að honum verði allur sómi sýndur með því. Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa orð mín fleiri.