24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Hermann Jónasson:

Ég er nú að vísu ekki búinn að sitja mjög lengi á þ., en held þó, að þau vinnubrögð, sem hér á að viðhafa, séu alveg ný: Það er að vísu svo, að sú grg., sem fylgir frv., sem síðar verða að l., skipta miklu máli um það, hversu túlka beri þau lög. Þær yfirlýsingar eða skilyrði, sem þm. láta fylgja, ná aðeins að tilteknu marki. Þótt nokkrir þm. lýsi yfir, að þeir samþ. frv. með vissri forsendu, þá er ekki hægt að taka það til greina við framkvæmd þeirra laga, nema fyrir liggi, að það sé vilji Alþ.,l. séu túlkuð þannig. Hv. 6. þm. Reykv. benti á, að í því felist ósamræmi, að sá maður, sem situr í embætti lögreglustjóra, eigi að vera lögfræðingur, en sá, sem nú situr í því embætti, eigi að sitja áfram, þótt hann hafi ekki þessa menntun. Í þessu er ekkert ósamræmi. Því var yfirlýst hér, að veita mætti embætti lögreglustjóra ólöglærðum manni, og í sambandi við þá stefnubreyt. var vitað, hverjum veita átti embættið. Alþ. veitti raunverulega embættið samkvæmt þessum l., því að samþykki þess lá í raun og veru á bak við. Þegar Alþ. fékk málið til athugunar í Nd., kom fram þessi sami vilji. Nd. var sömu skoðunar og þegar l. voru samþ., og neitaði, að þessi maður yrði fluttur til.

Með þessu segir Nd.: „Við berum það traust til þessa manns, að við álítum, að hann eigi að sitja kyrr. En jafnframt erum við þeirrar skoðunar, að framvegis sé hyggilegt, að sá maður, sem situr í embætti lögreglustjóra, hafi lögfræðilega þekkingu.“

Ef Nd. hefði talið þörf á, að þessi maður færi, hefði legið fyrir till. um, að hann yrði fluttur til. Framsfl. fellst á að samþ. þetta frv. ríkisstj. og að uppfyllt séu þau skilyrði, að jafnframt lögfræðiþekkingu hafi lögreglustjórinn sérþekkingu á lögreglumálum. Það er gott og blessað að bæta lögfræðiþekkingunni við, ef hægt er að koma því svo fyrir, að lögfræðingurinn sé jafnframt sérfræðingur í lögreglumálum. Á þessum forsendum er ég og að ég hygg allur Framsfl. fús til að fallast á að samþ. frv. Báðar þessar kröfur um lögfræðiþekkingu og lögreglumálaþekkingu eru nauðsynlegar. Nd. álítur, að núv. lögreglustjóri eigi að sitja kyrr. Ef úr því á að fást skorið, hver sé vilji þessarar hv. d., úr því, hver sé vilji hvers einstaks þm. hennar, þarf nafnakall. Eftir þann úrskurð lægi það skýrt fyrir, hve margir vildu flytja núv. lögreglustjóra til. En til þess þarf að koma fram till. frá þeim, sem vilja flytja hann. Ég sé ekki betur en að eftir þann úrskurð væri núv. lögreglustjóri eini embættismaðurinn, sem Alþ. vildi ekki flytja til.

Ég mun ekki skorast undan að ræða störf núv. lögreglustjóra, ef tilefni gefst, en það hefur ekki enn þá gefizt. Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að hægt er að finna að störfum allra. T. d. mun fjöldi manna hér í bænum finna að störfum borgarstjórans í Reykjavík, en inn á þetta vil ég ekki fara án tilefnis. Þetta er það, sem ég vil segja. Og fyrirvarar, sem verið er með í málum, eru því þýðingarlausir, eins og ég hef bent á.