10.09.1943
Neðri deild: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

36. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um kjötmat o. fl. fer fram á þá einu breyt., að kjöt, sem selt er til neyzlu innanlands, skuli metið á sama hátt og það, sem til útflutnings er ætlað. Samkv. gildandi l. var eigi skylt að meta af því nema saltkjötið. Af tveim ástæðum virðist sjálfsagt að meta kjötið allt. Ekki er vitað, hvað geti orðið flutt út og hvað selt á innlendum markaði. Og það er réttlætiskrafa innlendra neytenda, að þeim sé veitt jöfn trygging um kjötgæði og erlendum kaupendum.

Í s. l. ágústmánuði var að tilhlutun atvmrh. haldinn fundur í Rvík um kjötsölumálin. Sóttu hann yfirkjötmatsmennirnir, umboðsmenn fyrir stærsta kjötútflytjandann og menn úr kjötverðlagsnefnd. Fundurinn ræddi um kjötmat, og ein af niðurstöðum hans var að leggja til, að þessi lagabreyt. yrði gerð.

Ég vildi mæla eindregið með því, að málinu yrði hraðað gegnum d., svo að það gæti verið orðið að l., þegar haustslátrun hefst í þessum mánuði. Ég legg til, að frv. verði vísað til landbn. að lokinni umr.