30.09.1943
Efri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

36. mál, kjötmat o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Þegar lög eru tekin til endurskoðunar, tel ég varhugavert að gera einungis málamyndabreytingar og láta heita svo sem réttlætinu sé þar með fullnægt. Sérstaklega á þetta við hér, þegar þeir hafa unnið að frv., sem færastir áttu að vera til þess, og ríkisstj, hefur gert málið að sínu máli, borið það fram sem stjfrv., án þess að tekin hafi verið til endurskoðunar atriði, sem verulega þýðingu hafa, né ráðin bót á vanköntum laganna í framkvæmdinni.

Nú hefur verið felld till. í Nd. um það, að flokkunin skuli ráða verði til neytenda, og eftir öðrum upplýsingum virðist einnig allvel ljóst, að það verð muni ekki látið fara eftir flokkuninni. Þá virðist mér alveg vera skýringa vant á því, hvað vakti fyrir ríkisstj. með frv. eða fyrir kjötmatsmönnunum, sem sömdu það. Ég hreyfði aths. í gær til að reyna að fá vitneskju um þetta, en gögn um það hafa engin borizt enn. Það liggur að vísu fyrir, að meðferð kjöts til sölu á innlendum markaði sé mjög á annan veg veg en vera skyldi og skuli gæðamunur kjötsins nú staðfestur með mati. En þar sem það mat á engu að breyta um verð til venjulegra neytenda, sé ég ekki af þessu markmið frv. Þess vegna leyfði ég mér að hafa orð á, að duldar ástæður hlytu að liggja að baki. Af hinni skýru og hóflegu ræðu hv. frsm. (PHerm) varð ljóst, að n. ber ekki að ásaka, en hitt varð engu ljósara en áður, hvað vakti fyrir aðstandendum frv. Eftir gildandi l. um uppbætur á kjöt bænda og samkomulagi sex manna n. um það efni er nokkuð vafasamt, hvort þeir, sem með kjötið verzla, hafa leyfi til að setja á það mismunandi verð eftir flokkum. Sex manna n. setti engin ákvæði um það atriði. Þess vegna virtist mér þurfa að gera það í þessu frv. Ég hef allan fyrirvara á því, en einhver sagði mér, að þessi breyt. mundi ekki koma til góða neytendum, heldur verða til þess, að sláturhús og aðrir slíkir aðilar fengju einhverja peninga í sinn hlut til ráðstöfunar. Ég hjó eftir því, að ummæli hv. frsm. gátu gefið tilefni til að álita þetta rétt, þegar hann sagði, að gagnvart framleiðendum væri auðvelt og rétt að hafa mismunandi verðflokka, en gagnvart neytendum síður, — það væri ýmsum takmörkunum háð. Mér finnst málið þá ekki eins brýnt, ef tilgangur þess er ekki annar en sá, að þeir, sem hafa á hendi heildsölu á kjöti, geti grætt eitthvað meira en ella.

Ég bíð andsvara, og meðan gögn skortir um tilgang frv., verð ég að telja það gagnslaust og jafnvel að ýmsu leyti skaðsamlegt, eins og ég tók fram í byrjun ræðu.

Ég get nú stytt mál mitt. Um eftirlit og meðferð kjötsins skiptir það vitanlega miklu máli, að slátrun til sölu innan lands þarf ekki að fara fram á löggiltum sláturhúsum né mat læknis á kjötinu að fara fram fyrr en alllöngu eftir slátrun, en kjöt til útflutnings er skoðað strax. Að minnsta kosti í Reykjavík, sem hefur stórt og fullkomið sláturhús, ætti öll slátrun til innanlandssölu að fara fram í löggiltu sláturhúsi. Þá er það önnur vöntun gildandi l., að alls ófullnægjandi er, að skoðun fari fram á kjötinu úti á landi, ef það sætir síðan misjafnri meðferð, áður en það er komið á sölustað og selt. Þetta er eins og segir um mjólkurmatið í góðri grein í Mbl. í morgun, að ónóg er að meta mjólkina t. d. austur í Vík í Mýrdal og selja hana samkvæmt því mati, eftir að svo er búið að flytja hana til Reykjavíkur. Mat verður að framkvæma á sölustaðnum.

Ég vil nú bíða 3. umr., ef upplýsingar fengjust þá um tilgang frv. En ef þá verður ljóst, að þetta sé hreint hégómamál eða tilgangur vafasamur, finnst mér það eitt liggja fyrir að vísa því frá með rökstuddri dagskrá, þess efnis, að d. taki fyrir næsta mál á dagskrá í trausti þess, að ríkisstj. láti undirbúa fyrir næsta Alþ. frv. um gagngerðar endurbætur á kjötlögunum, á reglum um meðferð kjöts og verðflokkun, sérstaklega að því er snertir innlendan markað.