04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég á hér 2 brtt. við frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir. Áður en ég mæli fyrir þessum till., vildi ég leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu hennar á málum þeim og erindum, sem ég hef lagt fyrir n.

Þær till., sem ég flyt hér á þskj. 314 ásamt 5. landsk., varða fyrst og fremst Bolungavík. Fyrri till. lýtur að því að fá upptekna fjárveitingu sem styrk til Bolvíkinga til þess að hafa lærða hjúkrunarkonu. Bolungavík er ein stærsta verstöð á Vestfjörðum, og við höfum talið nauðsyn bera til þess að fá nokkurn fjárstyrk til þess að hafa þar lærða hjúkrunarkonu. Í Bolungavík eru annir miklar meiri hl. árstímans á heimilum þorpsbúa, og er mikil þörf fyrir hjúkrunarkonu til þess að sinna hjúkrunarstörfum þar. Í þessari gr. fjárl., sem brtt. er við, hafa einnig verið ákveðnar nokkrar fjárveitingar til þess að hafa lærðar hjúkrunarkonur. Við höfum því talið eðlilegt, að í þessu stærsta sjávarþorpi á Vestfjörðum væri einnig veitt nokkur fjárveiting til slíkra starfa. Vænti ég þess vegna, að hv. Alþ. snúist ekki öndvert gegn þessu, en að þetta verði talin nauðsyn og að ríkissjóði beri að hlaupa undir bagga í þessu skyni. Um þessa brtt. tel ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð né rökstyðja hana meira.

Önnur brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. landsk. á sama þskj., er við lið XVI, en það er um 1200 kr. fjárveitingu til sjómannalesstofu í Bolungavík. Í þeirri gr., sem brtt. er við, eru nokkrar till. bæði í frv. hæstv. stj. og í brtt. hv. fjvn., sem lúta að þessu efni. Við flm. þessarar brtt. teljum., að í þessu stærsta sjávarþorpi á Vestfjörðum beri nokkra nauðsyn til þess að koma á fót slíkri lesstofu. Slík lesstofa hefur ekki verið þar á undanförnum árum, en allmargir sjómenn og útgerðarmenn hafa rætt um það við okkur, að til þess bæri nauðsyn, og áhugi ríkir fyrir því í Bolungavík að koma slíkri lesstofu upp. Það er öllum kunnugt, að í sjávarþorpum eru allmargir dagar á hverju ári, sem sjómenn hafa fría, og þessum dögum verður ekki betur varið á annan hátt en þann, að sjómönnum sé gefið tækifæri til þess að sitja við lestur góðra bóka og eyða tómstundum sínum á þann veg. Þess vegna er það, að við förum þess á leit við hæstv. Alþingi, að það skapi möguleika til þess í samvinnu við hreppsnefnd og sjómenn í Bolungavík, að slíkri lesstofu yrði á fót komið. Ég vil því mjög undirstrika það, sem felst í þessari till. Það er að vísu vitneskja mín, að án þess að Alþingi verði við þessari beiðni verði þessari lesstofu á fót komið, en hins vegar er það skoðun mín, að slíku fyrirtæki sé að því mikill styrkur, að hv. Alþingi hnígi til fylgis við slíka lítilfjörlega fjárveitingu. Það er nú svo, að frá útveginum í okkar landi kemur þjóðfélaginu mikill styrkur til fjölmargra framkvæmda, sem gerðar eru, og því er það skoðun mín, að það sé ekki ósanngjörn krafa að fara fram á, að sjómenn í Bolungavík fái lítinn styrk eins og þann, sem farið er fram á í þessari till. Frekar tel ég mig ekki þurfa að rökstyðja þessa till.

Á sama þskj., 314, flyt ég ásamt hv. 1. landsk. og hv. þm. Mýr. till. um 1200 kr. styrk til Sigurðar Níelssonar verkamanns í Reykjavík. Það mun vera svo, að 1. flm. mun mæla fyrir till., og tel ég ekki þörf margra orða, en vil segja, að það er sanngirniskrafa, að þessum aldurhnigna verkamanni verði sýndur nokkur sómi og viðurkenning af hálfu Alþingis, og þess vegna hef ég gerzt meðflm. þessarar till. Þetta er maður, sem hefur unnið alla ævi að verkamannastörfum hér í Reykjavík og víðar, og hefur hann hlotið viðurkenningu, þar sem honum var veitt fálkaorðan fyrir vel unnin störf. Hann hefur verið talinn mjög nýtur maður og góður starfsmaður, og þeir menn, sem hafa innt af höndum slík störf sem hann í þjóðfélaginu, eiga það skilið, að Alþingi sýni þeim nokkurn vott viðurkenningar. Ég tel svo ekki þörf að fara fleiri orðum um mínar brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil ítreka þakkir mínar til fjvn. fyrir að taka vel mínum málaleitunum. Ég mun ef til vill við 3. umr. bera fram nokkrar brtt., þó að því tilskildu, að fjvn., sem ég mun hafa samvinnu við, vilji ekki taka til greina frekari brtt., sem ég hef fram að bera.