01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

36. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Mér er skýrt svo frá, er mál þetta var hér til umr. í d., eftir að það kom úr n., þá hafi hv. 6. þm. Reykv. gert athugasemd eða fyrirspurn, m.a. í tilefni af því, hvers vegna ekki væru sett ákvæði inn í l. um verðmun á kjöti eftir flokkum, bæði til seljenda og neytenda. Að mínu áliti er ekki nauðsyn á þeim ákvæðum í l. Mér finnst það liggja svo í augum uppi, að gerður verði greinarmunur í verði á góðri vöru og lakari, eftir að flokkunin hefur verið fyrirskipuð. Enda er það svo, að nú þegar er farið að gera greinarmun á bezta og lakasta kjöti í útsölu. Bændur fá einnig mishátt verð fyrir kjöt eftir gæðaflokkum, eða svo veit ég að er a. m. k: á Norðurlandi, þar sem ég er kunnugastur. Það er því engin nauðsyn að setja ákvæði um þetta inn í l., það er svo sjálfsagt.

Mér hefur einnig verið skýrt svo frá, að hv. þm. hafi borið fram þá fyrirspurn, hvort ekki giltu sömu ákvæði um eftirlit með heilbrigði fjár á undan slátrun, hvort sem kjötið ætti að fara á erlendan markað eða innlendan. Ég get upplýst, að dýralæknir skoðar féð, áður en slátrað er, ef flytja á kjötið út, en jafnframt skal þess getið, að ákvæði um það efni eru komin inn í l. vegna þess, að Bretar gera það að skilyrði, en þeir eru okkar aðalkaupendur. Þetta ákvæði er því meira formsatriði til samræmis við lög þeirra en veruleg þörf sé á þessari athugun. Mér er kunnugt um það frá núv. yfirdýralækni, sem mun hafa haft meira eftirlit með fé en nokkur annar, að hann telur skoðun á kjötinu nægilega, en eftirlit með fénu á undan slátrun þýðingarlausa og veiti hún neytendum enga tryggingu. En ákvæði um þetta eru í l. eins og áður er sagt, af því að Bretar setja þau skilyrði.

Ég læt þetta svo nægja að sinni, þar eð mér er ekki kunnugt um fleira, sem upplýsa þarf.