02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

36. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Ég verð nú að hafa þá skoðun, að þetta muni vera nokkuð vafasamt að hrekja þetta frv. milli d. fyrir þessa breyt. Ég hef óefað tekið það fram hér við umr. í d. um þetta mál, að ég teldi eðlilegt og sjálfsagt, að verðmismunur yrði gerður á kjöti eftir flokkum, bæði til þeirra, sem framleiða það, og líka í sölu til þeirra, sem kaupa kjötið. Ég gat þess hins vegar, að enda þótt það sé auðvelt að hafa mismunandi verð á kjöti til framleiðenda, þá er ekki auðvelt að hafa mismunandi verð á kjöti til þeirra, sem selja kjötið í smásölu. Ef því þessi ákvæði ættu að koma inn í þetta frv., finnst mér þau ættu að ná yfir bæði tilfellin, þannig að taka ætti inn í frv., að verðmismun skuli gera til seljenda og einnig til framleiðenda. Annars finnst mér það hljóti að verða svo í framkvæmdinni, að þetta verði gert, vegna þess að ég get ekki skilið, að kjöt verði flokkað eftir gæðum öðruvísi en að þessi verðmismunur komi fram. Ég mun ekki flytja brtt. til viðbótar brtt. frá hv. 6. þm. (BBen) um verðmismun á kjöti til seljenda þess, vegna þess að ég held, að þetta verði þannig í reyndinni, og mun ég því greiða atkv. móti þessari brtt.