07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

36. mál, kjötmat o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Ég hygg það geti ekki orkað tvímælis, að sú breyt., sem hér er um að ræða, snerti aukaatriði málsins. Það mat, sem hér á að fara fram, getur samkv. eðli málsins ekki haft mikla þýðingu. Hins vegar er gengið fram hjá aðalatriðinu, sem sé, að kjöt sé metið og grandgæfilega skoðað, rétt áður en sala fer fram, — því að þótt kjöt sé flokkað á sláturstöðum úti á landi, — ef ekki fer fram rækileg skoðun á því, rétt áður en sala á sér stað, þá er ljóst, að það mat, sem gert var úti á landi, hefur tiltölulega litla þýðingu, því að kjöt getur verið orðið skemmt, þegar til sölu kemur. Þess vegna taldi ég og sumir aðrir í Ed., að fyrst verið væri að breyta l., þá væri bezt að snúa sér að þeirri hlið málsins, þar sem ágallar hafa komið í ljós, þar sem bæði heilbrigðisfulltrúar og aðrir hafa borið um það, að það, sem upphaflega var góð vara, hefur stundum verið orðin slæm vara, þegar til sölu hefur komið. Ég benti á þetta í Ed. og beindi því til hæstv. ríkisstj., hvort ekki gæti komið til greina að láta gera breyt. á kjötmatsl. samkvæmt þessu. Henni þótti það ekki fært, en taldi eðlilegast, að slíkt væri gert að till. kjötmatsmanna.

Hér er þó ekki um svo stórt atriði að ræða, að þurfi að standa á móti, þótt það snerti ekki það, sem mestu varðar. En úr því að þessi breyt. er samkv. till. kjötmatsmanna, þá mátti krefjast þess, að hún hefði einhverja raunverulega þýðingu, en ekki eins og mjólkurmatið, sem kemur ekki fram í verðbreyt., hvorki til neytenda né framleiðenda. Og fyrst mat er á kjöti á innlendum markaði, þá ber að varast þau víti, sem vart hefur orðið í sambandi við mjólkina. Þess vegna er það, að sá hv. þm., sem er einna bezt að sér í mjólkurmálum, — flytur um þau mörg erindi o. s. frv., — hv. 2. þm. N.-M., bar fram í Nd. till. um, að ákvæði tilsvarandi þessu væru sett inn í frv., og það er ljóst, að þegar jafnfróður maður og bændum jafnóumdeilanlega velviljaður ber fram slíkar till., þá er ekki hægt að gruna hann um ofsóknir eða ósanngirni í þeirra garð eins og e. t. v. okkur.

En hvað um það. Meiri hl. Ed. leizt svo sem brýna nauðsyn bæri til að fallazt á till. hv. 2. þm. N.-M., annars væri hér um þýðingarlausa löggjöf að ræða. Við viljum sem sagt fallast á, að þetta mat verði tekið upp, en því aðeins, að það verði að gagni og komi fram í verðlagi vörunnar.

Á meðan kjötmatið var miðað við útlendan markað, þá gátu Íslendingar engu ráðið um verðlagið, en þegar fara á að lögbjóða mat fyrir innlendan markað og innlendar stofnanir ákveða verðið, þá er óhjákvæmilegt, að tekið sé fram í l., að þetta skuli hafa áhrif á verðlagið.

Það væri villandi og sýndi það, að Alþ. vildi ekki, að tekið væri tillit til þess, ef brtt. á þennan hátt væru hvað eftir annað felldar. Þá væri því líkast, að hér væri verið að blekkja menn til þess að láta þá halda, að nú væri betur tryggð meðferð kjöts en áður hefur verið. Þess vegna vona ég, að meiri hl. manna í sameinuðu þingi verði ásáttir um það að láta ákvæðið halda sér. Hv. 2. þm. Skagf. vill halda því fram, að þetta eigi ekki heima í þessum l., en það er á misskilningi byggt vegna þess, að þó að það ætti ekki heima í þessum l., á meðan einungis var um útlendan markað að ræða, þá á það heima í þessum l. nú. En aðalatriðið er það, að komin eru ný í og aðrar kringumstæður, og það er óeðlilegt að standa á móti því, að þetta ákvæði komist í l.