07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

36. mál, kjötmat o.fl.

Bjarni Benediktsson:

Hv. 2. þm. Skagf. þótti það kynlegt, að ég hefði fallizt á, að mat færi fram. En ég vil halda því fram að mín skoðun sé eðlileg, vegna þess að mat á þessu stigi er að vissu leyti blekkjandi gagnvart neytendum. Ef það á að tryggja, að neytendur fái góða vöru, verður að tryggja það, að fram færi rækileg skoðun eða mat á kjötinu, áður en sala á sér stað, og það er alveg blekkjandi gagnvart neytendum, ef það á að halda því fram, að skoðun á kjötinu, sem hefur farið fram löngu áður, sé trygging fyrir því, að þeir fái góða vöru. Ég skal játa, að þetta mál er ekki einfalt til úrlausnar, og þess vegna hefði verið eðlilegt, eins og lagt var til í Ed., að þetta mál væri heldur athugað af ríkisstj., áður en það var lagt fram. En mín afstaða markast af því, að sú skoðun, sem hér fer fram á kjötinu, er ófullnægjandi til þess að tryggja það, að neytendur fái sæmilega vöru. En hins vegar játa ég, að það er nokkuð til í því, að það sé nauðsynlegt að skoða kjötið, um leið og það kemur frá framleiðendum. Því orðaði ég það svo, að ég gæti fallizt á þetta. En þetta er ekki fullnægjandi og beinlínis blekkjandi og til þess að halda frá vöruvöndun, ef ekki á jafnframt að tryggja það, að þetta komi fram í verði kjötsins. Ef það hefur ekki vakað annað fyrir hv. þm. N.-M. en það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, þá er því einnig náð með okkar till., vegna þess, að ef gerður er verðmunur til neytenda, hlýtur einnig að koma fram verðmunur til framleiðenda. Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Mér skilst, að skriflega hafi ekki annað komið fram en það, að þetta færi betur í öðrum l., og tel ég það svo veigalitla mótbáru, að ég vil skora á hv. alþm. að skeyta ekki um þá mótbáru.