05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

27. mál, fjárlög 1944

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Ásamt hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Snæf. á ég brtt. á þskj. 331, IX. Hún fjallar um styrk til skálda, listamanna og rithöfunda. Fjvn. hafði ákveðið 120 þús. kr. grunnstyrk, en við leggjum til hækkun upp í 150 þús. kr., og að sjálfsögðu einnig, að verðlagsuppbótin hækkaði að sama skapi. Till. okkar er ekki borin fram út í bláinn, heldur af brýnni nauðsyn. Á síðasta þ. var gerð breyt. á úthlutun fjárins á þann hátt, að menntamálaráði var falið að úthluta fénu milli fjögurra deilda bandalags ísl. listamanna, og svo áttu þessar deildir að sjá um úthlutun til einstakra manna. Þetta reyndist mikið vandaverk fyrir menntamálaráð, og orsakirnar voru fyrst og fremst þær, að fyrrum hafa það aðallega verið rithöfundar og skáld, sem nutu opinbers styrks, en t. d. hafa leikarar sama og ekkert opinbert fé fengið. Við tókum það upp í menntamálaráði að byggja á styrkúthlutuninni eins og hún hafði áður farið fram, og útkoman varð sú, þegar deilt var niður upphæðunum, að rithöfundar og skáld fengu rúmar 60 þús. kr., málarar 20, tónlistarmenn 10 og leikarar 5 þús., en samkv. reglum við úthlutunina bar þeim þó ekki að fá nema rúml. 500 kr. Sumar deildirnar voru ekki ánægðar með þessa úthlutun. Einkum voru leikararnir óánægðir og treystu sér ekki til að skipta upphæðinni, og það átel ég ekki. En hvernig gat menntamálaráð fundið önnur úrræði? Það var ekki hægt, nema ganga mjög á hlut hinna. Af þessum sökum er það knýjandi nauðsyn, að hækkun verði á styrknum til skálda, rithöfunda og listamanna. Menntamálaráð tók þetta til athugunar fyrir nokkru, og með shlj. atkv. var ákveðið að senda áskorun til fjvn. um, að grunnstyrkurinn yrði ekki lægri en 150 þús. kr., og bréf var sent um þetta. En eins og hv. 2. landsk. þm. upplýsti í gær, var þetta tekið fyrir á fundi fjvn., en þá vildi svo illa til, að einn menntamálaráðsmaður, sem á sæti í n., hefur snúizt á móti till. Það er einkennilegt, því að hann gerði engan ágreining í ráðinu. Ég vildi upplýsa þetta í Sþ., að þessi þm., sem var á móti hækkunartill. í fjvn., gerði ekki ágreining um hana í menntamálaráði.

Mér þykir líklegt, að ef Alþ. sér sér ekki fært að verða við þessari hóflegu ósk menntamálaráðs, sjái það sér ekki fært að annast úthlutunina með sama hætti og síðast.