05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

27. mál, fjárlög 1944

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef ekki borið fram stórar brtt., og eru ástæðurnar þær hvað snertir þá brtt., sem ég hefði kosið að gera um framlag til Vestmannaeyjahafnar, að fullnægjandi upplýsingar liggja ekki enn fyrir um ágreiningsatriðið milli mín og fjvn. Mér var falið af bæjarstjórn Vestmannaeyja að fara fram á 320 þús. kr. styrk, en vegna ágreinings milli mín og n. varð það að samkomulagi, með samþykki vitamálastjóra, að n. setti inn 220 þús. kr. til framkvæmda, en ég álít, að það sé of lágt. Það fyrirheit var gefið af form. n., að ef slíkar upplýsingar, sem við þyrfti, kæmu fyrir 3. umr., stæði þetta til bóta.

Ásamt nokkrum þm. fer ég fram á, að frú Önnu Pálsdóttur verði veittur nokkru meiri styrkur en fjvn. ætlast til. Þessi vinsæla listakona og kennslukona er svo á vegi stödd vegna húsnæðisleysis, að hún getur ekki unnið sín daglegu kennslustörf og er því tekjulaus með tvö dótturbörn sín, svo að ástæður hennar eru mjög slæmar, og það hefur komið mér og öðrum þm. til að gera þessa brtt.

Það er nú svo, að einn mætur maður í fjvn. benti mér á, að formsins vegna ætti ég að taka till. aftur, og skyldi þá verða athugað að fara aðrar leiðir í n. til að komast að sama marki. Þessi virðulegi fjvnm. er ekki staddur hér, og þar sem ekki var að heyra frá hans hálfu, að það væri annað en formið, sem ábótavant var, er mér um og ó að taka till. aftur, enda hef ég ekki ráðgazt við hina flm. En ef fjvn. vildi lofa athugun á þessu, mundi ég ekki setja mig á móti því að taka till. aftur.

Þá er önnur brtt., sem ég á viðvíkjandi Helga Árnasyni. Hann var húsvörður Safnahússins um langt skeið og hefur nú verið farinn að heilsu um lengri tíma, og hygg ég, að heilsuleysi hans stafi að verulegu leyti af því, að hann er búinn að vera í dragsúg í anddyri Safnahússins í 3/4 hluta úr meðalmannsævi. Ég og annar hv. þm. leyfum okkur því að fara fram á lítils háttar hækkun til hans, og vona ég, að Alþ. geti fallizt á það.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Það gefst sennilega tækifæri til þess að gera það betur við 3. umr. og koma þá inn á ýmsar stærri till., sem ég býst við, að verði frestað til þeirrar umr., en þær eru margar fyllilega þess verðar, að um þær sé rætt, en það mun nægilegt að gera það við 3. umr.