05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

27. mál, fjárlög 1944

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram örfáar brtt. á þskj. 314 og 331, og vil ég nú minnast lítið eitt á þær, áður en umr. er lokið.

Þá er það fyrst brtt. XIII á þskj. 314, kirkjubyggingarstyrkur, en sú till. er um, að veittar verði 15 þús. kr. til byggingar Reyniskirkju í Mýrdal. Ég býst við, að hv. þm. muni, að á síðasta þingi var réttilega tekinn upp sá háttur að styrkja söfnuði til þess að koma sér upp kirkjum, ef kirkjur þeirra höfðu á einhvern hátt eyðilagzt af óhöppum. Nú tel ég það einnig ekki nema eðlilegt, að ríkið styrki söfnuði landsins til þess að reisa kirkjur, hvernig sem stendur á því að kirkjur falla.

Nú er það lítill og fátækur söfnuður, sem stendur að þessari kirkju, og það er þannig ástatt um hana, að hún hefur ekki aðeins verið ómessufær um langan tíma, heldur fauk hún einnig af grunni s. l. vetur, eins og átti sér stað um kirkjurnar á Melstað og Staðastað.

Ég sé nú, að síðan þessi till. mín kom fram, þá hafa komið fram fleiri till. um svipað efni. Ég tel líka, eins og ég gat um áðan, að ríkið verði að taka upp þann hátt að styrkja landsmenn til þess að reisa sér kirkjur, og ég lít með velþóknun á það, að landsmenn skuli nú farnir að leita hingað í þeim tilgangi, því að ég tel það sýna áhuga á kirkjulegum málefnum. Það gefur að skilja, að söfnuðir þessa lands, sem eru fátækir og hafa ekki aðra tekjuöflunarleið en að leggja nefskatt á meðlimi sína, þeir geta ekki reist kirkjur sínar sjálfir, þannig að þær verði með þeim myndarbrag, sem kirkjur þurfa að hafa. Það er því sjálfsagt, að Alþ. styrki þá söfnuði, sem eru að reyna að reisa sér kirkjur og sýna með því lofsverðan áhuga. Það er engum vafa bundið, að Alþ. verður að ganga inn á það að styrkja landsmenn til þess að reisa sín guðshús, meðan sérstök þjóðkirkja er í landinu, vernduð af ríkisvaldinu. Það er líka hægt að segja það þjóðinni til lofs, að hún skuli vera svo fastheldin, að hún vill halda þessu fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum. Nú hefur það verið svo á þessu landi, að hvorki Alþ. ríkisstj. hafa skilið, hvað ætti að gera í þessum málum og hvað ætti að vera. Stjórnarvöldin hafa ekki skilið það, að úr því að stjskr. gerir ráð fyrir því, að ríkið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna, þá verður það líka að sjá um það, að kirkjur séu til í landinu. Það verður hins vegar ekki gert nema annaðhvort með því að auka tekjuöflunarmöguleika safnaðanna eða þá með því, að ríkið styrki þá til þess að reisa kirkjur. Nú ber engan veginn að líta svo á kirkjubyggingar, að það sé nægilegt að koma upp einhverjum kofa, sem sé rétt fokheldur. Nei, húsið verður að vera veglegt bæði utan og innan, og það er vitað, að slíkt kostar meira en fáir menn geta risið undir.

Þessi mál eru þess eðlis, að hið opinbera getur ekki látið þau afskiptalaus, jafnvel þótt fríkirkja væri í landinu, vegna þess hve miklu trúar- og siðgæðislíf í landinu varðar þjóðfélagið í heild. Viðurkenning verður því að fást, og hún mun fást, á því að þessi mál beri að styðja. Flestir munu vera ásáttir um það, að þótt ríkið haldi uppi prestunum, þá sé það ekki nóg, því að þeir verða að hafa kirkjur, þar sem þeirra starfsemi er að svo miklu leyti við þær tengd. Það er einnig gefið, að þótt hið opinbera reisti kirkjurnar alveg, sem ég er þó ekki að fara fram á, þá munu þó söfnuðirnir heima fyrir hafa nóg verkefni við að búa kirkjur sínar sæmilega, og það mun vera fullnóg fjárhagslega fyrir söfnuðina að inna það vel af hendi. Ég býst við, að hv. þm. verði þetta ljóst. Nú er þess farið á leit, í skjóli þess réttar, sem stjskr. veitir um stuðning ríkisvaldsins, að byrjað sé með því að styrkja þá söfnuði, sem ætla að reisa sjálfir kirkjur sínar, til þess að koma þeim upp. Það er hið auðveldasta, sem hægt er að komast af með.

Ég skal benda á það, að þótt hér sé farið fram á 15 þús. kr. styrk, þá er það ekki mikil upphæð nú og ekki meiri en ca. 5000 kr. áður, en það hrekkur skammt til þess að reisa hvaða hús sem er. Hv. þm. þarf því ekki að ægja þetta; því að fjárveitingar eru nú yfirleitt ekki reiknaðar í þúsundum, heldur í hundruðum þúsunda og milljónum, og það eru meira að segja samþ. þál., sem kosta ríkið margar milljónir. Fjvn. hefur ekki tekið þennan styrk með, en ég þykist þess fullviss, að hv. þm. muni fúsir til að greiða þessu atkv. Þetta er eina lausnin til bráðabirgða, um leið og gengið er inn á þessa braut, sem þegar hefur verið troðin og er fyllilega réttmæt. Ég vænti því þessari till. eins og öðrum góðum till. góðs fylgis á Alþ.

Þá á ég og till. á þessu sama þskj., 314, XVIII, sem er um sandgræðslu. Þar er farið fram á, að styrkur til sandgræðslu hækki um 20 þús. kr. Mér hefði ekki komið til hugar að blanda mér inn í þetta mál, nema af því að svo sérstaklega stóð á, að þessi 20 þús. kr. styrkbeiðni til viðbótar til sandgræðslu í Álftaveri, en hún kom frá sandgræðslustjóra og Búnaðarfél. Ísl., hefur fallið niður úr fjárgreiðslum. Það er vitað, að austur á Meðallandi og í Álftaveri er brýnasta þörf á að halda því við, sem þar hefur verið gert, og jafnframt að auka stórum við, ef vel á að vera. Svo er mál með vexti, að Búnaðarfélag Íslands fór fram á það í till. sinni til ríkisstj., að veitt yrði til sandgræðslu í Meðallandi hærri upphæð heldur en ríkisstj. tók upp, sem sé 50 þús. kr. Annars eru þessar 50 þús. kr. aðeins hluti af því, sem í raun og veru þyrfti með, en samt felldi ríkisstj. þessa upphæð niður og áleit, að ekkert lægi á henni. Þegar ég bar þetta í tal við hæstv. fjmrh., kannaðist hann við það, að hann hefði haldið, að þetta væri svo, en nú hefði hann hins vegar fengið betri upplýsingar og komizt að raun um, að þetta væri þvert á móti, og kvaðst mundu taka þetta mál aftur inn. Um leið var það, að Búnaðarfélagið gekk eftir því við fjvn. að fá þennan 50 þús. kr. styrk til viðbótar, sem að sjálfsögðu var eingöngu ætlaður til sandgræðslu í Meðallandi. Mér er því spurn, hvernig á því stóð, að 20 þús. kr. sem farið var fram á af Búnaðarfélaginu til varnar uppblæstri á Álftaveri, voru ekki einnig teknar með í till. af fjvn. Þessi upphæð er ekki há, en hún er samt nóg til þess að stemma stigu fyrir uppblæstri landsins á þessu svæði, því að það er sannað mál, að þetta er byrjun á uppblæstri, sem með þessari upphæð væri hægt að binda endi á. Þá sögu er að segja úr Meðallandi, að þar er land mjög uppblásið, en í Álftaveri er aðeins byrjun á uppblæstri. Spurningin er því sú, hvort er betra að koma í veg fyrir með þessum 20 þús. kr., að allt héraðið blási upp, eða að verja 100 þús. kr. til að reyna að bjarga því, þegar í óefni er komið. Þannig liggur málið við frá Búnaðarfélagi Íslands og sandgræðslustjóranum. Þess vegna er það von mín, að fjvn. taki þessa viðbótarupphæð með. Í raun og veru er það hlálegt, að ekki skuli meiru en á annað hundrað þús. kr. vera varið til sandgræðslu og til varnar uppblæstri á þessum tímum, sem milljónum er kastað í mold, sem er í herfilegu ástandi. Svo er þetta land, sem er hálfuppblásið, það fær fé af skornum skammti til þess að reyna að græða upp aftur það, sem farið er forgörðum af þessari frjósömu sveit. Ég mun taka þessa till. aftur til 3. umr. og treysti því, að fjvn. líti á þetta mál á þann veg, eins og ég tel Íslendinga líta á það, gagnvart vörnum landsins.

Einnig á ég brtt. á þskj. 331, V. lið, sem er við brtt. 296, 34.8. (Við 13. gr. A. III. — Brú á Hörgsá). Liðinn skal orða svo: Hörgsá og Stjórn á Síðu. Er þarna því um tiltölulega hærri upphæð að ræða heldur en upprunalega í frv. Svo er mál með vexti, að þessar tvær smáár hafa alltaf fylgzt að í öllum brúalögum, og er því ætlazt til, að þessar tvær ár fari saman, þegar brúað yrði, því að vafalaust yrði það mikill vinnu- og efnissparnaður, ef hægt væri að brúa þær báðar í einu. Þess vegna tel ég rétt að orða þennan lið þannig. Upphæðin, sem þarna er tiltekin, er álitin nægja fyrir báðar þessar brýr, en það er til lausleg áætlun fyrir hvora um sig, og getur það orkað tvímælis, hvort ekki ætti að áætla aðra lægri, en hina hærri. Áætlun um aðalupphæðina er gerð í samráði við vegamálastjóra, og lét hann svo um mælt, þegar Geirlandsá var brúuð fyrir skemmstu, að undinn yrði bráður bugur að því að brúa þessar tvær ár. Næst liggur því fyrir, að mínu áliti, að brúa ekki aðeins aðra af þessum ám, heldur báðar. Ég mun einnig taka þessa till. mína aftur til 3. umr., til þess að gefa fjvn. kost á að taka hana til frekari athugunar.

Hins vegar gegnir öðru máli um brtt., sem ég á á þskj. 314, XIII, því að ég ætlast til, að við þessa umræðu komi hún til atkv. Þessi liður kveður á um styrk til endurbyggingar á Reyniskirkju í Mýrdal, sem, eins og öllum er kunnugt um, er fornfræg kirkja og kirkjustaður. Allir aðilar, er þarna standa að, hafa mjög mikinn áhuga á, að þetta komist í framkvæmd, og t. d. var þetta mál tekið fyrir á hinum almenna kirkjufundi, sem hér var haldinn í haust, og var þar eftirfarandi ályktun gerð:

„Hinn almenni kirkjufundur 1943 telur eðlilegt, þar sem kirkjan er ákvörðuð þjóðkirkja eða ríkiskirkja samkv. 57. gr. stjskr., að ríkinu beri skylda til að styðja söfnuði landsins til nauðsynlegra kirkjubygginga með ríflegum styrkjum úr ríkissjóði.“

Ég mun ekki orðlengja frekar um þessi atriði, en vil aðeins þakka frsm. fjvn. fyrir hin skynsamlegu orð hans, er hann lét hér falla viðvíkjandi styrk, sem veittur er til Kvenfélagasambands Íslands. Þessi styrkur er nú veittur í einu lagi, í stað þess að veita hann hverju einstöku kvenfélagi í félagasambandinu, en eins og mönnum er kunnugt, eru ýmis kvenfélög, sem hafa unað illa að falla undir eitt samband. Um till. fjvn. ætla ég ekki að ræða, þó að mig að vísu hefði langað til þess, ef tími hefði leyft, en tel það raunar ekki skipta svo miklu máli.

Að lokum vildi ég minnast á það, að ég mælist til þess, að fjvn. sjái sér fært að taka þann lið, sem er í 14. gr. viðvíkjandi biskupsembættinu, risnu, húsaleigustyrk hans o. fl., aftur til 3. umr., vegna þess að mér finnst eðlilegt að gefa biskupi tækifæri til að ræða um þetta við fjvn., og er þetta aðeins vinsamleg bending af minni hálfu.