11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. A.-Húnv. hef ég skilað sérstöku áliti á þskj. 620. Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að það er ekki ágreiningur um það í fjhn., að rétt sé að gera lífeyristryggingar opinberra starfsmanna fullkomnari en þær eru nú, en að því er stefnt með þessu frv. N. er sammála um þörfina á því. Það hefur komið í ljós undanfarin ár, að lífeyrir, sem starfsmenn fengu eftir l. frá 1921, hefur verið í mörgum tilfellum ófullnægjandi, og Alþ. hefur orðið að ákveða þessum starfsmönnum viðbótarlífeyri, til þess að þeir gætu komizt sómasamlega af.

Fjhn. er á einu máli um, að það sé eðlilegt, að allir starfsmenn ríkis og ríkisstofnana séu tryggðir hjá þessum sjóði. Ágreiningurinn í n. var um það, hver ætti að vera afstaða þessara manna, sem fá slíka sértryggingu, til Lífeyrissjóðs Íslands, sem er stofnaður með alþýðutryggingal. Í þeim l., frá 1937, er ákveðið, að þeir, sem tryggðir eru hjá lífeyrissjóði embættismanna og lífeyrissjóði barnakennara, skuli vera undanþegnir tryggingaskyldu hjá Lífeyrissjóði Íslands. Þetta ákvæði er enn í l. En eftir að alþýðutryggingal. voru sett, hafa þessi undanþáguákvæði verið gerð víðtækari. Ári síðar en l. voru sett voru gerðar þær breyt., að starfsmenn tveggja banka, Landsbankans og Útvegsbankans, skyldu líka vera lausir við tryggingarskyldu hjá Lífeyrissjóði Íslands. Þessir tveir bankar hafa stofnað sérstakan eftirlaunasjóð fyrir sína starfsmenn, og greiða bankarnir nokkurn hluta iðgjaldanna, eins og hér er ætlazt til, að ríkið geri. Nú eru fleiri stofnanir, sem eins og bankarnir hafa stofnað eftirlaunasjóði fyrir sitt starfsfólk, t. d. Eimskipafél. Ísl., Samband ísl. samvinnufél., Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri, og ég geri ráð fyrir, að það séu fleiri fyrirtæki en þessi, sem nú hafa stofnað sérstaka eftirlaunasjóði fyrir sitt starfsfólk. En starfsfólkið við þessar stofnanir býr ekki við sömu kjör og starfsmenn bankanna, hvað snertir iðgjaldagreiðslur, að hafa undanþágu frá iðgjaldagreiðslum til Lífeyrissjóðs Íslands. Starfsmenn þessara stofnana verða að greiða full iðgjöld til Lífeyrissjóðs Íslands, þó að þeir séu í þessum sérstöku lífeyrissjóðum jafnframt. Það stendur alveg eins á um þessa menn og starfsmenn bankanna, en þeir eiga við önnur kjör að búa, að því er snertir viðskiptin við Lífeyrissjóð Íslands. Þarna er um að ræða misrétti, sem óhjákvæmilegt er að lagfæra. Það er vitanlega ekki hægt fyrir Alþ. að láta það vera svo áfram, að starfsmenn við eina stofnun, sem mynda sérstakan lífeyrissjóð, séu með öllu undanþegnir skyldum við hinn almenna lífeyrissjóð, en starfsmenn við aðrar stofnanir séu tryggingarskyldir hjá honum.

Nú er það að vísu svo, að starfsmenn, sem hafa sértryggingasjóði, eiga samkvæmt alþýðutryggingal. að fá endurgreiðslu á iðgjöldum frá Lífeyrissjóði Íslands, ef þessir sjóðir eru viðurkenndir, en þeir fá aðeins endurgreitt sem svarar meðaliðgjöldum lífeyrissjóðsins, en það mun venjulega minna en það, sem þessir sömu menn hafa orðið að greiða í iðgjöld til almenna sjóðsins, þannig að margir starfsmenn þessara stofnana verða að greiða allverulega upphæð til hins almenna lífeyrissjóðs auk þess, sem þeir greiða iðgjöld til sértryggingasjóðsins.

Það ætti öllum að vera ljóst, að hér er ekki nema um tvær leiðir að ræða. Annaðhvort verður að undanþiggja alla þá, sem tryggðir eru hjá sérstökum lífeyrissjóðum, greiðslum til hins almenna lífeyrissjóðs eða þá, að allir meðlimir í sértryggingasjóðum verða að greiða iðgjöld til almenna sjóðsins eftir nákvæmlega sömu reglum. Það er ekki nema þetta tvennt til. Hitt getur alls ekki staðizt, að sumir þeir starfsmenn einstakra stofnana, sem hafa sértryggingasjóði, verði að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs Íslands, en aðrir, sem eins stendur á um, séu að fullu lausir við það.

Er þá næst að athuga það, hvora leiðina muni heppilegra að fara. Ef sú leiðin verður valin, að veita öllum þeim, sem hafa tryggingu hjá sérstökum lífeyrissjóðum, undanþágu frá tryggingaskyldu og iðgjaldagreiðslum til hins almenna lífeyrissjóðs, þá má búast við því, að svo fari, áður en langt líður, að tekjur almenna lífeyrissjóðsins lækki mjög verulega, þar sem búast má við því, að sérsjóðum þeim, sem einstakar stofnanir eða félög setja upp, fari fjölgandi á næstu árum. Það má enn fremur búast við því, að það verði yfirleitt þeir menn í þjóðfélaginu, sem betur eru staddir fjárhagslega og hafa öruggari tekjur, sem mynda þessa sérstöku lífeyrissjóði. Og ef allir þeir menn, sem mynda slíka sérsjóði, verða framvegis lausir við gjaldskyldu til almenna lífeyrissjóðsins, þá er hætt við því, eins og áður segir, að svo fari, áður en langt líður, að tekjur almenna lífeyrissjóðsins lækki verulega, og gæti þá svo farið, að í hinum almenna lífeyrissjóði væru eingöngu fátækari hluti þjóðarinnar, þeir, sem minnst geta lagt af mörkum til ellitrygginganna, en hafa jafnframt mesta þörf fyrir lífeyri á gamals aldri. Ég tel því þessa leið mjög varhugaverða, því að sú aðferð, sem nú er viðhöfð, að gera rétt manna misjafnan með því að láta suma. sem tryggðir eru hjá sérsjóðum, greiða iðgjöld til almenna sjóðsins, en aðra ekki, það er auðvitað ófær leið.

Ég skal nefna fleiri dæmi til að sýna, hvað fráleitt þetta er, þegar gerður er samanburður á aðstöðu starfsmanna bankanna og annarra stofnana. Ég skal taka t. d. ljósmæður og hjúkrunarkonur.

Samkvæmt l. frá 1938, um lífeyrissjóð ljósmæðra, eiga ljósmæður nú að greiða iðgjöld til almenna lífeyrissjóðsins og sama máli gegnir um hjúkrunarkonur, ef það frv. verður að l., sem nú var verið að samþ. hér við 3. umr., (frv. til l. um lífeyrissjóð ljósmæðra). Hvorug þessara stétta verður laus við tryggingar- og gjaldskyldu hjá hinum almenna lífeyrissjóði. Ég vænti þess, að allir sjái, að það er ekkert vit í því, að ljósmæður, sem eru ríkisstarfsmenn og launaðar af ríkinu, séu gjaldskyldar til hins almenna lífeyrissjóðs, þó að þær hafi sérstakan lífeyrissjóð, en aðrir starfsmenn ríkisins, svo sem barnakennarar, sem einnig er ætlazt til, að hafi sértryggingarsjóð, séu með öllu lausir við greiðslur til almenna lífeyrissjóðsins.

Við í minni hl., ég og hv. þm. A.-Húnv., leggjum til, að sú leiðin verði farin að gera öllum landsmönnum skylt að greiða iðgjöld til almenna lífeyrissjóðsins eftir sömu reglum, eins þeim, sem hafa tryggingu hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Við viljum samþ. þetta frv. Við viljum láta ríkisstarfsmenn hafa á tryggingu, sem þarna er gert ráð fyrir, en viljum, að þeir verði þrátt fyrir það látnir greiða iðgjöld til hins almenna lífeyrissjóðs. Það er stórt hagsmunamál fyrir alla þjóðina, að hinn almenni lífeyrissjóður verði sem fyrst svo öflugur, að það sé hægt að veita öllum gamalmennum í landinu viðunandi lífeyri. Og að þessu ber að stefna. Ef mikill fjöldi landsmanna er með öllu undanþeginn tryggingaskyldu og gjaldskyldu til hins almenna lífeyrissjóðs, má búast við því, að það verði langt þangað til, að hinn almenni lífeyrissjóður geti innt af höndum það hlutverk, sem honum er ætlað í alþýðutryggingal. Ef þeirri reglu verður fylgt, sem meiri hl. n. virðist hallast að, að allir þeir, sem hafa tryggingu hjá sérstökum lífeyrissjóðum, verði undanþegnir greiðslum til hins almenna lífeyrissjóðs, má búast við því, að sá hópur, sem hefði undanþágur, færi stækkandi á næstu árum, og þá væri að verulegu leyti kippt stoðunum undan hinum almenna lífeyrissjóði. Það er ekki hægt að koma þessu máli, lífeyristryggingunum, í viðunandi horf, nema allir landsmenn sameinist um það, og það verður ekki hægt að ná æskilegu takmarki í þessum efnum á næstu árum ef mjög mikill hluti af þjóðinni leggur ekkert af mörkum til hins almenna lífeyrissjóðs. Ég sé ekki annað en það sé réttlátt, að þeir landsmenn, sem fá aukatryggingu hjá sérstökum sjóðum, taki þátt í því með öðrum að efla almenna lífeyrissjóðinn, svo að hann geti sem fyrst innt það hlutverk af höndum, sem honum er ætlað. En það er aðeins hægt með sameiginlegu átaki allrar þjóðarinnar að ná þessu takmarki innan skamms. Hv. frsm. meiri hl. gerði nokkrar aths. við það, sem stendur í nál. okkar minni hl., um það, hvað útgjöld ríkisins samkv. þessu frv. mundi verða mikil, ef það verður samþ., og hann var að tala um 1½ millj. kr. Við höfum sagt í nál., að við teldum ekki fjarri sanni, að árleg útgjöld ríkisins samkvæmt frv. mundu verða um 2 millj. með núverandi launagreiðslum. Ég held, að samkvæmt fjárlfrv., sem nú liggur fyrir og sennilega verður afgr. næstu daga frá þinginu, séu launagreiðslur, sem gert er ráð fyrir á næsta ári hjá ríkinu og ríkisstofnunum, röskar 30 millj., og skakkar þá ekki miklu frá því, sem við áætlum árleg útgjöld ríkisins vegna lífeyristrygginganna.

Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því, að þeir starfsmenn, sem taldir eru í 4. gr, frv., þ. e. a. s. starfsmenn við ríkisstofnanir, sem sérstakan fjárhag hafa, starfsmenn bæjar-sýslu- eða sveitarfélaga og starfsmenn við sjálfseignarstofnanir, er starfa í almennings þarfir, muni verða þátttakendur í þessum lífeyrissjóði, eftir að frv. er orðið að l., og eru það þannig margfalt fleiri, sem verða þátttakendur í þessum sjóði, en áður voru í lífeyrissjóði embættismanna, en um leið verður þeim mun meira dregið úr vaxtarmöguleikum almenna lífeyrissjóðsins, ef allir þessir starfsmenn verða undanþegnir gjaldskyldu til hans.

Ég vil vekja athygli á því, að aftast í nál. okkar er prentvilla í lausa skjalinu, sem væntanlega verður leiðrétt í skjalaparti. Þar stendur: „Við hefðum talið eðlilegt, að þetta mál hefði verið afgr. samhljóða nýjum launal.“, en á að vera: „samhliða“ o. s. frv.

Við hefðum talið eðlilegast, að þetta frv. hefði orðið samferða frv. til nýrra launal. gegnum þingið, vegna þess að hér er í rauninni um að ræða nokkra launauppbót til opinberra starfsmanna frá því, sem áður hefur verið, því að ríkið leggur engin iðgjöld fram til lífeyrissjóðs embættismanna eða barnakennara, heldur eru þau iðgjöld eingöngu greidd af þessum starfsmönnum sjálfum. Hér er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram til að byrja með meiri hlutann af iðgjöldunum og í framtíðinni helminginn. Við höfum samt ekki, minni hl., gert þetta atriði að ágreiningsmáli. Við teljum það ekki skipta svo miklu. Við viljum mæla með samþ. frv. nú, ef um leið verða numin úr alþýðutryggingal. öll ákvæði um að undanþiggja þá, sem tryggingu fá hjá þessum lífeyrissjóði, gjaldskyldu til almenna lífeyrissjóðsins í framtíðinni.

Ég býst við því, að meiri hl. n. haldi því fram, að það sé ekki sanngjarnt að láta þessa ríkisstarfsmenn og aðra, sem hafa tryggingu í sérsjóðum, greiða iðgjöld til almenna sjóðsins vegna þess, að það sé hæpið, að þeir njóti nokkru sinni lífeyris frá almenna lífeyrissjóðnum. Nú getur það komið fyrir, að þeir njóti góðs af hinum almenna lífeyrissjóði, en jafnvel þótt svo væri ekki, vil ég benda á það, að nú greiða margir landsmenn iðgjöld til almenna lífeyrissjóðsins, án þess að það sé nokkur trygging fyrir því, að þeir njóti lífeyris úr honum síðar meir. Í 55. gr. alþýðutryggingal. frá 1937 stendur:

„Réttur til þess að fá útborgaðan fullan árlegan elli- eða örorkulífeyri er bundinn því skilyrði, að aðrar árlegar tekjur þess, sem í hlut á, reiknaðar samkv. reglum í 3. málsgrein, fari eigi fram úr 1/3 af árlegri lífeyrisgreiðslu. Ef tekjurnar eru meiri, skal draga frá lífeyrinum 60% af þeirri upphæð, sem árstekjurnar eru umfram þriðjung fullrar lífeyrisupphæðar.“

Það getur verið, að í framtíðinni verði 55. gr. breytt og sett önnur ákvæði um lífeyrissjóðinn en þar eru nú, en það er sýnt, að fjöldi landsmanna, sem greiðir stórar fjárhæðir í almenna lífeyrissjóðinn, mun ekki fá lífeyri úr sjóðnum. Ég fæ þá ekki séð, að það sé ranglátt, þó að aðrir landsmenn, sem hafa tryggingar í sérstökum sjóðum, verði einnig að greiða iðgjöld til almenna lífeyrissjóðsins, jafnvel þó að það væri vafi á því, að þeir myndu njóta nokkurs úr honum síðar meir. Menn munu ef til vill vitna til þess í þessu máli, að nú sé starfandi mþn. til að endurskoða alþýðutryggingal. Þessi n. hefur ekki enn skilað áliti um þann hluta alþýðutryggingal., sem er um lífeyristryggingar. Nú kann einhver að segja sem svo, að rétt væri að láta þetta atriði bíða, þar til er mþn. hefði lokið störfum. En ég sé ekki ástæðu til þess. Ég vil fá því slegið föstu, um leið og þetta frv. verður samþ., að undanþágurnar verði numdar úr 1. Það er engin ástæða til að bíða með það, þá væri eins hægt að segja, að rétt væri að láta þetta frv. bíða eftir því, að alþýðutryggingal. verði endurskoðuð, þar sem þetta grípur svo hvað inn í annað, eins og ég hef gert grein fyrir. Þess vegna viljum við í minni hl. gera þetta mál upp í einu lagi. Um leið og þetta frv. er samþ., viljum við fá úr því skorið, hvort til þess er ætlazt af meiri hl. Alþ., að allir þeir, sem fá tryggingu hjá sérsjóðum, verði framvegis undanþegnir greiðslum til hins almenna lífeyrissjóðs, því að vitanlega væri ómögulegt annað en sú undanþága gilti fyrir alla, sem hafa tryggingu hjá sérstökum sjóðum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa brtt., sem við flytjum á þskj. 620, en eins og fram er tekið í nál., fer fylgi okkar við frv. eftir því, hverja afgr.brtt. okkar fær.

Þá vil ég minnast nokkuð á eitt atriði í frv., sem ég tel, að fjhn. þyrfti að taka til nánari athugunar, og vil ég geyma mér rétt til að bera fram brtt. um það við 3. umr. Ég hafði einnig ráðið það af orðum hv. 3. þm. Reykv. á nefndarfundum, að hann teldi, að þetta atriði þyrfti athugunar, en það er 12. gr. frv. Þar segir í 2. málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Upphæð ellilífeyrisins er hundraðshluti af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár ævi hans, og er hundraðshluti þessi hækkandi eftir því, sem starfstíminn verður lengri, svo sem hér segir:“ Síðan er ákveðið, að hundraðshlutinn fari hækkandi eftir því, sem starfstíminn verður lengri. Þegar starfstíminn er 10 ár, fá þeir 12½% af meðalárslaunum, síðan er þetta hækkað eftir lengd starfstímans, þannig að þeir, sem starfað hafa 30 ár eða lengur, fá 60% af meðaltalslaunum síðustu 10 ára. Nú lifum við á miklum verðbreytingatímum, og nú sem stendur fá starfsmenn ríkisins og annarra þeirra stofnana, sem hér eiga hlut að máli, í viðbót við sín grunnlaun 160% í ofanálag samkvæmt vísitölu. Samkvæmt þessu frv. eiga iðgjöldin til lífeyrissjóðsins að miðast við öll launin, grunnlaun með öllum uppbótum. Nú skulum við hugsa okkur, að þessi dýrtíð, sem hefur verið mismunandi mikil í nokkur undanfarin ár, verði eftir 2–3 ár komin nokkuð niður aftur, t. d. úr 160% niður í 50%. Liggur þá í augum uppi, að dýrtíðaruppbótin hlýtur að vega mjög mikið, þegar farið verður að reikna út ellilífeyri handa þeim mönnum, sem starfað hafa þetta verðbólgutímabil, en láta af störfum í lok þess.

Ég sé ekki betur en svo gæti farið samkvæmt frv. óbreyttu, að þeir starfsmenn, sem hætta störfum á næstu árum, en síðustu starfsár þeirra eru verðbólguár, fái miklu hærri ellilífeyri en þeir, sem hætta í byrjun stríðs. Það gæti jafnvel farið svo, að ellilífeyrir þeirra yrði hærri en laun starfandi manna á sama tíma. Ég tel því óhjákvæmilegt að gera breytingu á 12. gr. Mér kemur í hug, að við þessu mætti gera með því að setja í gr. ákvæði um, að ellilífeyrir skuli aldrei nema meira en t. d. 60% af starfslaunum í viðkomandi launaflokki. Hins vegar gæti komið til mála, að þörf yrði á að bæta þetta eitthvað upp til samræmis við laun á hverjum tíma. En um þetta atriði ætti að mega ræða á milli umræðna, svo að ekki þyrfti að fresta 2. umr. þess vegna.

Verði brtt. okkar minni hl. á þskj. 620 samþ., leggjum við til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt. á 19. gr., að í stað „1. júlí 1944“ komi: 1. jan. 1945.

Við teljum eðlilegt og heppilegt, að gildistaka laganna sé bundin við áramót. En við teljum þó, að ekki sé gerlegt að miða við næstu áramót, þar eð frv. felur í sér breyt., sem þurfa nokkurn undirbúning.