11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að standa upp til að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. skuli vera komið fram í þeim búningi, sem það er, og láta þess getið, að ég er samþykkur þeirri stefnu, sem kemur fram í frv. Mér finnst, að langánægjulegasta lausnin á olíumálunum sé einmitt sú, að samvinnufélög útgerðarmanna gætu komið sér þannig fyrir, að þau gætu tekið að sér verzlun með þessa nauðsynjavöru, er fram að þessu hefur verið í vörzlum olíuhringanna. En nú hafa gerzt þau tíðindi, að fáum mun blandast hugur um, að nauðsyn sé á því að breyta til um fyrirkomulag á olíusölunni.

Það má að vísu gera ráð fyrir, að nokkrir byrjunarörðugleikar komi í ljós, þar sem koma þarf upp dýrum tækjum á hverjum stað, svo að olíusalan geti farið fram með sem hagkvæmustu móti.

Í þessu frv. er ekki fjallað um það, hversu fara skuli með heildverzlun olíu, en allt bendir til, að það geti myndazt smátt og smátt samtök þeirra félaga, sem þurfa að nota olíu á hverjum stað. Hins vegar gæti rekið að því, að reynslan leiddi í ljós, að slík samtök mynduðust ekki nægilega ótt. Þá yrði þing og stjórn að gera ráðstafanir til að skipa heildsöluinnkaupum á olíu eins og bezt hentaði.

Ég vildi sem sagt ekki láta þetta stórmál fara frá 1. umr. svo, að ég kæmi ekki þessari yfirlýsingu á framfæri, sem ég veit, að túlkar líka skoðun Framsfl.