19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Sjútvn. hefur athugað þetta mál á nokkrum fundum og auk þess haldið fjóra fundi um það sameiginlega með sjútvn. Ed. Á tveim þessara funda mætti atvmrh. og á einum mætti skrifstofustjóri fiskveiðasjóðs Íslands.

N. hefur lagt fram brtt. við frv. á þskj. 448, og skal ég nú leyfa mér að gera stutta grein fyrir þeim.

Fyrsta brtt. hnígur í þá átt, að aftan við 1. gr. bætist ný málsgr., en með henni er ríkisstj. heimilað að taka lán í þessu skyni f. h. ríkissjóðs til að kaupa eða láta reisa hæfilega stóra olíugeymslustöð og enn fremur að kaupa eða láta smíða tankskip af hæfilegri stærð til flutnings á brennsluolíum með fram ströndum landsins, en að þessu séu sett þau takmörk, að til þessara framkvæmda megi verja úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. N. setti þetta hámark, eftir að atvmrh. hafði upplýst, að hann byggist ekki við, að fyrst um sinn mundi þurfa á þessari heimild að halda. N. taldi hins vegar rétt, að þessu væri einhver takmörk sett í l., þó þannig, að hendur ríkisstj. yrðu ekki bundnar. Ef það væri álit ríkisstj., að þetta takmark væri sett of lágt, væri n. mjög fús til að breyta því.

Það hafa fjórir nm. lagt til, að 2. gr. breyttist þannig, að sérstaða samvinnufélaga yrði felld niður úr gr. Meiri hl. n. leit þannig á, að það væri í lófa lagið fyrir þá, sem taka þátt í samvinnufélögum, að vera annaðhvort meðlimir í olíusamlögunum í heild eða hver maður út af fyrir sig. Þess vegna álítum við ekki ástæðu til þess, að samvinnufélögin hafi neina sérstöðu um þetta, og ekki sízt, þar sem gert er ráð fyrir í l., að olíusamlögin verði rekin á samvinnufélagsgrundvelli. Einn nm. (EystJ) hefur sérstöðu í þessu máli, og gerir eflaust grein fyrir sinni sérstöðu.

Þriðja brtt, er gerð við 3. gr. og er þess efnis, að í staðinn fyrir, að hámark styrks skuli vera 1/6 af byggingarkostnaði eða kaupverði, skuli það verða 1/5. N. leit svo á, að þar sem þessi mannvirki yrðu reist á dýrustu tímum, mundi það verða nokkur trygging fyrir fiskveiðasjóð, að styrkveiting úr ríkissjóði yrði hækkuð, og einnig yrði þetta til þess að örva menn til þess að leggja út í þessi fyrirtæki, sem gæti fundizt það nokkuð áhættusamt, af því að þetta er á dýrustu tímum. Hins vegar er mjög nauðsynlegt, að þessi l. geti komizt í gegn, svo að hægt verði að koma á olíusamlögum í öllum helztu verstöðvum landsins. Ég skal taka það fram, að hæstv. atvmrh. lýsti yfir því á fundi n., að hann teldi sér skylt að gangast fyrir stofnun olíusamlags, jafnskjótt og l. yrðu samþ.

Brtt. meiri hl. n. á þskj. 448 við 6. gr. leiðir af brtt. við 2. gr., og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um hana. Tveir nm., þeir Sigurður Kristjánsson og Jóhann Þ. Jósefsson, áskilja sér rétt til að greiða atkv. gegn 6. gr. eða bera fram brtt. við hana, og munu þeir eflaust gera grein fyrir sérstöðu sinni. Frá meiri hl. n. vildi ég segja það, að við teljum, að þessu frv. yrði stórlega spillt, ef 6. gr. verður felld niður. Mjög mikið yrði dregið úr þeirri þýðingu, sem þessi löggjöf annars gæti haft, ef gr. verður ekki samþ. eins og hún er í frv. stj. Atvmrh. gaf á fundi n. upplýsingar um, að hann hefði látið fara fram athugun viðvíkjandi kostnaði þessara framkvæmda, og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, virðist hér ekki um eins mikinn kostnað að ræða og margir hafa haldið í fyrstu.

Viðvíkjandi láni úr fiskveiðasjóði Íslands skal ég taka það fram, að samkvæmt samtali við skrifstofustjóra fiskveiðasjóðs mun fiskveiðasjóður geta lánað fé, sem til þessara framkvæmda þyrfti, en gegn því að nota þá heimild, sem sjóðsstjórnin hefur í l. til þess að gefa út skuldabréf. En til þess að ekki þyrfti að draga saman lánveitingu sjóðsins til fiskiskipasmíða, mun n. þurfa að hækka heimildina í l., og mun sjútvn. vera reiðubúin til þess að flytja till. um það, þegar sjóðsstjórnin óskar þess.

Viðvíkjandi afstöðu til þessa frv. að öðru leyti get ég sagt fyrir mitt leyti, að ég hefði talið, að náðst hefði betri árangur með því með einkasölufyrirkomulagi. Hins vegar verð ég að líta svo á, að þetta frv. sé tilraun til samkomulags milli allra flokka til þess að ráða bót á því ófremdarástandi, sem nú ríkir í olíuverzluninni. Með þetta fyrir augum vil ég leggja til, að þetta frv. verði afgr. með þeim breyt., sem sjútvn. hefur hér lagt til, og að það verði afgr. sem allra fyrst.