19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Út af nál. sjútvn., sem hér liggur fyrir, vil ég í fyrsta lagi taka það fram, að ég tel, að breyt., sem n. hefur gert við 1. gr. frv., en breyt. er um heimild stj. til þess að taka allt að 5 millj. kr. lán, sé til bóta, og því skuli bæta þessari mgr. aftan við 1. gr.

Breyt., sem gerð er við 3. gr., er ég einnig fylgjandi, sérstaklega eftir að ég lét fara fram athugun á því, hve kostnaður mundi verða mikill við þessar framkvæmdir.

Um þá breyt., sem n. hefur orðið sammála um að gera við 2. gr. og í raun og veru er aðeins sú að fella niður rétt samvinnufélaga til þess að fá þau réttindi, sem frv. gerir ráð fyrir, verð ég að segja það, að mig undrar þessi brtt. nokkuð, af því að mér virðist hún ekki gera annað en lögbinda það, að þau félög, sem um er að ræða, verði annaðhvort að vera félag útvegsmanna eða olíufélag. Í l. um samvinnufélögin frá 1921 eru ákvæði um, hvað orðið samvinnufélag þýðir, en það er félag, sem uppfyllir ákveðin skilyrði, sem þar er nánar greint frá. Eins og fram kom af ræðu frsm. hér í d., virtist ríkisstj. nauðsynlegt, að væntanleg félög, sem frv. greinir frá, yrðu samkvæmt því að uppfylla þrjú meginskilyrði, sem eru fyrir því, að félag megi kallast samvinnufélag. Hins vegar eru það fleiri en kaupfélög, sem geta kallazt samvinnufélög, það geta t. d. verið framleiðendafélög eða útgerðarfélög, sem uppfylla þessi ákveðnu skilyrði. Það er t. d. hugsanlegt, að í einni verstöð sé samvinnufélag, sem annast sölu á olíu, án þess að vera kaupfélag, svo að þetta félag yrði þá að breyta stefnu sinni til þess að geta orðið aðnjótandi þessara réttinda. Mér finnst því ekki ástæða til að fara þannig að, og fyrir mitt leyti tel ég þessa breyt. til hins verra.

Loks vil ég taka það fram viðvíkjandi 6. gr., sem tveir nm. áskilja sér rétt til að greiða atkvæði gegn eða bera fram brtt. við, að ég tel mjög æskilegt, að hún fái að vera eins og hún er, og tel, að sá árangur, sem á að ná með þessari löggjöf, sé undir því kominn, að 6. gr. verði óbreytt.

Loks vil ég taka það fram að gefnu tilefni frá hv. þm. Ísaf., sem ég og lýsti yfir á nefndarfundi, að ég tel, að atvmrh. eigi að sjá um það, að útgerðarmönnum í verstöðvum landsins verði leiðbeint og þeir hvattir til þess að notfæra sér þau réttindi, sem þetta frv. kemur til með að veita þeim, ef það verður að l., og mun ég sjá um, að þetta verði gert, ef ég verð þá ráðh. Álít ég, að með þessu móti komist þessi löggjöf sem fyrst að notum og að mönnum verði mögulegt að fá olíu ódýrari og á hagkvæmari hátt en áður hefur verið.