19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hefði viljað leyfa mér, áður en ég vík nánar að þessu máli, að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort hann hugsi sér að hagnýta heimild 6. gr. frv., ef að l. verður, og ef svo er, þá í hve ríkum mæli. En samkv. henni er ráðh. heimilað að leyfa samböndum olíufélaga, samvinnufélögum, olíusamlögum eða félögum útgerðarmanna að taka lóðir eða lóðaréttindi eignarnámi til þess að reisa á olíugeyma og nauðsynleg mannvirki í sambandi við rekstur þeirra. Enn fremur er ráðh. heimilað með þeirri gr., er hann hefur fengið umsögn Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra, að ákveða, að ríkisstj. taki leigunámi eða eignarnámi olíugeyma, sem eru í eign einstaklinga eða félaga, og framlengja þá eða selja þá sambandi olíusamlaga, olíusamlögum, samvinnufélögum eða félögum útgerðarmanna, ef með þeim hætti verður talin nást hagkvæmari dreifing á brennsluolíu til landsmanna. Og ég vil sérstaklega spyrjast fyrir um þetta vegna þess, að hér er orðrómur á sveimi, í Alþ. jafnvel, um það, að ráðh. hugsi sér alls ekkert að nota slíka heimild, ef gefin verður. Hins vegar vil ég ekki fara dult með það, að mér og ýmsum flokksmönnum mínum er það um geð að leyfa að taka ótilteknar eigur annarra borgara í þjóðfélaginu eignarnámi og á ótilteknum tíma og án þess að þessari heimild fylgi nokkur skylda til þess að taka þannig þessar eignir. Ég teldi mikils um vert, áður en þessu máli er til lykta ráðið, að fyrir lægju svör hæstv. atvmrh. um það, hvort hann ætlar að hagnýta þessa heimild, og ef svo er, þá í hve ríkum mæli hann hyggst gera það.