19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þm. G.-K. vil ég upplýsa, að í sambandi við þetta lagafrv. hefur ríkisstj. látið gera athugun á því, hve víða á landinu væri æskilegt og þörf fyrir, að nýbyggingar væru framkvæmdar, ef þetta frv. verður að l. Það má því segja, að hvað það atriði frv. snertir, hafi verið gerð a. m. k. drög til áætlana um framkvæmdir í þessu sambandi. En viðkomandi heimildinni, sem er í 6. gr. frv. og hér er sérstaklega spurt um, vil ég upplýsa, að það er engin áætlun til um það nú, hvernig eða hvar þessum heimildum kynni að þurfa að beita. Eins og niðurlag gr. ber með sér, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, „ef með þeim hætti verður talin nást hagkvæmari dreifing á brennsluolíu til landsmanna“, og ef þessi gr. verður samþ. óbreytt, eins og hún er nú, þá fær sá ráðh., sem hefur þessi mál til framkvæmda, vald til þess að taka eignarnámi eða leigunámi olíugeyma, ef með þeim hætti verður talin nást hagkvæmari dreifing á brennsluolíu til landsmanna: Það er ekki hægt fyrir mig á þessu stigi málsins að vita um það, hvort eða hve víða það kynni að sýna sig, að þörf væri á að nota þessa heimild til þess að ná því marki, sem síðasta setning gr. tekur fram. Það hafa verið gerð drög til áætlunar um smíði olíugeyma, en það liggur ekki fyrir áætlun um þetta atriði. Og ég sé ekki, að hægt sé að áætla það nú.