19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Ólafur Thors:

Ég verð að segja, að þessi ræða hæstv. ráðh. var eins og þegar maður heldur ræðu um sjálfvalið efni. Ég gaf ekki tilefni til, að hann talaði um úrbætur. Ég var að spyrja, hvort hann vissi um nokkur rök umfram þau rök, sem ég færði fram, er mundu hafa fengið Bandaríkin til að fallast á þetta. Ég verð að spyrja alveg sérstaklega, hvaða viðbótarrök hæstv. ráðh. hafði fram að bera. En hann þarf ekki að spyrja um mín rök, þau eru honum kunnug úr ræðu, sem ég flutti við umr. um annað mál hér í þessari hv. d. fyrir skömmu. Þar tilgreindi ég, hvernig ég hafði á þeim málum tekið. Ég veit, að honum er það kunnugt. En ég var ekki við, þegar hann flutti ræðu sína, og mér er því ekki kunnugt, hvaða viðbótarrök hann flutti fyrir sínu máli. Þess vegna spurði ég. Ég staðhæfði ekki, að ég hefði komið með öll hugsanleg rök, en ég hef ekki komið auga á nein rök önnur en þau, sem ég hef sett fram, enda held ég þau séu svo auðsæ, að hver maður geti séð, að þau styðja okkar málstað, frá hvaða sjónarmiði sem er.

Ég efast ekkert um, að það var vel ráðið að fá olíu flutta beint til Siglufjarðar og selda þar á 38 aura, eða 13 aurum ódýrari en olíufélögin seldu hana. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það er flóknara mál en svo, að rétt mynd fáist með því að nefna þennan 13 aura mismun, því að vitaskuld borguðum við hér við Faxaflóa miklu hærra verð en við hefðum þurft að borga, ef ekki hefðu verið verstöðvar úti um land, sem þurftu að fá olíu lægra verði en hún kostaði með því að flytja hana á tunnum þangað, því að það er enginn vandi að selja olíu ódýrara frá stöð en á tunnum út um allt land. Hins vegar er ég ekkert að efast um, að þetta hafi verið góð ráðstöfun út af fyrir sig, en það var bara engin úrlausn á málinu. Það gengur út yfir alla þá, sem verst eru settir, ef olíuverðið er lækkað á þeim stöðum, þar sem auðveldast er að flytja olíuna. Það getur hver heilvita maður séð. Ég er ekki viss um, að það væri lofað og prísað svo mjög af Hornfirðingum og sjómönnum á öðrum afskekktum stöðum, ef þeir ættu að fá að borga þeim mun meira fyrir þá olíu, sem þeir fá, sem aðrir betur settir borga minna. Þetta er því svo röng mynd, sem ráðh. hefur brugðið upp, að það er furða, að enginn skuli hafa bent á það.

Eitt af því, sem verður að gera, þegar gerðar eru heilbrigðisráðstafanir, er að athuga, að þeir, sem verst eru settir, verði ekki verst úti. Ég vil ekki slá því föstu, að verðið á olíunni eigi að vera það sama á Hornafirði og við Faxaflóa, frekar en ég vil slá því föstu, að fiskverðið eigi að vera það sama alls staðar. Þetta eru bara þættir í stóru máli.

Ég bið hæstv. ráðh. að athuga, að aðfinnslur mínar við 6. gr. frv. eru ekki byggðar á persónulegum kunningsskap mínum við hlutaðeigandi menn. Ég veit ekki, hvaða geyma hæstv. stjórn hugsar sér að taka eignarnámi, né hverjir muni eiga þá. Aðalgagnrýni mín — ef hæstv. ráðh. vill ræða málið við mig — er sú, að ég á örðugt með að ganga inn á, að nokkur ríkisstj. eigi að fá heimild til að taka eignir borgaranna til hagnýtingar. Þetta var mitt sjónarmið í svipuðu máli hér á Alþ. í fyrra, og ég býst við, að það séu fleiri en sjálfstæðismenn, sem eigi erfitt með að sætta sig við slíkar aðfarir. Þetta er mjög skaðleg stefna í augum þeirra, sem vilja glæða atvinnurekstur með einstaklingsframtaki og auk þess bera virðingu fyrir eignarréttinum.

Þá tel ég, að ummæli hæstv. ráðh. í garð fyrrv. ríkisstj. hafi verið á þann veg, að þau hafi gefið ranga og villandi hugmynd að ástæðulausu. Það var fyrrv. ríkisstj., sem dró fána íslenzks sjálfstæðis að hún. Það er ekki til of mikils mælzt, að núv. ráðh. láti vera að auglýsa sig þannig á kostnað annarra. Og hann má ekki láta sig undra, þótt hann heyri gagnrýnandi orð frá mér — og þó færri en ástæða væri til — og ég þarf ekki að gera það með jafnmikilli ósanngirni í garð núv. stj. og hann í garð fyrrv. stjórnar. Ef hæstv. ráðh. óskar þess að ræða það mál við mig á opinberum vettvangi, þá skal ekki standa á mér. En þá vil ég ekki, að útvarpið sé notað til að túlka mál ríkisstj. einnar. Það vil ég, að hæstv. ráðh. skilji.

Annars álít ég, að það sé annarra, en ekki mitt, að svara fyrir hönd fyrrv. stj. þeim ásökunum hans, að það sé „óskaplegt“, að ekki skyldu fyrr vera byggðir geymar úti um land. Ég álít, að fyrrv. fjmrh., hv. 2. þm. S.-M., hafi haft alveg eins glöggt auga fyrir því, sem þurfti að gera, og alveg eins góðan vilja á því, eins og þessi hæstv. ráðh., sem nú deilir á aðra. Það get ég fullvissað hann um. Ég álít, að hann hefði ekki sýnt meiri dugnað og þekkingu í því embætti en sá maður, sem stóð í þessu eilífa þrasi við olíufélögin í sjö ár.

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að ég fékk ekki svar við neinu því, sem ég spurði að. Ég spurði t. d., hvort hæstv. ráðh. fyndist ekki verðlagsn. hafa sérstaka aðstöðu til að hafa eftirlit með olíuverðinu. Ég tel verðlagseftirlitið gagnslaust, ég segi gagnslaust —, ef ekki er hægt að fá í verðlagsn. reiknað út, hvað leggja skuli á olíuna, þegar hún er 17 aura í Hvalfirði. Ef þetta er rétt, að olían sé svona ódýr, þá spyr ég: Er það ekki rétt, að dýrara sé að koma upp þeim mannvirkjum, sem framtíðin kallar á, nú heldur en seinna, þegar kúfurinn er farinn af dýrtíðinni? Þá vil ég spyrja, hvort það sé sérstaklega gert fyrir útveginn að hraða þessu máli nú, þegar svona stendur á. Ef hæstv. ráðh. vill vinna að því, að svo miklu leyti sem útgerðin óskar þess, að ríkisvaldið leggist á þá sveif að aðstoða hana það, sem vald þess nær, hvers vegna bíður hann þá ekki eftir því, að milliþn. í sjávarútvegsmálum ljúki starfi sínu og leggi fram till. sínar? Þessari spurningu þarf að svara. Eða á að halda áfram þeirri rannsókn, sem milliþn. vinnur að?

Þá vil ég enn spyrja hæstv. ráðh., í hvað ríkum mæli hann ætlar að nota heimild 6. gr., og þá alveg sérstaklega, hvort hann ætlar að taka leigu- eða eignarnámi þær stóru olíustöðvar, sem hér eru í Reykjavík og nágrenninu, og hvort hann hefur það hugfast, að slíkar aðgerðir nú munu leggjast sem baggi á olíuverzlunina í framtíðinni. Þessu óska ég að fá svarað. Um það er deilt. Það, sem við eigum að gera, er okkur ljóst, en spurningin er: eigum við að gera það núna? Því á að hraða þessu máli í gegnum þetta þing, þó að milliþn. sé að vinna að því? Þetta þurfum við að fá að vita.

Ég vil sérstaklega að lokum segja, að ég held, að það standi öðruvísi á um olíu en annað, sem útvegurinn þarf með. Það er meiri vandkvæðum bundið að ná í ýmsar aðrar nauðsynjar, t. d. salt og kol, og að ná réttum tökum á þeim málum en á olíuverzluninni.