30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Hv. þm. Barð. flutti hér við fyrri hluta þessarar 1. umr. nokkuð langa ræðu og kom æði víða við. Ég tel ástæðu til að gera nokkrar aths. við það, sem hann þá sagði. Mér virtist, að hv. þm. Barð. væri á móti frv. af ýmsum ástæðum og að hann væri á móti því öllu. Mér virtist hann líta svo á, að 1. gr. væri óþörf og því væri hann á móti henni, hann væri á móti miðparti frv., 2.–5. gr., vegna þess að gefnar væru villandi upplýsingar í því máli, og að hann væri á mót 6. gr. frv., vegna þess að það, sem þar væri lagt til, væri órétt að gera. Hann flutti fram þau rök enn fremur, að það væri svo mikill tekjumissir fyrir ríkissjóð, ef það yrði svo, að verzlunin yrði gerð hagkvæmari á þessari vöru en hún er nú o. s. frv.

Ég vil nú koma nokkuð að þessum atriðum. Viðkomandi 1. gr., um það, að hún sé óþörf, þá færði þessi hv. þm. fram þau rök, að ég hefði sagt, að svo lengi sem herlið væri á landi hér, sem flytti olíu til landsins, væri ekki þörf á að nota ákvæði 1. gr. Þetta er rangt, og var ástæðulaust fyrir hv. þm., ef vilji var til að fara rétt með, að segja þetta. Ég sagði það skýrt, að meðan þeir samningar væru óbreyttir við flotastjórnina, sem nú gilda um sölu og afhendingu olíu, þá mundi ekki þurfa að grípa til heimildarinar í 1. gr. frv., en ég teldi nauðsynlegt að hafa þessa heimild, eins og lagt er til í 1. gr., að veitt verði, ef til þess kæmi, að breyt. yrðu á þeim samningum, sem við nú höfum við flotastjórnina um þetta atriði. Og eftir upplýsingum, sem á hæstv. Alþ. hafa verið gefnar, þá veit þessi hv. þm. eins og aðrir þm., að það er ekki ástæðulaust, að ríkisstj. kemur fram með till. eins og 1. gr. frv. er. Ég vona því, að við nánari athugun átti hv. þm. Barð. sig á því, að það er betra að hafa ákvæði 1. gr. frv. heldur en ekki, ef hann vill vinna að því, að olíuverzlunin verði sem ódýrust og hagkvæmust fyrir landsmenn.

Viðkomandi því, að ég hafi gefið villandi upplýsingar viðkomandi miðparti frv., þá verð ég að segja, að mig undrar, að hv. þm. Barð. skuli viðhafa slík orð. Ég gaf sjútvn. beggja d., sem saman voru á fundi, upplýsingar um þetta mál, ég held um allt, sem spurt var um þar. Ég gaf upplýsingar um, hvað áætlað væri, að kostnaðurinn mundi verða við það að smíða olíugeyma nú, og rökstuddi það á þann hátt, að ég hefði fengið þær upplýsingar, sem ég fór með þar, frá Landssmiðjunni, sem er ríkisfyrirtæki, og forstjóra hennar, sem er embættismaður og því réttur aðili til þess að láta okkur í té slíkar upplýsingar. Hv. þm. Barð. segist hafa meira vit á smíði olíugeyma og hvaða kostnaður sé við það heldur en atvmrh. Það má vel vera. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, — ég veit ekki, hvort hv. þm. Barð. er það heldur. En ég vil upplýsa hv. þd. um, að eftir það, að þessar upplýsingar um áætlaðan kostnað við smíði olíugeyma komu frá Landssmiðjunni, þ. e. forstjóra hennar, þá fékk hann til frekara öryggis eftirlitsmann ríkisins með vélum til þess að yfirfara útreikningana með sér, og staðfesti hann, að það mundi vera rétt í þessari áætlun, sem áður hafði verið upplýst og upp gefið. Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef látið sjútvn. beggja d. í té. Það er svo fyrir hv. d. að meta það, hvort hún telur þetta eitthvað óábyggilegar upplýsingar og hvort hún vill fá einhverjar aðrar og einhverjar meiri upplýsingar um þetta mál en þær, sem komið hafa fram frá ríkisstj., sem eru, eins og ég sagði, frá umboðsmanni ríkisstj. og endurskoðaðir af öðrum umboðsmanni hennar.

Þessi sami hv. þm. (GJ) gaf í skyn, að aðrar upplýsingar, sem ég hefði komið hér með, væru líka villandi eða rangar. Þær upplýsingar, sem ég gaf, voru um það, hvað ætla mætti, að kostnaðurinn þyrfti að vera við olíusöluna, ef olían væri seld á skynsamlegan og sparneytinn hátt. Þessi hv. þm. gaf líka í skyn, að upplýsingar um kostnað olíusölunnar í sumar væru villandi eða rangar, og las mikið af tölum um þetta mál. Ég skrifaði þær ekki allar niður, en fylgdist svo langt með útreikningum hans, að hann taldi, að olían, komin í geyma á Siglufirði eða annars staðar úti á landinu, þegar vörumagnstollur, vörugjald, uppskipun, leyfisgjald og vátrygging væri greitt, kostaði kr. 283,07 tonnið. — Nú skulum við ganga út frá því, að það sé svo í þessu, að hv. þm. hafi þarna réttar tölur. — Svo heldur hann áfram og kemur með rýrnun, vexti og viðhald og ýmislegt fleira og kemst svo að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt þessu sé allur kostnaður við olíutonnið um 392 kr., þangað til það er komið til neytenda. Ef þetta eru tölur frá olíufélögunum í landinu, þá undrar mig þetta ekki, því að því er haldið fram, að kostnaður olíufélaganna hafi verið óeðlilega hár, það hár, að það þyrfti um það að bæta. Og ríkisstj. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að bezta úrbótin í þessu máli, eins og á stendur, sé sú, að neytendum sjálfum sé hjálpað til þess að verzla með þessa vörutegund sjálfir handa sjálfum sér. Og við skulum sleppa þeim tölum, sem hv. þm. Barð. var með, 109 kr. kostnaði við sölu og dreifingu vörunnar og líta til þeirra, sem verzla með þessa vöru á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, að hagkvæmast sé, þ. e. olíusamlagsins í Vestmannaeyjum. Ég upplýsti áður í hv. Nd., að samkv. upplýsingum stjórnar þess samlags þurfi þeir ekki að leggja nema 40 kr. á tonnið til þess að geta annazt þessa verzlun. Þarna er þá komin sönnunin fyrir því, að með því að koma á skipulagi því, sem ríkisstj. vill stuðla að með þessu frv., þá mætti draga þá ályktun af þessum samanburði, að 69 kr. kostnaður sparaðist á hvert tonn hráolíu, sem íslenzki flotinn notar. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar fyrir útvegsmenn í Barðastrandarsýslu og annars staðar á landinu að athuga, hvort ekki er rétt að spara sér þennan aukakostnað, svo að kostnaðurinn við sölu og dreifingu olíunnar sé ekki meiri en hann þarf að vera.

Um tekjumissi ríkissjóðs, ef frv. yrði samþ., upplýsti þessi sami hv. þm. hér, að þessi olíufélög hefðu borgað í skatta 1,6 millj. kr. árið, sem leið, og honum þykir það væntanlega slæmt, að þeir peningar allir skuli þá kannske hætta að koma í ríkissjóð, ef félögin hætta að græða jafnmikið og þau græddu áður. En það vill nú svo vel til, að olíulækkunin, sem nú þegar er orðin fyrir aðgerðir verðlagseftirlitsins, sem var verið að andmæla áðan, hún nemur 2½ millj. kr. á ári, og er þó langt í land til þess, að olíuverðið sé komið eins langt niður og ríkisstj. vill ná með þessu frv., svo að ég held, að ekki sé veruleg ástæða til þess að vera á móti þessu frv. af þeim ástæðum, að sé olíuverzlunin gerð hagkvæm, kunni að tapast peningar, sem hvergi komi inn í staðinn aftur.

Sami hv. þm. kom með þá aths., sem kannske gæti verið ástæða til að hafa komið með, að ef ekki kæmi jafnmikill hagnaður öllum til góðs vegna þessa nýja skipulags, þá væri hann ekki ánægður með það eða jafnvel á móti því. Hann sagði, að það væri hugsanlegt, að það verkaði þannig, að það bætti ekki kjör allra jafnmikið. Ég er nú ekki á því, að það eigi að aftra því, að nýtt og betra skipulag komist á olíusöluna, þó að það kannske ekki orkaði að gera strax öllum jafnmikið gott. Hitt er nokkurn veginn víst, að það mundi ekki verka þannig að gera aðstöðuna viðkomandi þessari verzlun lakari fyrir neinn, sem vöruna þarf að nota, heldur en nú er.

Loks sagði sami hv. þm., að hann teldi, að það hefði mátt gera ýmislegt í þessum málum, sem hefði verið með minna bramli en hér er, til þess að bæta úr um olíuverzlunina. Ég veit ekki, hvernig stendur á því, að hv. þm. Barð. notaði orðið braml í sambandi við þetta frv. Mér finnst ekkert braml í því, og vissulega hefur ekki verið neitt braml í sambandi við málið frá ríkisstj. hendi. En ef hv. þm. Barð. hefur einhverjar till. hávaðaminni, en leysa málið væntanlega á jafngóðan hátt og þær, sem í frv. eru, fyrir þá, sem eiga að njóta góðs af þeim ákvæðum, þá komi hann með þær. Þær hafa ekki heyrzt, hvorki frá honum né öðrum andmælendum þessa frv. enn þá.

Sami hv. þm. sagði, að það mætti ekki gleyma því, að það væru skyldur til gagnvart olíufélögunum. Já, það getur vel verið, að landið og þjóðin hafi miklum skyldum að gegna gagnvart olíufélögunum fyrir eitthvað, sem þau hafa gert fjarska gott. En ég held þá, að það væri ástæða til fyrir hv. þm. Barð, að færa rök að því, að frv. megi ekki samþ., vegna þess að olíufélögin eigi einhverja hönk í bak þjóðarinnar að einhverju leyti. Ég veit ekki um það.

Loks sagði sami hv. þm., — hann leyfði sér að segja það —, að það mætti búast við því, að atvmrh. hefði beitt hlutdrægni í þessu máli í framkvæmd þess, ef breyt. hefðu ekki verið gerðar á frv. í hv. Nd. Ég skil ekki, hvaðan hv. þm. Barð. kemur réttur og vald til þess að vera hér með slíkt orðalag eða slíkar meiningar til mín, og ég vísa þeim algerlega frá mér.

Hv. 6. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, taldi, mér til mikillar ánægju, að ýmsir kostir væru við þetta frv., þó að á því væru gallar. Þykir mér vel, að hann sér kosti frv. Hann taldi hins vegar, að frv. þetta væri eins konar ádeila á verðlagseftirlitið, og sagði, að verðlagseftirlitið virtist hafa að þessu leyti reynzt máttlítið. Ég geri ráð fyrir, að annar svari hér fyrir verðlagseftirlitið. En mér er kunnugt um það, að verðlagseftirlitið hefur bæði undir núverandi ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. verkað það, að það hefur haldið niðri olíuverðinu, þrátt fyrir það að það hefur ekki getað haldið því meira niðri en raun ber vitni um.

Hv. þm. Barð. virtist í efa um það, hver tilgangur frv. væri og á hverju það byggðist. Ég lýsi yfir því nú á ný, eins og ég gerði í hv. Nd., að frv. er byggt á því að mínum dómi, að verzlunin sé svo heilbrigðust og hagkvæmust, að hún sé rekin með hag almennings fyrir augum, og það er sá eini tilgangur ríkisstj. með þessu frv., að reyna undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, að koma olíuverzluninni á þá braut, að hún verði framvegis ódýrari, hagkvæmari og betri fyrir landsmenn. en verið hefur hingað til, fyrir fiskimenn alla, jafnt hvort sem þeir eru fyrir sunnan, austan, norðan eða vestan, — að meðtöldum fiskimönnum á Barðaströnd.

Í sambandi við aths. hv. 6. þm. Reykv. við 6. gr. vil ég upplýsa, að það er rangt haft eftir mér a. m. k., sem hann sagði um það, að ríkisstj. byggist ekki við eða ætlaði sér ekki að nota heimild 6. gr. Ég lýsti yfir því, að ríkisstj. hefði enga áætlun gert um það, hvenær og hvernig hún þyrfti til hennar að taka. En ég taldi, að æskilegt væri að hafa hana og það gæti verið nauðsynlegt, að hún væri til undir þessum kringumstæðum. En að bíða eftir Alþ. í hverju tilfelli, þegar ætti að nota eignarnáms- eða leigunámsheimildir, er eins og hver önnur fjarstæða, því að Alþ. situr ekki allt árið. Og þess vegna er þessi heimild nauðsynleg.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði hér við upphaf þessarar umr., að ég hefði skýrt rangt frá viðkomandi meðferð sjútvn. á málinu, þá vil ég taka fram, að um það sagði ég þetta: Samkv. beiðni minni við framsögu þessa máls í hv. Nd. óskaði ég þess, að sjútvn. beggja d. vildu svo vel gera að vinna saman að málinu, vegna þess að þingtíminn væri orðinn of stuttur, til þess að þær gætu í sameiningu kynnt sér málið, svo að það gæti fengið sem bezta meðferð þegar frá upphafi. Báðar sjútvn. urðu við þessum tilmælum. Sjútvn. beggja d. héldu marga fundi sameiginlega, og að því loknu kom álit frá sjútvn. hv. Nd., og meðferð málsins gekk mjög fljótt í þeirri hv. d. Með tilliti til þess, að ég hafði um þetta beðið og nefndirnar urðu við þessum tilmælum mínum, þá var það, að ég fór fram á við hv. Ed., að hún athugaði, hvort ekki væri ástæðulaust að vísa málinu hér til n., og ég fór fram á, að hv. d. vildi fallast á að hafa þá meðferð á málinu. Það er að sjálfsögðu á valdi þessarar hv. d., hvort hún vill vísa málinu til sjútvn., þó að sú n. hafi fjallað um málið ásamt sjútvn. Nd. — Tilmæli mín voru þessi og eru þessi enn.