30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi gera hér nokkrar aths. við ræðu hæstv. atvmrh. Hann hefur upplýst hér í þessari hv. d. eins og svo oft áður, í sambandi við það, sem ég og hélt fram í frumræðu minni, að heimildin, sem gefin er í 1. gr. frv., væri ekki nauðsynleg, fyrr en einhver breyt. yrði á samningum um olíuverzlunina, en svo lengi sem olían er flutt til landsins eins og nú er gert og þeir samningar gilda, sem nú eru um þetta, þá sé ekki þörf á þessari heimild. Þess vegna held ég því fram, að ekki sé þörf á að samþ. þessa heimild nú og að það sé hægur vandi fyrir ríkisstj. að afla sér þessarar heimildar, þegar á það stig er komið, að þess þurfi með. Í fyrsta lagi getur verið, að Alþ. sitji á þeim tíma, sem þessa heimild þurfti að fá handa ríkisstj. Í öðru lagi væri ekki óeðlilegt að kalla saman þing um svo stórt mál, ef þarf að ræða um milliríkjasamninga um olíukaup. Og í þriðja lagi hefur ríkisstj. heimild til þess að gefa út bráðabirgðal. Þess vegna staðfesti hæstv. ráðh. alveg það, sem ég hef haldið fram og það, sem margrætt hefur verið við hann í sjútvn., að það er engin þörf á þessari heimild í l. nú þegar og að hún lækkar ekkert olíuverðið.

Svo segir hæstv. atvmrh., að hann sé undrandi yfir þeim ummælum, sem ég hafði um það, að hann hefði gefið upp villandi upplýsingar í málinu. Ég get enn upplýst hæstv. ráðh. um það, að enn sem komið er eru þessar upplýsingar algerlega villandi. Það er alveg útilokað að smíða tanka fyrir það verð, sem hann hefur gefið upp, að hægt væri að smíða þá fyrir samkvæmt upplýsingum frá Landssmiðjunni. Og þó að þessar upplýsingar séu frá Landssmiðjunni, þá eru þær ekki sannar fyrir það. Og ég skora á hæstv. ráðh. að leggja þá útreikninga fyrir sjútvn. þessarar hv. d., til þess að ég, sem hef meira vit á þessum hlutum en hæstv. atvmrh., fái tækifæri til þess að athuga, hvernig þessi útreikningur á byggingarkostnaðinum er. Og þar sem hæstv. ráðh. undirstrikar, að þetta sé rétt, þar sem hann hafi látið Ólaf Sveinsson, skipaeftirlitsmann ríkisins, fara yfir þessa útreikninga og hann hafi staðfest, að þeir mundu standast, þá vil ég segja, að hann hefur nákvæmlega þá sömu þekkingu á þessu máli og ég. Sá maður getur ekki fremur um þetta dæmt en ég, en náttúrlega miklu fremur en hæstv. atvmrh. En ég á eftir að sjá, hvort sá grundvöllur, sem þarna hefur verið lagður fram fyrir hæstv. ráðh. af Ólafi Sveinssyni um þennan byggingarkostnað, er réttur. (Atvmrh.: Hver hefur talað um Ólaf Sveinsson hér. Ég nefndi hann ekki. Það var Þórður Runólfsson, eftirlitsmaður ríkisins með vélum). Ef það er einhver annar maður en Ólafur Sveinsson, sem um er að ræða, þá eru þessar upplýsingar enn falskari, — en ég skil ekki, hvaða leynd þarf að vera yfir þessum útreikningum, að við skulum ekki mega sjá, hvernig komizt hefur verið að þeim niðurstöðum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið upp hér. Hvers vegna má ekki leggja fram fyrir hæstv. Alþ. þessa útreikninga, svo að sjútvn. þingsins geti athugað þá? Ég get fullvissað hæstv. atvmrh. um það, að fyrir það verð, sem hann hefur sagt, að væri hægt að smíða þessa tanka fyrir, er útilokað að smíða þá á þessum tíma. Ég hef haft fyrir aðalstarf útreikninga og eftirlit með byggingu og smíði úr plötujárni, slíku sem tankar eru smíðaðir úr síðan 1924, og ég væri mikill glópur, ef ég þekkti ekki meira um kostnað við þess konar smíði en hæstv. atvmrh., sem aldrei hefur komið nálægt því.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á kostnaðinn við sölu olíunnar. Hann hefur viðurkennt, að innkaupsverðið, kr. 283,07, væri ekki fjarri sanni. En hann vill ekki viðurkenna, að kostnaðurinn við sölu olíunnar, kr. 109,41, sem er bæði dreifingarkostnaður og annar kostnaður við sölu olíunnar, sé rétt tilfærður, og segir m. a., að hér muni vera ofreiknaður kostnaður um 65 kr. á tonn, því að þessa kostnaðarliði sé nóg að reikna á 40 kr., vegna þess að samlagið í Vestmanna.eyjum þurfi ekki að hafa meiri kostnað við sölu olíunnar. En ég vil nú spyrja: Hvernig stendur á því, að ríkisstj. sjálf er þá að láta reikna olíuna á 380 kr. tonnið í staðinn fyrir 323 kr., sem hún hefði átt að gera, ef hún hefði reiknað með því, að kostnaðurinn við söluna og dreifinguna á olíunni væri 40 kr. á tonnið? Er ríkisstj. þá hér að taka af útgerðarmönnum skatt án þess að hafa heimild til þess í skattal.? Er það gert af tómri samúð með sjávarútveginum? Nei. Ætli það sé ekki einmitt heldur af hinu, að þeir, sem með þetta hafa haft að gera fyrir hönd ríkisstj., sem er Jón Gunnarsson, forstjóri síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, hafi álitið, að það hafi þurft að taka meira en 40 kr. fyrir að dreifa olíutonninu. Í sambandi við þetta vil ég benda á og bið hæstv. atvmrh. að hrekja það, ef hann getur, hvernig þessar 109 kr. skiptast niður, en það er kostnaðurinn við að selja og dreifa olíunni. Þetta skiptist þannig: Rýrnun ½%, það er kr. 1,42 á tonn. Það getur vel verið að hæstv. atvmrh. viti, að hún sé minni, en ég efast um, að hann viti meira um það en þeir, sem við þessa verzlun hafa fengizt í fjöldamörg ár. Þá eru vextir 5%, fyrning 5%, viðhald 1%, sem er viðhald á olíugeymum. Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. reikni ekkert af þessum þremur liðum í sambandi við Siglufjarðarolíuna, en það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að ríkisstj. byggi upp tanka allt í kring um landið nema með því að reikna sem kostnað við það vexti, viðhald og fyrningu af þeim fyrirtækjum, sem þannig eru byggð upp. Og ég veit, að hæstv. atvmrh. er svo mikill viðskiptafræðingur, að hann viðurkennir þetta í hjarta sínu, þó að hann vilji ekki gera það, á meðan hann er að koma í gegn þessu frv. á algerlega fölskum rökum. — En þessir þrír liðir kostnaðarins, sem ég síðast nefndi, gera kr. 41,58 á hvert tonn af olíunni. Og verðlagseftirlitið hefur fullkominn aðgang að því að fylgjast með því, hvort rétt sé að reikna þetta svona hátt af olíunni, og ef ekki, þá að grípa þar inn í. — Þá kemur bryggjuleigan. Það getur vel verið, að ríkisstj. ætli að taka á sig þann kostnaðarlið á þann hátt að reikna hann ekki til gjalda við olíusöluna á Siglufirði, heldur láta ríkisverksmiðjurnar leggja til bryggjurnar endurgjaldslaust og sá liður falli inn í rekstur þeirra. En það er ekki réttur grundvöllur til þess að reikna með, því að ríkisstj. mun varla taka á sig að greiða bryggjukostnað fyrir olíuverzlunina í Barðastrandarsýslu, þar sem ríkið á þar engar verksmiðjur. — Þessi bryggjukostnaður er 5 kr. á tonn. — Síðan er afgreiðsla, sem reiknað er með til þess að vinna þetta verk, sem er einn ársmaður með 350 kr. á mánuði og tveir aðrir menn í þrjá mánuði yfir sumarið með 400 kr. á mánuði. Þetta gerir kr. 29,17 á tonn. En það getur vel verið, að hæstv. atvmrh. ætlist til þess, að á Siglufirði verði olían afgreidd á kostnað Síldarverksmiðja ríkisins þar, þannig að Síldarverksm. ríkisins leggi þetta inn í sinn rekstrarkostnað og gefi þá sjómönnum minna fyrir hvert síldarmál til þess að vinna það upp. Ég skal ekkert segja um það. En það er sjáanlegt, að ef reka á fyrirtæki sem sjálfstætt verzlunarfyrirtæki, þá verður að taka þessa kostnaðarliði með. En það má deila um það, hvort þessir kostnaðarliðir eru of háir, og það skal ég fúslega ræða um við hæstv. atvmrh.

Síðan kemur skrifstofukostnaður og rekstrarfé slíks fyrirtækis, og allt þetta hefur gert 109 kr. á tonn, og hefur því olían orðið allmiklu hærri en ríkisstj. hefur látið selja hana á Siglufirði. Hins vegar hefur þetta verið reiknað þannig gagnvart ríkisverksmiðjunum, að þær yrðu ekki fyrir tapi. Þess vegna eru það villandi upplýsingar, sem hæstv. atvmrh. gefur, að hér sé olían seld af ríkisverksmiðjunum með stórkostlegum hagnaði.

En það er eins og hæstv. atvmrh. upplýsti, að það sanna kemur honum ekkert við, honum kemur það ekkert við, þó að ríkissjóður tapi 1600 þús. kr. á ári fyrir það, að fyrirkomulaginu yrði breytt, þó það sé vitað, að þessar 1600 þús. kr. verður að taka af sjávarútveginum. Þar sem hæstv. atvmrh. segir, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar, hafi skapað sjávarútveginum 2½ millj. kr. hagnað, þá er ég ekki á móti því, en ég held, að það hafi verið gert með ráðstöfunum, sem heimild var fyrir, og það er því hægt að halda áfram sömu ráðstöfunum með þeim heimildum, sem fyrir eru, án þess að fara inn á nýtt fyrirkomulag. En ég skal síðar koma að þeim till., sem ég hef gert í því máli, eins og hæstv. atvmrh. óskaði eftir.

Þá talaði hæstv. atvmrh. um það, að hann áliti það ekki vera rétt að standa á móti því, að eitthvað væri gert gott, þó að ekki væri unnt að gera það svo, að öllum líkaði. En ég vil benda hæstv. atvmrh. á það, að ég tel það rangt, að einum útgerðarstað sé gert gott á kostnað annars, sem ekki nýtur neins góðs af slíkum ráðstöfunum sem þessum. Hér er verið að leggja stórkostlegar fjárhagslegar byrðar á ríkissjóð, greiða stórkostlegar fjárhæðir úr ríkissjóði, sem allir þegnar landsins verða að standa undir. Það er því ekki sæmilegt, að þeir, sem verða að fá olíuna til sín á tunnum, séu hafðir út undan í þessum efnum.

Ég get hugsað mér afleiðingar af þessu frv. þannig, þegar það er komið í gegn, að það verði hægt að lækka olíuna á þeim stöðum á landinu, þar sem skilyrði eru bezt, þar verði komið upp tönkum fyrir ríkissjóðsfé og þá verði olíufélögin að lækka verð olíunnar á þessum sömu stöðum niður í það sama og verður að taka inn í dreifingarkostnað á þá olíu.

Nú er dreifingarkostnaði jafnað niður á þá olíu, sem seld er í Reykjavík og á Siglufirði og víðar á landinu í tönkum, og við það hlýtur olían að hækka á þeim stöðum, þar sem hún er flutt á tunnum og Alþ. ber skylda til þess að sjá svo um, að þeim þegnum þjóðfélagsins, sem verið er að taka af svona mikið fé til þess að koma upp olíugeymum á öðrum stöðum á landinu, þeim sé tryggt, að olían hækki ekki hjá þeim frá því, sem nú er, fyrir þessar aðgerðir.

Hæstv. atvmrh. spurði um það, hvað ég vildi gera í þessum málum, sem hefði minna braml í för með sér en þær till., sem hér eru á döfinni. Það er í fyrsta lagi það, að ég vil ekki láta samþ. þá heimild, sem ríkisstj. er gefin bæði í 1. og 6. gr. Það eru þau ákvæði, sem vitanlega valda hér mestum deilum, ekki aðeins innan þings, heldur líka utan þess, og koma til með að valda ríkisstj. mestum erfiðleikum í framkvæmdinni. Það mun koma í ljós, þegar fara á að framkvæma l. eins og þau eru hugsuð hér, og mér kæmi ekkert á óvart, þó að ríkisstj. rynni á málinu, þegar til framkvæmdanna kæmi. Ég vil hins vegar, að ríkisstj. beiti því verðlagseftirliti, sem hún hefur, og gangi beint inn í málið og rannsaki frá grunni, hvað hægt er að lækka dreifingarkostnaðinn með því að leggja ekki meira á en eðlilegt og sanngjarnt væri, þar á meðal að leyfa ekki svo háa álagningu á olíuna, að olíufélögin verði að greiða millj. kr. í skatt, sem er tekinn af útveginum. Þess utan á hún að gera „pósitívar“ till. til þess að rannsaka, hvernig hægt væri að koma upp olíugeymum um allt landið án þess að fara inn á þá áhættu, sem þetta frv. hlyti að skapa, ef það yrði samþ. óbreytt. Þetta eru mínar till. Ég er samþ. því út af fyrir sig, að ríkisstj. styrki annaðhvort samvinnufélög eða einstaklinga til þess að koma upp olíugeymum í ýmsum verstöðvum, en það er hægt að gera það án þess að fá ríkisstj. á sama tíma stórkostlegar ótakmarkaðar heimildir til þess að taka eignarnámi eða leigunámi svo og svo mikið af tækjum, sem hér um ræðir. Það er hægt að ná miklu betri árangri í þessum málum með því að fara aðrar leiðir en þær, sem ríkisstj. er að fara hér.

Þá spurði hæstv. atvmrh., hvort olíufélögin ættu nokkra hönk upp í bakið á þjóðinni, Það getur verið, að olíufélögin eigi enga hönk upp í bakið á þjóðinni, en ég held því fram, að þjóðinni beri skylda til þess að traðka ekki alltaf á brautryðjendum. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. atvmrh.: Hvað mundi það kosta þjóðina nú og á undanförnum árum, ef öll olía hefði verið flutt til landsins í tunnum, eins og gert var, áður en olíufélögin komu til sögunnar? Því verður ekki neitað, að þessir menn hafa verið brautryðjendur í þessum málum, og þess vegna er rangt að loka augunum fyrir því, að þeir séu traðkaðir niður, þvert ofan í ákvæði stjskr. Það er vitanlegt, að þetta eru verk, sem koma aftur yfir þjóðina, þó að þessi hæstv. ráðh. verði þá kannske ekki í ráðherrasessi til að taka á móti þeim þunga, sem þá kemur fram. Það er sama hugsunin, sem kemur hér fram, eins og þegar ráðizt var á Útvegsbankann og traðkað á þeim mönnum, sem voru utan lands, en áttu hér fé. Ég skil ekki þá hugsun hjá stj. og þingi að halda, að það sé bezta leiðin, nú þegar við ætlum að fara að verða sjálfstæð þjóð, að fara á móti þeim mönnum, sem hafa sýnt okkur velvilja og viljað hjálpa okkur til þess að komast úr kútnum, með svo harðsnúnu lagafyrirmæli, að það stappi nærri stjórnarskrárbroti. Ég skil ekki að það sé bezta leiðin.

Þá vildi hæstv. ráðh. mótmæla því, að hann vildi nota þetta pólitískt, en ég vil biðja hæstv. ráðh. að fara ofurlítið aftur í pólitíska sögu Alþ. og lesa þar, hvernig það vald hefur verið notað af Framsfl. og samvinnufélögunum til þess að afla sérréttinda. Vill ekki hæstv. ráðh. athuga, hvernig því valdi var beitt, þegar örðugleikarnir voru sem mestir með erlendan gjaldeyri á sínum tíma? Og hvernig eigum við, sem höfum orðið að lúta ranglætinu, að bera fullkomið traust til þeirra manna, sem hafa verið álitnir postular samvinnustefnunnar á Íslandi um langan tíma og fylgt þeim flokki, sem ekkert hefur séð annað en hagsmuni þeirrar stefnu, þó að hún hafi brotið gegn öllum réttlætisreglum í viðskiptalífinu? Svo að ég mun ekkert af ummælum mínum taka aftur.

Ég vil, að síðustu minna á það, af því að hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi ekki nauðsynlegt, að málið færi til n., að sjútvn. Ed. hefur klofnað þannig um málið, að hún gat ekki tekið einróma við till. Nd. Að hve miklu leyti hún er klofin um þetta mál, skal ég ekki segja um, og það er því óverjandi að leyfa ekki þessu máli að fara til sjútvn. þessarar d. einmitt fyrir það, að ekkert minnihlutaálit hefur komið fram um þetta hér á Alþ., en það mun sennilega koma frá sjútvn, þessarar d., ef hún fær að athuga málið, nema því aðeins, að mn. mínir verði mér sammála, og væri þá því meiri ástæða til að láta málið ganga til n. Ég sem form. n. skal ekki tefja málið, en skal taka á því eins og ég væri samþykkur því, og tel ég það nægilegt til þess, að hæstv. atvmrh. geti fallið frá till. sinni um, að málið fari ekki til n.

Hæstv. fjmrh. upplýsti, að verðlagið nú væri byggt á verðlagsgrundvelli tveggja fyrri verðlagsn., og það út af fyrir sig réttlætir ekki, að verðlagsstjóri hætti að rannsaka verðlagið frá grunni. Það er rangt, sem hann hélt fram, að sökin lægi hjá þessum verðlagsn. Ef sakast á um, að verðlagið sé of hátt, þá er það fyrst og fremst verðlagsstjóri, er nú situr, sem á að rannsaka það mál. Ef það er rétt, að það þurfi 100% til þess að dreifa olíunni, er sjálfsagt að ganga beint að því að rannsaka það, og ætti að vera búið að því.