05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

27. mál, fjárlög 1944

Jónas Jónsson:

Ég hef flutt hér eina brtt., sem að vísu er ekki búið að útbýta enn, en kemur bráðlega. En af því að þetta er nokkuð stórt efni og það er nú venja, að hv. þm. eru ekki alltaf viðstaddir fjárlagaumr., þá notaði ég tækifærið og gerði grein fyrir þessari brtt. á þskj. 337 í grg. fyrir þáltill., sem ég flyt á því þskj., en ætla ekki að ræða sérstaklega hér. Þessi þáltill. miðar að sérstöku marki, og ég hef líka látið hana koma einmitt nú til þess, að hún væri til skýringar á því máli, sem hér er um að ræða.

brtt., sem ég hér hef flutt, lýtur að því að skipta því fé, sem veitt er til skálda, listamanna og rithöfunda, milli manna í 15. gr. fjárl., en vitaskuld með sömu hlunnindum og í fyrra, sem var uppbót á styrkinn. Og skiptingin, sem aðallega er hér lagt til, að verði látin gilda, er síðasta skipting menntamálaráðs, þar sem menn voru flokkaðir nokkuð saman í stóra hópa, meira en áður hafði verið gert og meira en síðan hefur verið gert. En árið sem leið var hafður á þessu nokkur annar háttur, sumir voru hækkaðir og sumir voru lækkaðir, og voru þá heilir flokkar lækkaðir, eins og t. d. listmálarar og þar að auki mörg skáld. — Þá hef ég gert viðbótartill. um að 22 menn í þeim ýmsu listgreinum fái viðbótarfjárveitingu sem uppbót á styrkinn 1943. Eru þeir tilgreindir hér, og skal ég lesa þá upp síðar. En til þess að gera grein fyrir þessu máli, þá verð ég að víkja að því, að við Íslendingar höfum nokkra sérstöðu í meðferð á þessum efnum. Það hefur engin þjóð í veröldinni neitt svipað því jafnmarga menn að tiltölu á ríkislaunum fyrir óákveðna vinnu, skáldskap og listir, eins og við Íslendingar. Þetta má segja, að sé eðlilegt frá vissu sjónarmiði, af því að þjóðin er fámenn og í mörgum tilfellum erfitt að stunda slíka iðju hér. En það er annars staðar líka. Og þó að það verði ekki til umr. sérstaklega hér í kvöld, þá er þetta framtíðaratriði, og lýtur efni þáltill. á þskj. 337 að þessu.

Það er ekki víst, að það sé það bezta fyrir listir og skáldskap að setja alla menn, sem hafa einhverja hæfileika í þessum efnum, á lífstíðarlaun. Þessu er því miður þannig háttað, að það virðist stundum verða minna úr þeim mönnum í þessum efnum, sem finnst þessi iðja vera eins og jöfn vinna. Og ég held, að það sé mála sannast, að það er ekki hægt að gera þessa framleiðslu, ef svo mætti segja, að iðnaði. Og það er ekki hægt með peningum að skapa listir í raun og veru. Þeir þurfa bara að vera til að styðja þær. Ég vil benda á eitt dæmi, það, að sumar stærstu þjóðir heims eiga engan þjóðsöng. Varla er hægt að segja, að Englendingar eða Danir eigi nokkurn þjóðsöng. Aftur á móti eiga Norðmenn og Íslendingar þjóðsöngva, en þeir komu án þess að við borguðum fyrir þá. Þeir komu fram af því, að andinn kom yfir skáldin á vissum tíma.

Nú hefur svo illa tekizt til s. l. ár, að n., sem úthlutaði skáldalaunum, lækkaði það einasta núlifandi skáld á Íslandi, sem hefur gert þjóðsöng, og haft styrk þess svo lítinn, að það sá sér ekki fært að taka við honum. Það er skáldið sem orti kvæðið „Blessuð sértu, sveitin mín“. — Það var svona farið með þennan mann á yfirstandandi ári. Og það er einkennilegt vegna þess, að það eru engin ljóð til eftir þá menn, sem n. verðlaunar sérstaklega, sem sambærileg eru að þýðingu við þetta eina verk.

Skáldalaunin á Íslandi eru þannig til komin, að skömmu eftir að Matthías Jochumsson orti hið fagra kvæði um Skagafjörð, tóku Skagfirðingar sig til og óskuðu, að hann fengi skáldalaun. Matthías var þá roskinn maður og orðinn frægur. Hann fékk þá þessi skáldalaun, og voru þau síðar hækkuð. Og það var Alþ. til sóma, að þetta var gert eftir ástæðum. En næstu menn, sem komu þannig til greina næstir Matthíasi, voru menn eins og Þorsteinn Erlingsson, Einar Kvaran og Jón Trausti, en engum þessara manna var veitt þessi viðurkenning fyrr en löngu eftir að þeir voru orðnir þjóðkunnir menn og með alveg ótvíræða yfirburði. Samt var barátta um þá stundum raunar alla. En styrkurinn til þeirra hélzt samt áfram, á meðan þeir lifðu. En þessu var ekki strangar framfylgt en það, að Einar Benediktsson fékk engin skáldalaun fyrr en hann var búinn að missa heilsuna, og það voru nánast ellilaun. Og það eru ekki líkur til, að hann hafi lagt nokkra áherzlu á það. Sama er um Hannes Hafstein, Grím Thomsen og Stephan G. Stephansson. Og það má segja, að h. u. b. allt það bezta, sem gert hefur verið í íslenzkri list, hvort sem það er skáldskapur eða sjónleikagerð, hafi komið fram án þess að höfundur þess hafi verið á launum á meðan. Jóhann Sigurjónsson hefur engan stuðning haft til þess að gera sitt bezta verk, Fjalla-Eyvind. Og sama er að segja um okkar beztu listamenn, bæði Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval, Jón Stefánsson og Ríkarð, að þeir höfðu unnið mest af þeirri vinnu, sem þeir hafa gert, án þess að vera styrktir af þjóðfélaginu. Þetta er það virkilega framtíðarmál, að það sýnist eins og allmikil hætta sé á því, a. m. k. ef unglingar eru teknir svona inn á laun, þá geti þeir sofnað á þessum launum, þannig að þetta gæti orðið þeim til ógagns. En á síðustu árum hefur þessum mönnum farið mjög fjölgandi, sem fengið hafa þessi laun, og það var ákaflega mikil ásókn um að komast að í þessu efni, sérstaklega um að komast inn í 18. gr., af því að það var skoðað eins og fast embætti. Mér er kunnugt um einn mann, sem hafði skáldalaun í nokkur ár. Það tókst fyrir nokkrum árum að koma honum inn í fjárl. fyrir „agitation“ í hv. Ed. Og með agitation þar tókst honum að komast fljótt inn í 18. gr. Og þó er það þannig, að ekkert er til eftir þann mann, sem eiginlega neinir menn vita um. Þetta er meðferð, sem er ekki sérstaklega heppileg og ekki vel fallin til þess að kasta neinum glans yfir þá aðferð að veita mönnum skáldalaun.

Við vitum svo það, að fyrir nokkrum árum var gerð tilraun til þess af hálfu hæstv. Alþ. og þáv. ríkisstjórnar að fá þetta meira skipulagt, svo að afgreiðsla þessara mála yrði ekki um of komin undir því, hver mest agiteraði. Það fyrirkomulag, sem þá var ákveðið, stóð svo í nokkur ár, þannig að n. kosin af þinginu skipti fénu. Og ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að tekizt hafi þá að laga margs konar gleymsku, og vil ég þar t. d. nefna það, að af því að Kjarval hafði aldrei agiterað fyrir sjálfum sér, hafði hann aldrei áður fengið slík laun, þó að sumir góðir menn og líka sumir minni menn en hann hefðu fengið laun. En menntamálaráð mundi eftir honum. Sama er að segja um Gunnar Gunnarsson, hann sótti aldrei um nein laun, en honum voru veitt skáldalaun, þegar hann kom hingað heim. Sama er að segja um Kamban, að eftir að farið var að veita mörgum mönnum skáldalaun, var ómögulegt að gleyma slíkum manni. Og á þennan hátt hafði verið fyllt í skörð, þannig að aldrei var á því tímabili, sem menntamálaráð hafði með þessi mál að gera, eins mikill tilviljunarbragur á þessu eins og áður var.

Nú var það einn vaxandi flokkur, kommúnistar, sem vildi hafa meira fyrir sig í þessu efni, og frá sjónarmiði þeirra stefnu var þetta skiljanlegt. Kommúnistar í Rússlandi líta á listamenn og skáld eins og embættismenn í þjóðfélaginu. Þeir eru hafðir til þess að skemmta þjóðinni, og það er allt annað viðhorf heldur en er á Vesturlöndum, þar sem byggja menningarþjóðir. Þeim þjóðum hefur aldrei dottið í hug að gera listamenn og skáld að eins konar vélum fyrir ríkið. Sú deild kommúnistaflokksins, sem er hér á landi, leit svo á þetta mál, að hún vildi koma sínum mönnum í þá aðstöðu, að þeir væru launaðir af ríkinu. Og það er mála sannast, að til þess að koma þessu í framkvæmd, gerðu þeir mikinn herblástur og unnu verulega á. Og það er ekki furða, þó að hér hafi unnizt nokkuð á, þegar þetta er mjög svipað og lýst hefur verið. m. a. í grein í Morgunblaðinu, sem undir var ritað nafnið Eastman, að átt hafi sér stað í Bandaríkjunum í Ameríku, að kommúnistum hafi tekizt að flækja fjölda manns inn í sinn félagsskap í þessu efni, án þess að þeir vissu, hvað þeir voru að fara. Þeir litu svo á, að þetta ættu að vera eins og venjuleg stéttarfélög, og ýmsir menn úr borgaraflokkunum og einnig ópólitískir menn tóku þetta hátíðlega, eins og t. d. Gunnar Gunnarsson, sem vafalaust gerði ráð fyrir, að þetta væri af fullum heilindum gert, enda var honum fullkominn sómi sýndur af þessum félagsskap, þegar hann var að fæðast. — Kommúnistar reyndu svo að ná undirtökunum í þessum félagsskap með því að þeir vildu koma fram þeirri breyt. á l. um menntamálaráð, að 9 menn væru í því, 5 kosnir af þinginu og 4 af bandalagi listamanna, skálda og rithöfunda. Þar ætluðu þeir að fá alla 4 mennina á sinni línu — og hefðu sjálfsagt getað það — og svo einn þingkosinn. Og þannig ætluðu þeir að fá 5 menn af 9 í menntamálaráði á sitt band. En þetta var ekki samþ. En ef þetta hefði verið samþ. þá var meiningin fyrir þessum mönnum að gera menntamálaráð að virkilegu flokksfyrirtæki fyrir þennan flokk. Þegar svona var komið, þótti ýmsum hv. þm., og þar á meðal mér, rétt að prófa það að leyfa kommúnistum að svo miklu leyti sem þeir voru ráðandi í þessu bandalagi — einu sinni a. m. k. að skipta þessu fé. Það gekk svo fram till. í þessa átt, en þegar til kom, voru þeir kommúnistarnir ekki svo ánægðir með þetta, vegna þess að þá áttu þeir að bera ábyrgð, sem þessi flokkur vill gjarnan gera. Svo stóð það í nærri heilt ár, eða a. m. k. marga mánuði, að skáldalaunin voru um deild, og það heyrðist hvorki hósti né stuna frá bandalaginu, en allan tímann var verið að bræða það, hvernig ætti að taka á þessu. Niðurstaðan varð svo sú, að stórlega var gengið á hlut þeirra listamanna, sem ekki voru kommúnistar. Ég ætla að benda á það, að í þeim flokki listamanna, sem menntamálaráð hafði sett í hæsta flokk, voru þeir allir lækkaðir nú málararnir Ásgrímur Jónsson, Jón Stefánsson, Kjarval og Ríkarður Jónsson. Þessir voru allir lækkaðir um meira en fjórða part af því, sem þeir höfðu fengið eftir eldri skiptingunni. Og það var gert til þess, að nokkrir málarar, sem mála á þann hátt, sem fólki geðjast ekki að - svo að þeir geta ekki selt neitt —, gætu fengið peninga. Þetta var eiginlega grunnlaunalækkun — ef á að kalla þetta föst laun —, sem gerð var á þessum tíma, og hún var gerð undir stjórn kommúnista.

Það fór heldur ekki alls kostar vel fyrir skáldunum. Og ég ætla hér að lesa upp þau skáld, sem menntamálaráð við síðustu skiptingu sína á þessu fé hafði gert jöfn í sérstökum flokki, með 3 þús. kr. hvert með dýrtíðaruppbót. Það voru þessi skáld: Davíð Stefánsson, Guðmundur Friðjónsson, Guðmundur Hagalín, Gunnar Gunnarsson, Guðmundur Kamban, Kristmann Guðmundsson og Tómas Guðmundsson. Þetta voru skáld, sem sett voru í sérstakan flokk. Um þessi skáld mundu sumir að sjálfsögðu telja eðlilegt, að allur þorri manna segði: Ég held meira með þessu skáldi en hinu í þessum hópi, og ég vil ekki gera þau jöfn. En ég held, að flestir menn hafi fundið, að það væri ekki óskynsamleg lausn, að taka þessa menn, sem þekktastir væru, og hafa þá saman. En þetta vildi nú ekki þessi nýja n., og hún setti svo Halldór Kiljan Laxness efstan, langt fyrir ofan alla aðra. Svo voru þeir lækkaðir hlutfallslega Davíð, Guðmundur á Sandi, Hagalín, Gunnar Gunnarsson, Kamban, Kristmann og Tómas. (KA: Það er ósatt). Nú er bezt að geta þess, út af þessu framígripi frá manni, sem stóð að þessu einkennilega verki, að það hafði verið hækkuð verulega upphæðin, sem hér var um að ræða, með því að fræðimenn voru teknir út úr með sinn styrk, og því var hér meira fé að skipta en ella hefði verið. Það, sem því skiptir máli í þessu efni, er það, að í staðinn fyrir að þessir menn voru hafðir efstir og þar gerðir jafnir, þá var þeim gerður sá ójöfnuður að setja þá langt fyrir neðan einn af höfuðmönnum kommúnista. Og nú þarf að sjálfsögðu ekki að deila um það, að þessi skáld vantar ekki sem stendur peninga, en þau líta á þennan styrk sem viðurkenningu af þjóðfélagsins hálfu. Og það þarf ekki að leita lengra en það, að sá maður, sem kommúnistar höfðu látið mest með, Gunnar Gunnarsson, hann skildi þetta þannig, að sér hefði verið gerð svívirðing, og undireins og hann frétti þetta, sendi hann úrsögn úr félaginu. Og það var af þessu, sem ég var að segja það, að þessir menn, sem ég nefndi, hefðu verið lækkaðir hlutfallslega, en ekki út af því, að þeir hefðu ekki nóga peninga eða þeir gerðu peningaupphæðina að svo miklu máli fyrir sig. Og þeir hlutu að sjá, að svo mikið ranglæti var í þessu, sem þjóðin hlaut að taka eftir. Gunnar Gunnarsson var svo settur við hliðina á Þórbergi Þórðarsyni, sem náttúrlega er ekkert skáld, en maður gæti sagt, að væri að sumu leyti ekki óheppilegur blaðamaður við stórt blað, með einhverja litla deild þar. Og það er ekki vafi á því, að þessi röðun í veitingunni hefur ekki hugnazt manni eins og Gunnari Gunnarssyni, en ég skal að öðru leyti ekki fara svo náið út í þetta. En aðalatriðið er þetta, að það, sem kom ljóst fram í þessu efni, var, að þessir menn, sem ég hef nefnt, voru hlutfallslega lækkaðir til þess að koma að vissum vildarvini kommúnista. Og skáld, sem þjóðin ann mest og les mest, voru sett langt niður fyrir einn af mönnum kommúnista — og vitanlega í þeim tilgangi að sýna, að hann væri þeim fremri að áliti. Og aftur hina minni spámenn, sem kommúnistar höfðu með að gera, settu þeir miklu hærra en almenningsálitið leyfði eftir þeirra verðleikum.

Nú sannar þetta ekki annað en það, að bandalagið gat ekki gert þessa hluti, en það var búið að heimta það, og því var svarað á þann hátt: Sýnið þið þá, hvað þið getið. — Og það reyndist þannig, að aldrei var meira ranglæti og aldrei var meiri ósanngirni, ég vil ekki segja fyrirlitning. Það er skiljanlegt, að hæstv. stj. setti þetta inn í fjárl. eins og þingið skildi við það í fyrra. En þetta er ekki við unandi, því að þetta er sú versta aðferð, sem hægt er að hafa, að láta þetta vera eins og íkveikju milli listamannanna sjálfra og ganga út yfir þeirra beztu menn, svo að þeir skammist sín fyrir að taka á móti fénu, heldur vilji ekkert af því vita. Þá hefur það einnig sézt, hvernig fór með menn eins og Gunnar Gunnarsson, sem ginu við þessari flugu, þá eru þeir búnir að sjá, við hvaða réttlæti þeir eiga þarna að búa. Og þegar rithöfundar, sem sennilega eru sjálfstæðismenn, koma og segja: Mér hefur verið misboðið með þessum skiptum, — þá er ekki hægt að svara þeim öðru en þessu: Þeir skiptu fénu, sem standa fyrir þessu félagi, sem þú varst með í að stofna. — En þetta sýnir, hvernig menn líta á það.

Það, sem hér er um að velja, er því annaðhvort það, að þetta sé áfram á valdi kommúnista, svo að þeir geti haldið áfram að misbjóða mönnum eftir vild, eða þá að þessu fé verði skipt milli einstakra manna, eins og ég legg til, og geta þá aðrir komið með till. um sína menn nú og við 3. umr. Ég álít heppilegt, fyrst þessi glundroði er kominn á, að næstu 1–3 þing verði notuð til að prófa, hvernig þingið stendur gagnvart þessum mönnum. Ég get vel hugsað mér, að það séu margir hv. þm., sem ekki kæra sig um að hafa menn eins og Davíð Stefánsson, Guðmund Friðjónsson, Guðmund Hagalín, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson og Tómas Guðmundsson við sama borð og Þórberg Þórðarson, og ég vil, að þeir sýni sína trú í því, að hér verði öðruvísi um búið. En af því að ég tel, að margir af okkar beztu listamönnum hafi verið móðgaðir af kommúnistum, sem réðu þessari skiptingu, þó að þar væru tveir menn úr öðrum flokkum og því í minni hluta, hef ég komið með till. um, að nokkru af því fé, sem hæstv. stj. hefur lagt ríflega fram, verði skipt sem uppbót milli nokkuð margra manna í eitt skipti fyrir öll, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp nöfn þessara manna. Þau eru þessi: Ásgrímur Jónsson, Davíð Stefánsson, Guðmundur Friðjónsson, Guðmundur Hagalín, Guðmundur Kamban, Jón Stefánsson, Jóhannes Kjarval, Ríkarður Jónsson, Tómas Guðmundsson, Gunnlaugur Blöndal, Finnur Jónsson, Jakob Thorarensen, Hallgrímur Helgason, Elínborg Lárusdóttir, Unnur Bjarklind, Sigurður Jónsson, Arnarvatni, Guðmundur Böðvarsson, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Guðfinna Jónsdóttir, Björgvin Guðmundssum, Sigvaldi Kaldalóns, Karl O. Runólfsson.

Viðvíkjandi framtíðinni skal ég ekki segja margt nú. Ég skoða þessa till. mína ekki nema til bráðabirgða. Hitt er mál, sem verður vandlega að athuga, hvernig eigi að setja menn á bekk með skáldum og listamönnum, og treysti ég hæstv. stj. að athuga það mál. En þessa till. mína tel ég viðunandi eins og sakir standa, vegna þess að hér eru lagðir til grundvallar helztu skáld og listamenn þjóðarinnar, og ég fullyrði, að viðbótarstyrkinn fá ekki aðrir en þeir, sem hafa látið eftir sig mikið starf og eru viðurkenndir fyrir sína list.