30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti er ekki búinn að taka afstöðu til þess, hvernig ég greiði atkv. um þetta mál. Ég er ákveðinn í því, ef ég tryði á það, að þetta mundi verða til þess, að útgerðarmenn fengju olíuna ódýrari nú og í framtíðinni en verið hefur, að þá væri sjálfsagt að samþ. það. Þó er ég mjög á móti ákvæðum 6. gr. og mundi aldrei fylgja henni óbreyttri. En það, sem ég óttast, er það, að þetta frv. geti leitt til þess, að ríkið taki fyrr eða síðar í sínar hendur, einmitt fyrir samþykkt þess ákvæðis, einkasölu á olíunni. Og fyrir það vildi ég koma í veg, ef unnt væri. Ég er orðinn það gamall, að ég man eftir, þegar hér var einkasala á olíu. Þá gekk allt í ólestri í sambandi við olíusöluna. Og það var ekki fyrr en ríkið sleppti þessari einkasölu; að fyrirtæki einstaklinga hrundu því í framkvæmd að smíða hér olíugeyma og hætt var að flytja olíuna inn á tunnum. En mér finnst, að það þurfi að athuga ákaflega margt í sambandi við þetta mál. sem ekki hefur verið athugað. Sjútvn. beggja d. munu hafa athugað þetta mál allverulega, en eftir því, sem mér hefur skilizt, þá voru þær bundnar þagnarheiti við stjórnina um, að þær skýrðu ekki einu sinni frá því, sem var að gerast, a. m. k. í hálfan mánuð.

Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. um viss atriði, áður en ég tek afstöðu til þessa máls, um leið og ég bendi á, að þau félög, sem með olíuverzlunina fara í heiminum, eru ekki nein smáfélög, því að sum þeirra munu hafa svo mikinn starfsmannafjölda í þjónustu sinni, að jafnmargir eru öllum Íslendingum að minnsta kosti, og stjórnir heimsveldanna, eins og t. d. Bretlands, eiga meiri hlutann í sumum félögunum og þar á meðal öðru félaginu, sem starfar hér á landi. Ýmsar þjóðir hafa lagt sem mest, kapp á að fá sem flest af þessum stóru félögum til sín með verzlun á olíu, oft fyrir milligöngu systrafélaga eða dótturfélaga í löndunum, og hafa álitið, að hagsmunum neytenda væri bezt borgið með því, að samkeppni væri þeirra á milli. Og undir venjulegum kringumstæðum hygg ég, að svo sé. En ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., áður en atkvgr. fer fram um þetta mál, hvort ríkisstj. hafi tryggt sér olíukaup fyrir næsta ár, ef þau félög, sem hér eru, hætta að starfa hér. Enn fremur vil ég spyrja um, hvort hæstv. ríkisstj. hefur tryggt sér kaup á tankskipi til þess að flytja olíuna á milli hafna hér á landi til þeirra staða, þar sem tankar eru fyrir. Enn fremur álít ég. að það væri ekki úr vegi að athuga það, hvað búast mætti við, að enska stjórnin segði við samþykkt þessa frv., þar sem vitað er, að félag, sem hún á meiri hlutann í, er annað félagið, sem starfar hér, en yfir hinu félaginu, Shell, hefur hún mikil umráð. — Og mætti þá vænta árekstra ef eignir félaga þessara yrðu teknar eignarnámi, en við því má búast, ef 6. gr. frv. verður samþykkt. — Ég tel málið ekki upplýst hér í hv. d., fyrr en búið er að gefa fullnægjandi svör við þessum fyrirspurnum.