30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Seyðf. (LJóh), er hann spurðist þannig fyrir: Hefur ríkisstjórnin tryggt sér olíukaup fyrir næsta ár, — vil ég svara þannig: Ríkisstj. hefur samninga um það, að viss stórveldi sjái Íslandi fyrir nauðsynjum, svo sem frekast má við koma. Þetta hefur verið skilið á þann hátt, — og hingað til hefur reynzt að mega skilja það þannig —, að við fáum allar þær nauðsynjar, sem við þurfum og höfum þurft á að halda til lífsviðurværis og rekstrar atvinnuveganna hér í landinu. Þetta hefur reynzt þannig undanfarin ár, beint og óbeint. Og olían fellur að sjálfsögðu undir þetta.

Um það, hvort ríkisstj. hafi tryggt sér kaup á tankskipi, vil ég upplýsa það, að ríkisstj. hefur ekki eins og stendur neitt öruggt eða tryggt í þessu efni. En hún hefur gert athuganir á möguleikum um þetta, og er ekki vonlaus um, að úr þessu rætist, ef á þyrfti að halda.

Í þriðja lagi geri ég ekki ráð fyrir, að hv. þm. Seyðf. ætlist til þess, að ríkisstj. fari að spyrjast fyrir hjá stjórn erlends stórveldis, hvort því mundi líka betur eða verr, að hið háa Alþ. setti lög um málefni, sem algerlega eru innanríkismál. Segi ég þetta í tilefni af því, að hv. þm. Seyðf. nefndi það, hvort ríkisstj. vissi um það, hvað Bretastjórn vildi í þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að hið háa Alþ. setji nú sem endranær þau l., sem hagkvæmust þykja fyrir þjóðina án þess að spyrja nokkra útlendinga um það.