05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

27. mál, fjárlög 1944

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Það eru tveir liðir í till. hv. fjvn., sem ég vil drepa á með örfáum orðum, en það eru liðirnir um risnu til biskups og húsaleigustyrk til presta í Reykjavík, sem hv. fjvn. hefur lagt til, að yrðu felldir niður. Hv. 10. landsk. lagði til í ræðu sinni, að fjvn. tæki þessar till. aftur til 3. umr. til að byrja með, og vil ég eindregið taka undir þá ósk hv. 10. landsk. Ég vil þó rökstyðja þetta nokkru nánar. Fyrst og fremst virðist mér, að þegar ákveðnir liðir eru settir inn af stj., væri æskilegt, að fjvn. gerði þeim ráðh., sem á hlut að máli, viðvart, áður en hún leggur til að strika liðinn út, því að verið getur, að ekki hafi allt verið fram tekið, sem kann að vera til stuðnings því, sem fram getur komið víð aths. stj. við þessa liði. Ég vil einkanlega í þessu sambandi benda á það, sem var ekki tekið fram í aths. stj. við fjárlagafrv. fyrst og fremst vegna risnu biskups.

Með bréfi stj. frá því vorið 1941 var tekinn upp liður, 2000 kr., til risnu biskups. Var það vitanlega gert bæði frá því sjónarmiði, að þessi háttsetti embættismaður hefur lægri laun en má segja, að sé samboðið hans embætti saman borið við önnur embættislaun, og einnig hlýtur þetta embætti að vera kostnaðarsamt vegna risnu. Í sumar fann stj. ríka ástæðu til þess, þegar henni var bent á það, að leyfa verðlagsuppbót á liðinn. Þess vegna kemur það ærið hart niður, ef þessi liður skyldi nú verða felldur niður samkvæmt till. hv. fjvn.

Þá er það hinn liðurinn. Það er húsaleigustyrkurinn til presta í Reykjavík. N. leggur einnig til, að sá liður verði felldur burt. Ég held nú, að þetta sé hreint og beint af vangá hjá fjvn., því að húsaleigustyrkur til presta í Reykjavík er lögboðinn. Með prestakallalögunum fyrir Reykjavík frá 1940 er svo fyrir mælt, að prestar í Reykjavík skuli hafa embættisbústað, en þar til þeir fá hann, eiga þeir að fá húsaleigustyrk, og þessi styrkur var ákveðinn í þeim l. 1200 kr. á ári. Við, sem þekkjum til hér í Reykjavík, vitum, að 100 kr. á mánuði árið 1940 hefur jafngilt tveggja herbergja íbúð með eldhúsi. Svo þegar þetta átti að koma til framkvæmda og prestar voru kosnir, var ekki um annað að gera fyrir stj. en að veita prestum húsaleigustyrk, sem nokkru næmi, og hún veitti þegar á árinu 1941 200 kr. til prestanna. Eftir það fengu tveir prestar embættisbústað, en þeir, sem ekki hafa fengið hann, halda styrknum. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að það væri misrétti fólgið í þessu gagnvart öðrum prestum, en þetta er ekki alls kostar rétt, því að prestar til sveita borga að vísu svolitla húsaleigu, en það er hreinasta smáræði, sem þeim er reiknað í húsaleigu fyrir sinn embættisbústað. Sem sagt, ég vil taka undir þá till. hv. 10. landsk., sem ég vil einnig gera að minni till., að hv. fjvn. sjái sér fært að taka aftur þessa till.

Þá er það eitt atriði enn, sem ég vildi minnast á, en það var út af ummælum, sem hv. þm. Barð. lét falla í gær út af embættisbréfi, sem fór frá mínu rn. í vor. Hv. þm. komst svo að orði, að dómsmrn. hefði skrifað það ósvífnasta bréf, sem sézt hefði. Hann fór um það nokkrum orðum, hvað skrifstofustjórinn hefði farið út yfir velsæmi í þessu og rn. hefði ekki gætt skyldu sinnar í því að fara sæmilega með málið. Áður en ég lýsi þessu frekar, þykir mér rétt að minnast á, hvernig þetta er til komið.

Svo er mál með vexti, að Brjánslækur er eitt af þeim prestssetrum, sem vantar prest, en þau munu nú vera alls um 10 á landinu. Staðurinn er nú í byggingu leiguliða. Ábúandinn, sem þarna var og er kannske enn, lét sér umhugað að fá endurbætur á prestsseturshúsunum, og hefur hann fengið þær að nokkru leyti. Fékk hann til þess endurbótastyrk, sem var að vísu ekki mikill, en mun þó hafa verið um 1½ þús. kr. Hann sneri sér í þessu efni til prófasts, og prófasturinn styrkti þetta mál. En auk þess er vitað, að Brjánslækur hefur í síðari tíð orðið talsverð ferðamiðstöð, svo að hýsing staðar er ekki aðeins nauðsyn fyrir prestinn þar, heldur einnig fyrir póst og gesti, og af því tilefni vænti ég, að hv. þm. Barð. hafi komið með þá till., sem er á þskj. 314 um 10 þús. kr. til endurbóta á húsum prestssetursins, og vil ég mæla hið bezta með þessari till., því að hún er þörf. Ég vil í því sambandi láta þess getið, að ég held, að hv. frsm. meiri hl. hafi dálítið misskilið, hvernig þessa till. hv. þm. Barð. ber að, því að það er ekki ætlazt til, að þetta verði tekið af því fé, sem nú á að áætla til endurbóta á prestssetrum, heldur alveg nýr liður fyrir utan það fé, sem annars er ætlað til endurbóta á prestssetrum landsins. Ábúandinn á Brjánslæk hefur sem sagt snúið sér til prófasts og fengið meðmæli hans og einnig til sýslumanns og fengið hans atbeina til að koma þessu á framfæri á Alþingi. Þinginu barst í fyrra bréf frá sýslumanni um þetta efni, þar sem sýslumaður stingur upp á því, að fé verði varið af 13. gr. fjárl. A. X., þ. e. a. s. af þeim lið fjárl., sem ætlaður er til húsabóta á stöðum í þjóðbraut. Þessu var ekki sinnt á Alþingi í fyrra. En hv. þm. Barð. vildi ekki láta við þetta sitja, og nú stefnir hann á fund biskupi, vegamálastjóra og póst- og símamálastjóra og talar við þá um málið, og eftir þetta viðtal, sem fór fram án þess að rn. vissi nokkuð um það, skrifaði hv. þm. Barð. biskupi bréf um þetta, en þetta bréf er stílað til rn., en sent rn. um hendur biskups. Síðan skrifar skrifstofustjórinn aftur biskupi bréf sem svar við þessu bréfi hv. þm. Barð., og í þessu bréfi kemst skrifstofustjórinn dálítið ógætilega að orði, verð ég að segja. Ég ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa úr þessu bréfi nokkur orð, sem skrifstofustjóri lét sér þar falla úr penna. Hann segir þar svo: „Nú nýlega hringdi bréfritarinn til skrifstofu ráðuneytisins út af bréfi þessu með meiri rosta en ráðuneytið á að venjast og er vant að þola.“ Það eru þessi orð, sem eru dálítið ógætileg, en þar eru ekki tilgreind nein ógætnisorð, sem hv. þm. hafi látið falla. Ég vil nú skjóta því til hv. þm., hvort þeim geti ekki dottið í hug, að þegar hv. þm. Barð. er í ákafa sínum að berjast fyrir fríðindum til handa kjósendum í kjördæmi sínu, hafi hann getað látið falla orð til embættismanns, sem honum sem embættismanni gætu þótt nokkuð nærgöngul við sína embættisæru, því að það er svo með marga gamla embættismenn, — og ég get sagt svo um mig, — að þeir hafa dálitla tilfinningu fyrir sinni embættisæru. Það getur verið, að þótt hann hafi látið sömu orð falla hér á Alþingi, þá hafi ekki verið tekið hart á þeim, þó að þessum embættismanni hafi fundizt þau óviðeigandi, en hitt skal ég játa, að það var dálítið ógætilegt af þessum embættismanni að segja þetta. (ÓTh: Það fer nú talsvert eftir því, hversu verðskuldað það hefur verið). En ég get líka trúað, að hv. þm. Barð. hafi látið falla ógætileg orð í síma. Út af því, sem á undan var gengið, sendi skrifstofustjórinn afrit af þessu bréfi til prófasts, sýslumanns Barðstrendinga og hv. þm. Barð. sjálfs, svo að þau hafa farið á milli þessara heiðursmanna þessi ógætilegu orð, sem skrifstofustjórinn lét falla.