10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umr. um frv., en hv. þm. Barð. hefur séð ástæðu til að bera mig sökum, sem ég vil svara. Frv. var borið fram af ráðherra, og mun hann að sjálfsögðu halda hér uppi svörum. En við 1. umr. tók ég fram, hví ég væri móti því að vísa frv. til n., því að það var búið að fá meðferð í n. Þetta get ég nú endurtekið, þótt hv. þm. Barð. haldi öðru fram. Hann stendur bersýnilega í þeirri meiningu, að hann sé sjútvn. eða sama sem einn í n. og þegar hann taki ákvörðun, hafi n. geri það. En auk hans er þar raunar 1. þm. S.-M. og ég. Þegar frv. lá fyrir sjútvn. Nd., vorum við þrír boðaðir á fund með henni, og inntu n við 1. þm. S.-M. eftir því, hvort við ættum að taka þar þátt í málsmeðferð og atkvgr. um einstakar gr. frv. Því var játað, og það gerðum við tveir, en hv. þm. Barð. lýsti yfir, að hann vildi ekki eiga þátt í afgreiðslu málsins þar, heldur gera síðar grein fyrir afstöðu sinni, eins og hann hefur nú gert. Hann fer með ósatt mál, þegar hann neitar því, að sjútvn. þessarar d. hafi ekki gefizt kostur á að taka þátt í athugun málsins, og kemur mér undarlega fyrir sjónir, hvað honum þykir unnið með því.

Hann lét þess líka við getið, að ég mundi í þessu sem öðru fara mjög eftir fyrirmælum, sem ég fengi frá mínum flokki. Hann ætti frekar að stinga hendinni í eigin barm en deila þar á aðra. Ég veit ekki betur en við Alþflm. þessarar d. höfum báðir gert grein fyrir afstöðu okkar til málsins og skýrt, á hverju hún byggist. Þó að Alþfl. og við hv. 3. landsk. hefðum kosið margt í frv. betur úr garði gert en er, er einsætt að fylgja frv., svo að það nái nú samþ. og komi sem fyrst að gagni. Allir vita, að olíumál útvegsins eru í mesta öngþveiti og eitthvað verður að gera. Ef hv. þm. Barð. vildi rannsaka, hvernig flokkur hans skildi við þau mál í sinni stjórnartíð, býst ég við, að hann kæmist að þeirri niðurstöðu, að sumt hafi þá farið verr en skyldi. Hann ætti að rannsaka, hvort það er satt, að verðlagsnefnd hafi í tíð fyrrv. ríkisstj. ætlað að hlutast til um, að olían yrði lækkuð, en þá hafi þeim málum verið kippt úr hendi hennar af ríkisstj. og þar með öll olíulækkun stöðvuð. Það væri ákaflega fróðlegt að fá eitthvað um þetta að vita.