10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Af öllu því, sem sagt hefur verið um þetta mál, hafa niðurlagsorð hæstv. ráðh. verið ósæmilegust. Hver er að núa útkjálkamönnum því um nasir, að þeir hafi ekki dug til að nota sér styrk til að koma sér upp olíugeymum, ef aðstaðan er þannig að ekki er hægt að gera það. Það þarf mörg ár til að koma upp nógu mörgum olíugeymum. Það er hvorki til efni né fólk og því ekki unnt að koma þeim upp í einu á öllum stöðum og ekki heldur, þó að þetta hvort tveggja væri fyrir hendi. En þær millj., sem teknar eru til tanka, eru úr ríkissjóði, einnig frá þeim, sem greiða í hann í sköttum og tollum og búa við erfið lífskjör úti á landi, og það er ósæmandi að taka úr vasa þeirra til að bæta kjör annarra. Úr því að ráðh. hefur fallizt á, að rétt væri að bæta þessum mönnum það upp, ef olían hækkaði, vildi ég, að hann bæri fram þá brtt., að þeim skyldi bætt það upp. Ef hann vill lýsa yfir því tvisvar hér í d., því að minna má ekki gagn gera, ef maður á að trúa slíkri yfirlýsingu, að það skyldi verða greitt, sem olían kynni að hækka, gæti ég sætt mig við það. En orðalag mitt kemur af því, að ef olían lækkar á öðrum stöðum fyrir aðgerðir, sem útkjálkamennirnir verða að borga að einhverju leyti, vil ég, að þeir njóti góðs af. Þegar þetta er orðið að l., streyma inn beiðnirnar um 20% styrk og lán til að koma upp tönkum. En það, sem hæstv. ráðh. lýsti yfir, að hann ætlaði að láta byggja fyrir, getur hann aldrei staðið við. Svo mikil fjarstæða er það. Reynslan mun sýna, að það mál hefur ekki verið undirbúið eins og skyldi. Þess vegna þorir ráðh. ekki að leggja fram gögnin um, hvað þetta raunverulega kostar, og þess vegna þorði hann ekki að láta málið fara í sjútvn., af ótta við, að n. mundi knýja fram gögnin. Mér hefur ekki dottið það í hug fyrr, en þetta er dómurinn, sem hæstv, ráðh. kallar yfir sjálfan sig. Ég held fast við mína brtt.

Ég ætla að minna á það, sem hæstv. ráðh. sagði um þá breyt., að „ríkisstjórn“ komi í stað „ráðherra“. Ég taldi fara betur á því, enda viðurkenndi ráðh., að svo væri, en ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli.

Ummæli hæstv. ráðh. um landssambandið eru sprottin af vanþekkingu, og ef við eigum að bera saman það og fiskifélagið, sem ég met mikils, er það það sama og að bera saman Búnaðarfélag Íslands og Sambandið, og vildi ég vita, hvort ráðh. vildi alls staðar láta taka í burt, að eitthvað skuli gert eftir samþ. Sambandsins og setja í staðinn Búnaðarfélag Íslands. Landssambandið er útvegsmannanna eigin stofnun, sem þeir hafa allir aðgang að. Það er þeirra hagsmunafélag. Hér er um að ræða mál, sem snertir hrein og bein viðskipti. Fiskifélagið er nokkuð vísindaleg stofnun á sviði sjávarútvegsmálanna og hefur allt annað verksvið. Ummæli hæstv. ráðh. um fundahöld mun ég svo athuga og sjá, á hve miklum rökum eru byggð. En mér er spurn: Hvaða hagnaður er fiskimönnum að því, að fiskifélagið sé spurt ráða, ef ekkert á að taka tillit til umsagnar þess? Mér dettur í hug að halda, að það gæti ekki verið sá ráðh., sem færi aðeins eftir sínu eigin höfði, ef hann sæi hagsmunum sinna flokksmanna borgið. Ég vildi koma í veg fyrir þá rangsleitni, sem ríkti hér, þegar Framsfl. sat við völd, og mun ríkja aftur, ef hans gætir á ný.

Það getur vel verið að um eignarnám sé í öðrum l., en ef sama regla á að gilda og fyrir hafnarmannvirki, því mega þá ekki sams konar ummæli vera í l.? Það liggja á bak við orð ráðh. aðrir hagsmunir en hægt er að koma að við eignarnám handa hafnarmannvirkjum. Og því hefur einmitt verið neitað að setja l. um hafnir einstaklinga. Hafnir eru eign bæjar- og sveitarfélaga, en í engum hafnarl. er eignarnámsheimild fyrir einstaklinga. Undantekningar eru aðeins í Keflavík og á Bíldudal. Það er allt annað að taka land undir höfn handa bæjarfélagi eða að þrír útgerðarmenn, sem eiga tvær trillur, geti krafizt þess að fá beztu spildu úr landi manns undir olíugeymi. Það er engin furða, þó að ekki sé hægt að koma fram skynsamlegum till. gagnvart manni, sem ekki vill skilja þetta. Hver á að meta þörfina? Hann vantreystir sér til þess að geta fengið hana framlengda eða treystir sér ekki til þess að koma henni í gegn á næstu árum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það mál frekar, en ég held fast við þá kröfu mína, að þessu máli verði vísað til n. Og ég þykist vita, að það mundi nást samkomulag um það í n. að laga ýmsa agnúa á frv. og gera það þannig betur úr garði, og þá er ég viss um, að frv. fengi sterkara fylgi. Mig undrar, að hv. 9. landsk. skuli alltaf halda því fram, að málið hafi verið athugað í n. hér í d., en það er algerlega rangt. Lygin verður aldrei sannleikur, hversu oft sem hún verður endurtekin. Að segja, að sjútvn. Ed. hafi greitt atkv. um þetta mál, er ekki rétt, og það get ég sannað skriflega. Hv. þm. væri því óhætt að láta taka þessa lygi sína niður á plötu og spila hana í sífellu, en hún verður aldrei sannleikur fyrir því. Stærsta sönnunin fyrir því, að málið hefur ekki verið athugað í n. í Ed., er sú, að það hefur aldrei verið gefið hér út neitt nál. um málið, og það hygg ég, að sé einsdæmi um svo stórt mál. Mér var að vísu innan handar, sem form. sjútvn. að taka málið fyrir, kljúfa n. og gefa út nál., en ég gerði það þó ekki. Ég er viss um, að ef ekki hefði verið staðið á móti því, að málið gengi til n., þá væri það nú komið lengra áleiðis en það er komið nú. Það er ekki hæstv. atvmrh. að þakka, að frestað hefur verið að ræða þetta mál, það er hæstv. forseti; sem hefur gefið mönnum tíma til þess að athuga málið og koma með brtt. við það, og það sýnir, að það eru þó til menn í þessari hv. d., sem eru ekki alveg gersneyddir réttlætistilfinningu, þótt það sé ekki hæstv. atvmrh., því að hann vill ekki einu sinni þinglega meðferð málsins.

Ég spyr nú í sambandi við það, sem hv. 9. landsk. sagði, hvers vegna hefur ekki þessi ríkisstjórn beitt verðlagsákvæðinu til þess að lækka olíuna, úr því að fyrrverandi ríkisstjórn gerði það ekki? (Atvmrh.: Hver lækkaði olíuna?). Úr því að hæstv. ráðh. greip hér fram í, þá held ég, að rétt sé að athuga það nokkuð. Hver var það, sem knúði hæstv. atvmrh. til þess að lækka olíuna, þegar hann kom skríðandi til þingsins í fyrra og bað það — ekki tvisvar, heldur þrisvar — að veita sér heimild til þess að veita fé úr ríkissjóði til að lækka olíuverðið? Og þá benti þingið honum á, að hann ætti að hafa hug til þess að standa á móti erlendu valdi, svo að ekki þyrfti að hækka olíuna í innkaupi. Þessi hæstv. ráðh. hélt svo tvo næturfundi til þess að fá þingið til að samþ. að veita fleiri millj. kr. úr ríkissjóði, til þess að olían þyrfti ekki að hækka, en þingið kúgaði hann til þess að draga úr þjónkun sinni við hið erlenda vald.

Ég veit, að það hefði ekki einn einasti ráðh. vogað sér að sitja eftir slíka kúgun nema þessi hæstv. ráðh., en svo kemur hann hingað og ætlar að halda því fram, að hann hafi lækkað olíuverðið. (Atvmrh.: Lækkaði ekki olían?) Hún lækkaði fyrir vald þingsins, en ekki fyrir atbeina hæstv. ráðh.