16.12.1943
Efri deild: 68. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Sjútvn. hefur haft málið til athugunar og komizt að samkomulagi um að bera fram skriflegar brtt. við 6. gr. frv. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa þær upp:

a. Upphaf greinarinnar orðist svo:

Ef þörf krefur, getur ríkisstjórnin tekið lóðir og lóðarréttindi eignarnámi o. s. frv.

b. Í stað „ráðherra“ í síðari málslið greinarinnar komi: ríkisstjórninni.

c. Aftan við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Eignarnámsheimild samkvæmt þessari grein fellur niður, sé hún eigi notuð innan eins árs frá gildistöku laganna.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að þessar breyt. eru í nokkru samræmi við brtt., sem ég flutti á þskj. 561. Þar var að vísu nánar ákveðið um eignarnámsheimildina, en ágreining mun ég ekki gera um það, eins og nú horfir. Í stjórnarskránni o. fl. l. eru takmarkanir, sem gera að verkum, að fært má telja að samþ. frv. án frekari umbóta á þessu atriði. N. þótti ekki heldur ástæða til að tefja málið á því að gera brtt. við 3. og 5. gr. Það, sem ég vildi fá skýrt fram í sambandi við andmæli mín frá upphafi hér í d., er sá skilningur, sem leggja verður í orð brtt. „ef þörf krefur“. Það þýðir, að eignarnám skuli ekki fara fram, nema leitað hafi verið frjálsra samninga áður og tillit tekið til þess, ef hægt hefur verið að benda á aðra jafngóða staði, svo sem ég hef um rætt. Ég vísa því til ríkisstj., að því verður að mega treysta, að hún beiti ekki eignarnámsheimildinni, nema áður hafi slík undirbúningsathugun farið fram.

Ég hefði að sjálfsögðu óskað, að síðasta brtt á þskj. 561, um nýja 7. gr., hefði orðið borin fram af n. En ég geri það ekki að kappsmáli og treysti ríkisstj. og Alþingi til að taka vel á þeim málum, ef örðugleikar yrðu á, meðan millibilsástandið stendur, að koma olíu til þeirra staða, sem fá hana í tunnum.

Ef þessar brtt. ná samþykki, er ég fylgjandi þessu frv.