05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

27. mál, fjárlög 1944

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Það er aðeins stutt aths. og svar við fyrirspurn hv. þm. Barð. Sá hv. þm. kvaðst vona eða gerði kröfu um, að ég ávítaði skrifstofustjórann fyrir það að hafa látið þessi orð falla, sem um hefur verið rætt. Ég held, að það sé aldeilis óþarfi, því að ég hygg, að skrifstofustjórinn hafi tekið fulla iðran eftir það að hafa skrifað svo ógætileg orð um hv. þm. Barð., — og ekki sízt þegar má vel skilja, að nokkurt tilefni gæti hafa verið, eftir að þessi hv. þm. sýnir í þessari umr., hve varkár hann sjálfur er, þar sem hann segir, að það sé smán að hafa ekki látið Barðstrendinga fá meiri vegabætur og brýr heldur en gert hefur verið. (GJ: Það er sannarlega smán). Hver ber ábyrgð á þessu máli? Það er fjárveitingavaldið og Alþ. Það er þá altso smán fyrir fjárveitingavaldið og Alþ. að láta Barðstrendinga ekki njóta meiri réttar en verið hefur. (GJ: Það er sannarlega).

En viðvíkjandi hinu, að ég gefi loforð um, að 10 þús. kr. verði varið til umbóta húsakynnum á Brjánslæk af þeim 70 þús. kr., sem ætlaðar eru til nýbygginga og endurbóta á húsakynnum á prestssetrum, þá get ég ekki að svo vöxnu máli lofað því. Því að fyrir það fyrsta hygg ég, að hv. þm. Barð. hafi góðar stoðir fleiri en kirkjujarðasjóð eða þessa fjárveitingu fyrir því að láta nú gera einhverjar aðgerðir á húsakynnum á Brjánslæk, vegna þess að þarna eru póstsamgöngur. En svo er högum háttað með fjárreiður og fjármál, sem kirkjumálaráðuneytið hefur yfir að ráða, að það eru ein 10 prestssetur, sem eru í fullkominni niðurníðslu, og því fé, sem til er fyrir hendi og á að verja til að bæta úr því, verður fyrst og fremst að verja til þess að endurbæta þau prestssetur, þar sem prestar eru, til þess að þeir þurfi ekki að flýja sína staði. En þau prestssetur eru heldur látin mæta afgangi, þar sem prestur er ekki. Og nú, þegar veittar eru 70–80 þús. kr. í þessu skyni, þá hrekkur það fé skammt. Og á síðustu árum hefur ekki verið hægt að fá menn til þess að vinna þessi verk. Við þyrftum a. m. k. hálfa millj. kr. til þess, ef við ættum á þessum tíma að endurbæta prestssetrin eins og þarf við skulum segja svona 8–10 prestssetur. Og við þyrftum meira en peningana, við þyrftum líka að fá efni og vinnukraft til þessara framkvæmda. En um það, hvaða prestssetrum eigi að sinna fyrst í þessu efni, verðum við að hafa samráð við biskup og aðra kunnáttumenn. Og þess vegna get ég að svo vöxnu ekki lofað hv. þm. Barð. neinu í þessu efni.