21.04.1943
Efri deild: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

12. mál, bannsvæði herstjórnar

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá er þetta frv. flutt af allshn. samkv. ósk hæstv. dómsmrh., og eru allir nm. sammála um að mæla með, að frv. nái fram að ganga. Ég skal ekki tefja tímann með því að rökstyðja frv., en get þar tekið undir allt sem hv. frsm. sagði.

En það er eitt atriði í þessu frv., sem hefur gefið mér tilefni til að taka hér til máls. Ég vildi sérstaklega beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. utanrrh., sem er staddur hér í d.

Það er tekið fram í 1. gr. frv., að refsa eigi fyrir óheimila för og dvöl á bannsvæði herstjórnarinnar, og er þá talað um bannsvæði, sem íslenzk yfirvöld hafa auglýst sem slík. En það er út af þessum bannsvæðum, sem ég vildi gera fyrirspurn til hæstv. ráðh.

Eins og kunnugt er, var svo um samið milli íslenzku ríkisstj. og stjórnar Bandaríkjanna, þegar Bandaríkin tóku að sér hervernd Íslands, að hervarnirnar skyldu gerðar þannig, að þær veittu landsmönnum sem mest öryggi og yllu sem minnstum truflunum fyrir landsmenn. Jafnframt var um það samið, að hvert tjón, sem landsmenn yrðu fyrir af þessum hernaðaraðgerðum, yrði bætt að fullu.

Eins og kunnugt er og fram er tekið í þessu frv., hafa hernaðaryfirvöldin gert talsvert að því að leggja undir sig viss landsvæði, afmarkað þau sem bannsvæði og bannað mönnum að fara þar um. Mér er ekki kunnugt um, hvort herstjórnin hefur gert þetta í samráði við íslenzk stjórnarvöld, eins og vera ber. En mér er kunnugt um, að landsmenn hafa haft af þessu allmikið tjón, sem hefur ekki verið bætt, eins og ráð er fyrir gert í samningunum. Það er sérstaklega einn staður á landinu, þar sem mikið tjón hefur af þessu hlotizt, svo að íbúar nokkurra hreppa hafa sérstaklega snúið sér til mín út af þessu máli og óskað eftir, að ég hreyfði því hér á þingi og spyrðist fyrir um það hjá hæstv. utanrrh. Sá landshluti, sem hér um ræðir, er Reykjanesskaginn. Skömmu eftir að setuliðið kom til landsins, lagði það undir sig stórt landsvæði til að gera þar hernaðarmannvirki. Þetta svæði, sem þarna var tekið, var mestallt beitiland í tveimur eða fleiri hreppum á Suðurnesjum. Mér er ekki kunnugt, hvort þetta hefur verið gert í samráði við íslenzku stj., en ég vænti, að hæstv. ráðh. geti upplýst það. En ég veit, að allt það tjón, sem íbúarnir hafa haft af þessu, hefur ekki verið bætt. Síðan þetta svæði var tekið, hafa þessir menn orðið að skera niður mest allt sauðfé sitt, vegna þess að þeir misstu allt beitiland sitt. Hafa þeir snúið sér til sýslumanns síns og óskað eftir, að hann gengist í að fá bætur fyrir þetta tjón, en það hefur ekki tekizt.

Ég vil, af því að ísl. ríkisstj. fær nú vald til að refsa mönnum fyrir óheimila för inn á bannsvæði herstjórnar og óheimila dvöl þar, spyrjast fyrir um það hjá hæstv. utanrh., hvort þetta land hefur verið tekið í samráði við ríkisstj. og hvort hæstv. ráðh. sér sér fært að koma því til leiðar, að setuliðsstj. taki ekki meira land en hún alveg nauðsynlega þarf, en gefi hitt frjálst, — enn fremur, hvort ráðh. vill láta rannsaka um mat á tjóni Suðurnesjabúa og að það verði bætt úr ríkissjóði, sem síðan innheimti bæturnar hjá setuliðsstj. samkv. samningum við Bandaríkin. Ég vildi nota tækifærið til að bera þessar fyrirspurnir og tilmæli fram hér, og vænti ég, að hæstv. ráðh. svari þeim.