24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Ég býst varla við, að þetta verði langt deiluefni milli mín og hv. frsm. minni hl. Fyrri röksemd hans geigar, því að sjálf stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að hér sé þjóðkirkja, og verður þá ekki hjá því komizt, að ríkið kosti þó nokkru til hennar. Þetta smámál verður þá ekki tekið út úr og andæft með slíkum rökum. Raunar er hér ekki að ræða um ríkisframlag heldur, einungis um hitt, hvort ríkissjóður eigi að gefa eftir rétt sinn, til þess að slík fjársöfnun sé framkvæmanleg, og án öruggrar vonar um, að svo yrði, hefði fénu alls ekki orðið safnað — og ríkissjóður þá ekki heldur fengið þar skatt. Sambærilegt var það, að vinningar í happdrætti háskólans voru gerðir skattfrjálsir.

Um það, að önnur verkefni séu miklu brýnni, má segja, að með slíkri röksemd mætti hindra nálega hvaða framkvæmd, sem væri, ef tekin væri gild í þeirri einstrengingslegu mynd, sem hún fær oft hjá andstæðingum nýtra mála. Í þessari sókn er það svo, að söfnuðurinn hefur notazt við nýlegt og vandað skólahús til messugerða, svo að munur er á, hvort þar er húsnæðisminna, skólahald og kirkjustarf. Vitanlega er meiri hl. n. ekki að leggja móti skólum né sjúkrahúsum, þótt hann mæli með frv.