24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Mér leiðist hálfvegis að vera að deila í máli, þegar andstaðan er á þann hátt, að ekki er minnzt á aðalatriðin, heldur verið með alls konar hliðar hopp, sem koma málinu ekkert við, til þess að snúa sig út úr því. Ég sagði það áðan, að það eru tvær ástæður til þess, að ég er á móti þessu frv. Önnur er sú, að ég er á móti því, að ríkið styrki nokkra ákveðna guðsdýrkun frekar en aðra, og hin er sú, að ég tel, að margt annað þarfara sé ógert. Inn á þetta hafa ræðumenn alls ekki farið, en ég tel, að það þurfi að koma fram, hverjum augum meiri hl. dm. lítur á þessi atriði.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að stjskr. gerði ráð fyrir, að ákveðin guðsdýrkun sé styrkt af ríkinu. Ég veit vel, að gert er ráð fyrir ákveðinni þjóðkirkju, en ég þarf ekki að taka fram, að ég er á annarri skoðun, að ég álít, að þetta eigi ekki að standa í stjskr., og á meðan það stendur í stjskr., er ekki fullkomið trúfrelsi í landinu, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. viti það. Ef stjskr. verður breytt, mun ég leggja til, að þessu verði breytt. En þó nú að þetta standi í stjskr., stendur það hvergi í henni, að happdrætti fyrir ákveðna kirkju skuli vera skattfrjálst. Þm. hljóta að skilja það, að maður, sem hefur slíka skoðun, vill ekki mæla með því, að ákveðin guðsdýrkun sé studd, a. m. k. ekki umfram það, sem l. mæla fyrir um. Hér er um að ræða sérstakan styrk til þjóðkirkjunnar fram yfir það, sem l. mæla fyrir, og meira að segja í andstöðu við gildandi skattal., þannig að það verður að gera undanþágu frá þeim. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) vildi meina, að hér væri ekki um styrk frá ríkinu að ræða. Þessi skoðun getur ekki staðizt, því að ef þetta verður ekki samþykkt, mun ríkið fá skatt greiddan, sem það annars missir, svo að ríkið er beinlínis að láta af hendi fjármuni í þessu skyni: Vitaskuld gætu komið önnur fyrirtæki, sem einnig óskuðu eftir þessu, að fá að hafa skattfrjálsa vinninga, og þá er að meta, hvert af þeim er mikilsverðast, því að mörg slík happdrætti geta ekki verið á döfinni í einu. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði; að það kæmi málinu í rauninni ekki við, þó að önnur aðkallandi verkefni biðu, að því er snerti afstöðu manna til þessa frv. Nú hlýtur hv. þm. að skilja, að fjármunir ríkisins eru ekki ótakmarkaðir. Ef þeir væru ótakmarkaðir, hvernig stendur þá á því, að okkur vantar skólahús og sjúkrahús? Hvernig stendur þá á því, að unglingum er neitað um skólavist til þess að stunda gagnfræðanám og sjúklingum á hverjum degi neitað um sjúkrahússvist, ef nægilegt fé er til? Nei, það er vitaskuld skylt fyrir þá, sem eiga að fara með fjármuni ríkisins, að fara eins sparlega með þá og unnt er og eyða þeim ekki að óþörfu. Ég álít, að með þessu sé verið að eyða í hreinan óþarfa. Hér í Reykjavík standa kirkjurnar tómar, og það virðist ekki vera þörf á fleiri kirkjum, meðan svo er.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði, að búið væri að skipta Reykjavík í 4 söfnuði. Má ég spyrja: Hvar stendur það í stjskr., að það skuli vera 4 söfnuðir í Reykjavík? Er það nauðsynlegt samkvæmt stjskr.? Ég held ekki. Þessi skipting í Reykjavík er ónauðsynleg, og svo þarf að reisa kirkju fyrir hvern söfnuð. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) heldur því fram, að söfnuðirnir eigi heimtingu á því að byggt sé yfir þá. Það var slæmt, að þessi söfnuður skyldi ekki koma auga á það fyrr, en vera að brasa í þessu sjálfur í staðinn fyrir að fá fé frá ríkinu. Ef það væri skylda að byggja yfir söfnuðina, ætti þá ekki miklu fremur að vera skylda að byggja nægilega mörg skólahús, til þess að unglingar bæjarins gætu stundað gagnfræðanám, — og nú er ekki einu sinni nægilegt rúm í barnaskólum bæjarins.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) var að tala um, að það hefðu verið gefin loforð um þetta og þess vegna hefði söfnuðurinn farið út í þetta happdrætti. Mér er ekki kunnugt um slíkt loforð og veit ekki, hver hefur gefið það, því að mér vitanlega er það aðeins Alþingi, sem getur gefið loforð um þetta.