24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Það eru tveir þm. aðrir en ég, sem hafa mælt með þessu frv. við þessa umr. Ég vil láta í ljós undrun mína yfir ræðu frsm. minni hl. Ég hélt mig bara að þeim rökum, sem hann bar fram um þetta efni. Mér finnst það því koma úr hörðustu átt, þegar hann er að bregða mér um hliðarhopp, því að ég hélt mig algerlega á línunni. Ég bar auðvitað ekki á móti því, að menn mættu hafa einkaskoðun á því, sem þeir vildu, en ég vil benda á það, að einkaskoðun dugar ekki, við erum bundnir af orðum stjskr. Hver einstakur borgari er frjáls, en hvað hið opinbera snertir, er skorið úr í 157. gr. stjskr., þar sem segir: „Evangelísk-lútersk kirkja skal vera í landinu, og skal styðja hana og styrkja.“ Það stendur hvergi, að söfnuðir skuli vera í Reykjavík, en það þarf að styrkja þá söfnuði, sem eru. Það segir hvergi neitt um happdrætti Laugarneskirkju, en það er gengið út frá því í þessum orðum, að ríkisvaldið skal styðja, styrkja og vernda þá kirkju, sem er hér. Prívatskoðun þm. hefur ekki neitt að segja í þessu efni, því að Alþingi gerir með þessu ekki annað en fara eftir orðum stjskr. í þessu efni, og það er fullkomlega í anda stjskr., þó að það sé ekki fyrirskipað með beinum orðum að styrkja kirkjubyggingu í Reykjavík. En ég vil halda fast við þá skoðun mína, að ríkissjóður leggi ekki féð fram, þ. e. a. s., að verði frv. ekki samþykkt, fær ríkissjóður nokkrar tekjur, sem hann mundi ekki fá annars. En það að koma upp þessu húsi er sérstök kaupsýsla, sem mundi að vísu skapa ríkissjóði tekjur, og ef ekki hefði verið farið út í þetta, hefði aldrei verið von um þessar tekjur, en þessir peningar væru einhvers staðar í þjóðfélaginu. Og þessir peningar eru alveg eins í umferð fyrir þessu. Þeir eru aðeins undanþegnir skatti þetta ár, en síðar þarf að greiða af þeim til ríkis og bæjar. Það, sem við förum fram á, er það, að þessi sérstaka söfnun verði ekki gerð að féþúfu fyrir annað en þann eina tilgang, sem henni er ætlaður.

Ég skal ekki fara langt út í þetta, en þar sem mér er kunnugt um, að þegar drepa á mál, er það gert með því að benda á annað, sem sé þarfara að gera, langar mig að segja nokkur orð um það, sem hv. þm. (BrB) sagði í því sambandi. Ég veit, að hann getur bent á margt í þjóðfélaginu, sem eftir er að gera, skárra væri það í jafnungu þjóðfélagi. Það er hægt að benda á mörg aðkallandi verkefni, vegi, vita og fleira. En ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði áðan, að svo framarlega sem farið er eftir þessu, að ríkið styðji og verndi kirkjuna, er ekkert meira aðkallandi verkefni til en það, sem hér um ræðir, nefnilega að fá hús, og þá sérstaklega þegar ekki er um annað en litla tilhliðrunarsemi að ræða við þá menn, sem leggja féð fram, — þ. e. að leyfa mönnum að leggja féð fram, þannig að það gangi ekki til annars en þess, sem ætlazt er til að það fari. Það er undarlegt, þegar farið er að tala um kirkjuna sem einhvern andstæðing sjúkrahúsa og skóla, því að ég veit ekki, hver hefur hlúð meira að slíku en einmitt kirkjan. En ég ætla ekki að fara langt út í það, en mig langar bara til þess að hv. 5. þm. Reykv. vildi bregða sér út í heiðingjalöndin. Það má geta nærri, að þar muni vera fullt af sjúkrahúsum og skólum, þar sem ekki þarf að byggja kirkjur. Nei, því er ekki svo varið. Fjöldi manna gerist trúboðar, ekki kannske af trúarlegum áhuga fyrst og fremst, heldur vegna skóla- og líknarstarfsemi, og svo er talað eins og kirkjan sé andstæð því, að upp komi skólar og sjúkrahús, fyrir utan nú það, að á sínum tíma voru allir skólar og spítalar á vegum kirkjunnar og hefðu alls ekki verið til nema fyrir hennar tilstilli. Nú hefur þjóðfélagið tekið þetta að sér, en því verður ekki neitað, að öldum saman hefur kirkjan rekið sjúkrahús og skóla. Hvað ætli menn hefðu sagt þá við því, ef einhver hefði komið og sagt: Ég vil engar kirkjur, en ég vil sjúkrahús og skóla. Mér finnst ekkert vit í að tala um þetta, en úr því að þm. er að læða þessu hér inn, finnst mér rétt að tala um það. Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en vil aðeins út af því, sem hv. þm. Barð. (GJ) talaði um, hvort aðrir skattar en þeir, sem nefndir eru, ættu að hvíla á þessu, segja það, að ég býst við, að þetta undanþiggi þá skatta, sem tekið er fram um, en aðra ekki. Hitt er annað mál, hvernig við kunnum á sínum tíma að líta á skatta, sem eru alls ekki til, og hvernig á að fara með skatta, sem verka aftur fyrir sig. Um þá skatta er ekkert hægt að setja í frv. Það ætti þá að vera almennt ákvæði um, að stj. bæri að vernda þetta fyrirtæki fyrir öllu böli. En mér finnst frv. skýrt, að það er tekjuskattur og útsvar, þessi aðalgjöld, sem um er að ræða. Tilgangurinn er ekki að undanþiggja vinnandann hvers konar gjöldum, en það getur vel verið, að einhver vilji ekki eiga þetta hús, svo að það lendi ekki í vargakjöftum, en segi eins og hinn heilagi Franz frá Assisi: „Ég vil ekki vera ríkur, þegar ég má vera fátækur.“

Ég vil ekki draga úr því, að þessi fjáröflun geti heppnazt, því að það getur farið svo, að allt verði tekið, sérstaklega þegar tekjurnar eru komnar á hærra stig. Við erum hér að ræða um Laugarneskirkju, og það er lægri vinningur en hjá Hallgrímskirkju, sem hér er einnig til umr. Þar er um svo stóran vinning að ræða, að það gæti dregið úr löngun manna til þess að taka þátt í því fyrirtæki, sem hér er um að ræða, ef borga á af því tekjuskatt og útsvar.

Ég hef nú talað tvisvar í þessu máli og vona, að ég þurfi ekki oftar að taka til máls í því. Ég vil vænta þess, að frv. verði samþ., og vildi, að Alþingi hraðaði afgreiðslu þess, vegna þess að sala miðanna er í fullum gangi og mjög skammt til þess, er sölu verður lokið, og áríðandi, að síðustu dagana, sem þetta fyrirtæki starfar, verði vissa fyrir því, hvaða svör Alþingi gefur í þessu efni.