24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Herra forseti. Ég ætla bara að segja nokkur orð að gefnu tilefni, því að hv. 6. þm. Reykv. skoraði á mig að sanna það, að ríkið yrði ekki af neinum tekjum, þótt þessi undanþága verði hér veitt, og að ríkið væri ekki að leggja fram fé til Laugarneskirkju. Aftur á móti vildi hann halda því fram, að ríkið væri að spara sér fé.

Í fyrsta lagi er það upplýst, að þetta loforð; sem hér hefur verið gefið, á við Hallgrímskirkju, en ekki Laugarneskirkju. Það er nú heldur undarlegt, ef einn söfnuður getur farið til þm. og fengið sérstök fríðindi. Þetta ber þá auðvitað að skoða sem sams konar fríðindi til allra annarra kirkna. Ég veit ekki, hvort hann heldur þessu fram, en það mun koma í ljós.

Þá er hitt atriðið, hvort hér sé um að ræða styrk frá ríkinu eða hvort ríkið leggi fram fjármuni. Þá er og um að ræða, hvort ríkið eigi að afsala sér skatti. En hann heldur því fram, að aldrei hefði verið lagt út í þetta happdrætti, ef söfnuðurinn hefði ekki gert ráð fyrir því sem vísu að fá þessi fríðindi hjá Alþingi, og þá hefði ríkið aldrei fengið neinn skatt og því yrði það ekki af neinum tekjum. Þetta er alveg rétt.

Með því að veita þessi fríðindi, er verið að veita einu ákveðnu fyrirtæki sérstöðu. Þetta er fjáröflunaraðferð, sem er ekki hægt að framkvæma nema með aðstoð ríkisins.

Þá kemur og til greina, hvort hér er verið að styrkja þarft eða óþarft fyrirtæki. Fyrst og fremst kemur til álita, hvaða fyrirtæki er mest þörf á að veita slíkan stuðning. Má þá minna á Háskóla Íslands í þessu sambandi. Hann hefur fengið slík hlunnindi, en hann var almennt talinn nauðsynjastofnun. (BSt: En þar er guðfræðideild). Hér er um ákveðinn stuðning að ræða, þótt ekki sé um bein fjárframlög.