17.09.1943
Neðri deild: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

48. mál, verðlag

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég mun hafa orðað það svo í fyrri ræðu minni, að það hafi legið fyrir í sex manna n., að það voru 30 aurar, sem gerilsneyðingarkostnaðurinn og dreifingarkostnaðurinn næmi. Það er upplýst hér, að þetta sé áætlun þeirrar n. sjálfrar. En það skiptir ekki nokkru máli, þó að hv. 2. þm. N.-M. (PZ) eyddi meiri hluta ræðutíma síns í þetta atriði, hvernig þessi 30 aura upphæð væri fundin. Hvernig þessi upphæð er til komin og að nefndin taldi það fyrir utan sinn verkahring að ákveða þessa upphæð, skiptir ekki máli.

Hv. 2. þm. N.-M. nefndi hér ýmsar tölur, og ég er ekki bær um það nú að fara út í þessar tölur. En ég álít fulla þörf á því, að hið almenna verðlagseftirlit í landinu láti athuga, hvort þessar tölur eru réttar eða rangar. Verkalýðurinn tortryggir það, að þegar framsóknarmenn semja við framsóknarmenn, þá séu allar tölur réttar. Og til þess höfum við verðlagseftirlit að ganga úr skugga um það, að þarna sé farið með réttar tölur og að ekki sé dregið undir ýmsa kostnaðarliði meira en vera ber.

Það er ekki vafi á því, að mjólkurverðlagsn. hefur brotið það samkomulag, sem gert var við skipun sex manna n. En ef hins vegar gerðir hennar væru gerðar gildandi, þá væri það samkomulag markleysa.

Nú er það upplýst af svari hæstv. fjmrh., að ríkisstj. telur sig alls ekki bundna af þessum samþykktum mjólkurverðlagsn. Og þó tekur hæstv. fjmrh. það fram, að fullt samkomulag sé á milli mjólkursölun. og ríkisstj. Ég fæ ekki skilið, hvernig þetta getur verið, nema á einn veg, að mjólkurverðlagsn. hafi séð, hvaða firru hún gerði þarna, og sé fallin frá þessu. Það getur verið, að það sé og að það sé það, sem dagblaðið Vísir á við, þegar talað er um þar, að það muni „vatna yfir nefndina“. Ég get hins vegar ekki séð, að ríkisstj. sé óbundin af gerðum mjólkurverðlagsn. Og ég held, að ríkisstj. eigi ekki að segja, að hún sé óbundin af þessu og að það sé miklu betra að fá lagaheimild eins og fyrir liggur í þessu frv., sem hér er um rætt. Þetta getur verið álitamál, hvort ríkisstj. sé bundin af þessari samþykkt mjólkurverðlagsn., og því er í alla staði varlegra að fá ákvæði þessa frv. lögfest. Og þetta frv. er borið fram í fullri þökk allra neytenda, sem eftir margra ára reynslu hafa ástæðu til að vera mjög tortryggnir gagnvart þeim, sem hafa haft með að gera verðákvarðanir á mjólk og kjöti. Það, að þetta frv. sé einskis virði, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Rang., afsannar sá sami hv. þm. sjálfur með því að segja, að bændur vilji ekki sleppa úr hendi sinni að ákveða verðið á þessum vörum. Þó að búið sé að gera samkomulag um verðið í n., sem fulltrúar eru í bæði frá neytendum og framleiðendum, þá vilja bændur, eftir þessu, ekki binda sig við þetta samkomulag, heldur ráða verðinu sjálfir. Það sér hver maður, að þetta getur ekki gengið. Ef bændur vilja áskilja sér rétt til þess að geta ákveðið verð á mjólk og öðrum framleiðsluvörum landbúnaðarms eftir eigin geðþótta, hvað sem þessu samkomulagi líður, þá fara þeir villir vega og skortir skilning á, til hvers ákvæðin um sex manna n. voru sett. Og ef þeir halda fast við það, eiga þeir eftir að koma til með að reka sig á það, að þeir hitta þar fyrir samtök verkalýðsins. Fullyrðingar hv. 2. þm. Rang. (IngJ) sanna það, að full nauðsyn er á því, að frv. þetta nái fram að ganga, svo að úr því verði skorið, hvort þessi ákvörðun mjólkurverðlagsn. er markleysa eða hvort hún er gild og bindandi fyrir ríkisstj.

Nei, það er full ástæða til þess, að frv. nái fram að ganga, því að þótt kjötverðlagsn. hafi í þessum málum hagað sér skynsamlega og tekið tillit til þess samkomulags, sem orðið var í sex manna n., — og það er virðingarvert, — þá hafa aðgerðir mjólkurverðlagsn. gert það að verkum, að frv. þetta þarf að verða að l.

Að endingu vil ég taka það fram út af öllum þeim tölum, sem hér hafa verið lesnar upp, að það er ein aðferð í átökunum um verðlagningu á vörum bænda, að þeir geti haft nóg af tölum til að vísa til, svo að þeir geti vísað til talna og bóka og skýrslna. Og þetta verður sérlega handhæg aðferð, vegna þess að þessi plögg eru því sem næst öll í höndum eins aðila. Það er einn flokkur, sem því sem næst getur setið inni með upplýsingar í þessum málum. Og það hefur verið einn liðurinn í baráttunni til að hindra gagnrýni af hendi neytenda í þessum efnum.

Þess vegna hafa fyrr og síðar komið fram kröfur um meiri íhlutun, ekki að fá að skoða tveggja eða þriggja ára gamla reikninga og láta framsóknarmenn segja sér, hvað væri satt og hvað logið, heldur, að neytendurnir fái að taka þátt í sölu þessara afurða, að bændur framleiði þær og selji, en neytendurnir sjái um dreifingu þeirra í bæjunum, a. m. k. á þeim vörum, sem svo mikið er undir komið, að komist í hendur neytendanna óskemmdar, eins og mjólkin. Því verður nú ekki lengur vísað frá, að neytendurnir fái samsölurnar í sínar hendur. Þetta er nauðsynjamál, sem verður ekki lengur skotið á frest, og ég vænti þess, að Alþ. fái þetta mál til meðferðar einhvern tíma á næstunni.