17.09.1943
Neðri deild: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

48. mál, verðlag

Páll Zóphóníasson:

Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, þm. Siglf. Hann segist vilja fá að sjá reikningana. Er maðurinn svo latur eða hlédrægur, að hann nenni ekki að hafa fyrir að ná í þessa reikninga? Þeir liggja fyrir prentaðir, og hann þarf ekki annað en snúa sér til stj. viðkomandi mjólkurbús, þá fær hann þá, og ef hann biður um að senda sér þá, þá fær hann þá strax. Nennir hann ekki að hafa fyrir því? Hann segir bara blákalt: Ég tortryggi. Eru það svona leiðtogar, sem verkalýðinn vantar? Vantar hann menn, sem nenna ekki að kynna sér málin, heldur segjast bara vera tortryggnir, þó að þeir geti fengið skjölin í sínar hendur með því að rétta út höndina, en nenna því ekki? Nei, verkalýðinn vantar leiðtoga, er nenna að kryfja málin til mergjar og síðan segja honum allan sannleikann. Slíka leiðtoga þarf hann að fá í stað þeirra, sem nú eru, sem tortryggja, eru með getsakir, en nenna ekki að afla sér staðreynda.