20.09.1943
Neðri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

48. mál, verðlag

Ingólfur Jónsson:

Ég hafði nú ekki búizt við að taka aftur til máls við þessa umr. En hv. séra þm. Reykv. var svo heitur út í ræðu þá, er ég hélt á föstudagskvöldið, að ég verð að svara honum nokkrum orðum. Hann sagði, að ég hefði orðið tvísaga, að síðasti hluti ræðu minnar hefði verið í mótsögn við byrjun hennar. Þetta er ekki rétt. Þetta getur ekki staðizt, nema snúið sé út úr orðum mínum, lögð í þau önnur meining en rétt var.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, sýnist vera meinlaust fljótt á litið, og þótt það yrði samþ., er svo fyrir að þakka, að þingið er nú þannig skipað, að bændur myndu fá það verð fyrir afurðir sínar, sem sex manna n. hefur reiknað út. En það vilja kommúnistar ekki. Þessi hv. séra þm. Reykv. komst því í mótsögn við sjálfan sig, er hann heldur því fram hér í þingsölunum, að bændur eigi að fá það verð fyrir afurðir sínar, sem þeim var ákveðið af sex manna n. En í blaði hans, Þjóðviljanum, er því haldið fram, að þeir eigi aðeins að fá kr. 6.82 fyrir það af kjötinu, sem selst á innlenda markaðinum. Það, sem er flutt úr landi, á að vera óviðkomandi þessari verðákvörðun.

Það stendur þó skýrt í dýrtíðarl. frá síðasta vori, að þessi n. eigi að ákveða verð landbúnaðarafurða. Hún miðaði við, að það gilti jafnt fyrir innlendan og erlendan markað, er hún ákvað kr. 6.82 fyrir kjötkílóið til bænda. Eins miðaði hún við kr. 1.23 fyrir mjólkina, hvort sem hún væri unnin eða ekki. En sósialistum þykir heppilegra að leggja annan skilning í þetta. Þetta er að vera tvísaga, að segja hér, að bændum sé tryggt að fá það verð fyrir afurðir sínar, sem sex manna n. ákvað þeim, en segja aftur á móti í Þjóðviljanum, að þetta verð sé ekki gildandi nema fyrir innlenda markaðinn. En sem betur fer, hefur nú meiri hl. þm. tryggt það með undirskrift sinni, að hið sama gildi það, sem selst á erlenda markaðinum.

Þessi hv. þm. talaði um það, að ég hefði færzt í vígamóð síðast í ræðu minni. Það er ekki að ástæðulausu, þótt manni renni í skap við þessa hræsni. Og mér finnst, að þessi hv. þm. ætti ekki sízt að muna orðin: „Vei yður, þér hræsnarar!“

Hann sagði, að ég væri kominn í úlfakreppu með Framsókn og ég segði jafnvel annað en ég meinti. Sósíalistar dæma að líkindum aðra eftir sjálfum sér, er þeir hyggja okkur mæla á móti betri vitund.

Það er óþarfi að taka það fram, þótt ég geri það, að við höldum á málstað bænda hér af því, að við erum högum þeirra kunnugir og vitum, hvers þeir þurfa. Þeir, sem alltaf eru að narta í bændurna og tala um, hvað þeir beri mikið úr býtum, þeir ættu að undrast, hví fólkið tollir ekki í sveitunum. En ætli það hafi borið meira úr býtum þar en við sjóinn? Nei.

Hv. þm. talaði um það, að sex manna n. hefði verið skipuð fulltrúum allra stéttá, en aðeins hefði þurft einn fulltrúa til að gera ágreining. Það hefði því verið ósvinna af fulltrúa bænda að fara fram á, að þeim væru reiknaðar 13–14 þús. kr. í tekjur. En þá var fulltrúa sóíalista frjálst að gera ágreining strax. Hitt er ástæðulaust að tala um réttar eða rangar niðurstöður þessarar n. eftir á. Alþ. samþ. á sínum tíma, að niðurstöður hennar skyldu vera l., ef þær væru samhljóða. Þetta er því hæstaréttardómur, sem verður að hlíta. Og við getum sannað, að verðlag landbúnaðarafurðanna hefur sízt verið ákveðið of hátt.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði áður komið til orða í fjhn. að leggja niður mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. Hann mun einn hafa haft orð á því, og lá ekkert nærri, að sú uppástunga næði samþykki. Það er því ekkert undarlegt, þótt hann fylgi nú þessu frv.

Það, sem ég vil þá endurtaka, er þetta: Mér finnst sjálfsagt að fella þetta frv., og þótt það yrði samþ., yrði það samt að engu gagni fyrir sósíalista, því að þingið er þannig skipað, að þeirra hugsunarháttur yrði í minni hl. Allir vita, að samkomulag sex manna n. gildir aðeins til eins árs og verður þá tekið til endurskoðunar.

Bændur munu ekki afsala sér réttinum til að selja framleiðslu sína. Þeir hafa alltaf verið á móti því, að mjólkurstöðin yrði tekin úr höndum þeirra og umráðaréttur þeirra fyrir borð borinn, og þeir munu verða það.

Ég sé svo enga ástæðu til að gegna því fleiri orðum, þótt hv. 8. þm. Reykv. ætlaði að sleppa sér út af ræðu minni. En hann gleymir því, að enginn er oftar tvísaga en sá, er skrifar í Þjóðviljann, og talar síðan hér á þinginu um að tryggja bændum réttlæti.