20.09.1943
Neðri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

48. mál, verðlag

Sigfús Sigurhjartarson:

Þessi ræða hv. 2. þm. Rang. sýndi aðeins það, sem vera hlaut, að hann er rökþrota og í vanda staddur og má sig hvergi hræra.

En e. t. v. sýndi hún einnig annað. E. t. v. sýndi hún, að hv. þm. V.-Sk. getur jafnvel ratazt satt á munn. Hann sagði, að það væri auðlærð ill pólitík. Hv. 2. þm. Rang. hefur lært alveg furðanlega af sálusorgaranum úr Fljótshlíðinni. Reyndar ber ég enga virðingu fyrir námsgáfum hans, og þó, ég held hann sé ofurlítið að koma til.

Ef annars nokkuð efni var í ræðu hans, þá fjallaði hún um, að ég væri tvísaga. Ég hef sagt það, að samkomulag sex manna n. gilti aðeins innlenda markaðinn. Á markaði væri bændum tryggt það verð, sem í niðurstöðum n. greinir. Þetta hef ég bæði sagt hér og í blaði mínu, Þjóðviljanum.

Ég hef einnig sagt það, að með setningu sex manna n. hafi verið stigið merkilegt spor inn á samningaleiðina. Með því voru hagsmunir bænda og verkamanna tengdir traust saman, svo að kjarabætur annarra þýddu kjarabætur hinna og öfugt. Þetta var eðlilegt og rétt, og því ber að fagna. Þannig á það að vera í framtíðinni. Vald til verðákvarðana á ekki að vera í höndum pólitískra braskara eins og hingað til í mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn., eins og t. d. í höndum hv. 2. þm. Rang. Ég kalla hann ekki séra, ég man nú vel númerið á honum. En hann er augsýnilega búinn að fá prestinn félaga sinn, hv. þm. V.-Sk. svo á heilann, að í hans munni verða allir séra.

Þá vík ég að ræðu hv. þm. V.-Sk. Ég ætla að leiðrétta eitt atriði viðvíkjandi því, á hverjum vísitölugrundvelli það meðalverkamannakaup var byggt, sem sex manna n. reiknaði með. Það voru 14500 kr. með vísitölu ársins 1942, en það samsvarar 13000 kr. með vísitölu ársins 1943. Þannig stendur á því, að þessir hv. þm. voru með sína töluna hvor.

Hv. þm. V.-Sk. hélt því fram, að þessar n. væru í raun og veru samninganefndir. Það er rétt, að Alþýðusambandið á þar fulltrúa og Reykjavíkurbær annan. En afl atkvæða ræður í þessum n. Hópur Framsflm. getur ráðið þar öllum úrslitum og gerir það, svo að þar koma engir samningar til greina. Hins vegar var sex manna n. samninganefnd. Þar varð að nást samkomulag allra nm., til þess að ályktun hennar yrði gild. Hv. þm. hlýtur í hjarta sínu að vita og kannast við þann mikla mun, sem er á slíkri samninganefnd og pólitískri nefnd af hinu taginu, þar sem afl atkv. ræður úrslitum.

Það var gaman að fá það upplýst hjá þm., að hann veit ekki til, að nokkur viðskipti séu með Mjólkursamsölunni og Kaupfélagi Árnesinga. Þau eru alls engin, segir hann. Það verður víst að skiljast svo, að flutningar með bílum samsölunnar séu fyrir utan öll viðskipti, vörurnar bara látnar upp á bílana, þegar þeir fara austur eftir mjólk, og teknar af fyrir austan, án þess að það heiti flutningur fyrir kaupfélagið.

Þá heldur þessi hv. þm. því fram, að þýðingarlaust sé að reyna að bera saman verðtrygging, sem bændur fái, og kauptrygging handa verkamönnum, því að hagur bænda sé háður árferði, búfjársjúkdómum og mörgu öðru, svo að aldrei sé tryggt, að þeir nái meðalframleiðslu þetta og þetta árið. Um sjúkdómana og árferðið er þetta að vísu rétt að miklu leyti. En hví eiga bændur ekki að eignast bústofnstryggingar með félagssamtökum? Alþ. hefur þegar gengið nokkuð inn á þá braut, og þar er leiðin til að tryggja atvinnuveginn fyrir mestu skakkaföllunum af sjúkdómum. Gegn misjafnri veðráttu og grasbresti duga síður sams konar tryggingar. Bezta tryggingin er þar aukin og bætt ræktun og nýjir framleiðsluhættir, en þrátt fyrir langa forustu Framsfl. hefur lítið áunnizt um hina nýju framleiðsluhætti enn. En einnig á því sviði verður að keppa að því, að gera áhættu bænda sem minnsta.

Allt annað, sem þm. sagði um þetta, var rangt. Kaup sitt tekur bóndinn, þegar hann fær framleiðslu sína greidda. Þegar honum er tryggt verð fyrir hana, er það sama sem honum sé tryggð atvinna árið um kring að undanskildu því, þegar öfl náttúrunnar eða önnur slík gera honum skráveifur. En í þessu sambandi kemst maður ekki hjá að ræða alvarlegt vandamál: Hvert stefnum við, ef við gefum sérhverri stétt fyrirheit um markað fyrir ótakmarkaða framleiðslu? Hvernig fer, ef við segjum við klæðskera: Saumið þið í öllum lifandi bænum eins mikið og þið getið af fötum, og við skulum tryggja ykkur verð fyrir þau öll? Eða við húsgagnasmiði: Smíðið þið blessaðir og framleiðið eins mikið og hægt er af húsgögnum, við ábyrgjumst verðið fyrir þau! — Þetta megum við ekki segja við neina stétt. En við getum sagt við bændur: Við þurfum svo og svo miklar afurðir fyrir innlendan markað og viljum tryggja þetta verð fyrir þær. Á útfluttum landbúnaðarafurðum viljum við hins vegar ekki taka þá ábyrgð, því að markaður virðist vera þröngur og stopull og verðlag svo lágt, að efasamt er, að hér borgi sig að framleiða fyrir hann. Þó getur þar staðið sérstaklega á í bili, svo sem nú á styrjaldartímunum. Þá vill Sósfl. ganga það langt að tryggja smábændum meðalverð, meðalkaup, og hinum stærri framleiðendum varanna sama verð fyrir svo mikinn hluta af framleiðslu þeirra, að þeir verði ekki verr úti. Nú er mér að vísu sagt, og það skauzt upp úr hv. þm. V.-Sk. áðan, að búið sé með smölun undirskrifta meðal þm. að tryggja meirihlutafylgi Alþingis fyrir því að lofa öllum útflytjendum landbúnaðarvara sama verði og sex manna n. tryggði framleiðendum á innlendum markaði. Það er óþekkt fyrirbrigði á miðjum þingtíma að afgreiða þannig mál án umr. og algerlega bak við tjöldin, og sýnir það, hve hæpinn málstaðurinn er.

Hv. þm. V.-Sk. taldi það mikla fjarstæðu, að neytendum væri bannaður samvinnufélagsskapur um kaup á landbúnaðarvörum. Hann veit, að Reykvíkingum er bannað að hafa neytendasamtök um kaup á mjólk. (BÁ: Og brennivíni). Hv. þm. Mýr. yrði víst ákaflega hrifinn af neytendasamtökum um kaup á brennivíni. Það yrði ég ekki, en um mjólk gegnir öðru máli, og flokkur hans berst með hnúum og hnefum gegn neytendasamtökum um hana. Við Reykvíkingar erum þarna sviptir samtakarétti okkar af flokki, sem kennir sig oft við samvinnu alþýðunnar.

Allt, sem þm. sagði um það, að við vildum ræna mjólkurstöðinni, var vitleysa. Yrði hún tekin eignarnámi, kæmi auðvitað fullt verð fyrir.

Loks er það deilan um, hve víðtækt samkomulag sex manna n. hafi verið. Við höfum staðhæft, að það hafi aðeins verið samningur innlendra aðila um verðið á innlendum markaði, fulltrúarnir í n. hafi ekki haft vald til að semja fyrir hönd neinna annarra en þeir voru viðurkenndir aðilar fyrir. Viðurkennt mál er, hvernig fjhn. beggja deilda litu á þetta s. l. vor og er margyfirlýst af mönnum úr báðum n. Í öðru lagi staðfestir sex manna n. þetta sjálf í greinargerð sinni, og vil ég lesa þau orð hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilsvarandi reglur mundu og verða að gilda um aðrar afurðir, sem háðar eru verðlagningu samkvæmt vísitölu, ef flytja verður þær út vegna of lítils markaðar innan lands. En hins vegar telur n. það ekki í sínum verkahring að gera neinar ákveðnar tillögur í þessu efni.“

Þetta er alveg ljóst mál. Í þessari samningan. er gefið þetta loforð fyrir hönd neytenda innanlands: „Við greiðum þetta verð fyrir vöruna, sem við kaupum. En við teljum ekki í okkar verkahring að segja neitt um verð fyrir vörur, sem út eru fluttar. Og við tryggjum ekki markaðinn fyrir þær. — Þetta er hliðstætt við það, þegar vinnuveitendur samþykkja kauptaxta og lofa að greiða tiltekið verð fyrir vinnu, sem þeir kaupa, en veita enga tryggingu um, að þeir skuli kaupa alla þá vinnu, sem fram verði boðin. Neytendur geta ekki tryggt fyrir fram kaup á allri landbúnaðarvöru, sem fram verði boðin.

Það hefur nú sýnt sig, hve geysilegt hitamál það er, ef fara á inn á þann heilbrigða grundvöll, að neytendur og framleiðendur semji sjálfir um viðskipti sín án pólitískrar íhlutunar flokka eins og Framsfl. Og þó er það sannarlega augljóst, að slíkir viðskiptasamningar eru verkefni neytenda og framleiðenda sjálfra.