21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

48. mál, verðlag

Sveinbjörn Högnason:

Ég þarf ekki, herra forseti, að tala lengur en síðasti ræðumaður, því að það er ekki svo mikið, sem svara þarf.

Hann sagðist ætla að tala við mig eins og skólabarn, enda var auðheyrt, að hann bjóst við, að þm. væru á svipuðu stigi og skólabörn, því að það, sem hann ætlaði að hrekja hér af því, sem ég sagði í gær um þetta efni, stendur vitanlega óhrakið enn, enda er allt á sömu bókina lært, framburðurinn er ekki að nokkru gagni né nokkur stafur fyrir því, sem fram er flutt. Hvers vegna kemur hann ekki með tölur? Hvers vegna verður að bera ósannindi upp á þessa nefnd? Ég hef fyrir framan mig nál. n. sjálfrar og trúi því betur en því, sem þessi hv. þm. segir. Þar segir, eins og ég las í gær og ég skal endurtaka og mun halda mér við, á meðan því er ekki afneitað af n. sjálfri. Það getur verið, að einhverjir séu þannig gerðir, að þeir vilji neita skoðun sinni. Það hefur borið til fyrri, að menn hafi fengizt til þess að sverja fyrir skoðun, sem þeir hafa áður haft, og vel getur verið, að einhverjir fáist til þess að sverja fyrir það, sem hafa skrifað undir. Þetta er vitanlega viss starfsaðferð, sem vel getur verið, að verði tekin upp, en meðan ekki kemur annað fram, meðan n. hefur ekki svarið af sér, ætla ég að halda mig að því, sem skrifað er. Þar stendur skýrum stöfum: „Meðaltekjuupphæð sú, sem fékkst þannig úr skýrslunum ásamt vísitöluframfærslu fyrir tímabilið september 1942 til ágúst 1943, var 15500 kr.“ Og þó að ég leiti með logandi ljósi, sé ég hvergi þetta 13 þús. kr. kaup. Mér dettur ekki heldur í hug að leggja trúnað á, hvað fulltrúi flokks hv. þm. segir, meðan ég hef ekki stafkrók fyrir því. Ég þekki það vel, hvernig kommúnistar hlaupa frá sínum fyrri yfirlýsingum og reyna að klóra í bakkann. Ég hef að vísu aldrei verið kommúnisti og hef aldrei skilið, hvað kommúnistar sjálfir hafa verið ákafir í að skipa mér í þann flokk. Ég heyrði á fundi, að maður sagði um annan: Þetta er gamall og nýr vinur minn. Þá sagði hinn: Er þetta ný aðferð til að svívirða mann? Það eru margar aðferðir til, og þegar kommúnistum sjálfum finnst það svívirðing, að maður hafi verið í flokki með þeim, þá er það að vísu satt, það væri svívirðing fyrir hvern mann, en ég hélt ekki, að þeir sjálfir viðurkenndu það.

Ég held, að það sé óþarfi fyrir þennan hv. þm. að vera að tala um, að mér og öðrum sé kunnugt um, hvað hafi verið gert til þess að svelta kommúnista hér á landi með því að láta þá ekki hafa lífsframfæri. Hv. þm. var af sjálfri ríkisstj. settur í eitt hæstlaunaða embætti á landinu og kunni að nota sér það, svo að það er bezt fyrir hann að fara varlega í að kvarta í þeim efnum.

Ég hef ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum, enda hygg ég, að komið hafi nógu skýrt fram hugur þeirra manna, sem hafa flutt það. Það vantar ekki, að látið sé í veðri vaka, að það sé flutt af brennandi áhuga til að sameina bændur og verkamenn. Það er búið að prédika slíkt í mörg ár af öllum árásarmönnum bændastéttarinnar og hefur verið talið hrífa vel, en menn skulu gæta þess, að það er aðeins um takmarkaðan tíma, sem hægt er að blekkja fólk. Þjóðin er farin að þekkja ræturnar að áróðri slíkum sem þessum, svo að hann er búinn að missa sárasta broddinn.