21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

48. mál, verðlag

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það hefur verið beint til mín nokkrum spurningum sem form. mjólkursamlagsn., sem mig langar til að svara. Mér hefur skilizt það koma greinilega fram, að menn telja, að í framtíðinni eigi neytendurnir að reka mjólkurbúin. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvernig þetta væri hugsað. Ég vil taka til dæmis Baugsstaðabúið, sem í eru milli 10 og 20 bændur. Það hefur selt smjör til Rvíkur, Hafnarfjarðar, Vestmannaeyja og víðar. Hvaða neytendur eiga að reka það? Eða mjólkurbúið á Sauðárkróki. Flestir bændur í Skagafirði senda þangað vörur sínar. Vörurnar eru að 1/5 keyptar af Sauðárkróksbúum. Hitt er selt til Siglufjarðar, Ísafjarðar, Rvíkur, Vestmannaeyja. Hvers konar neytendafél. ætti að mynda um þetta bú? En þó að aðeins sé hugsað um Rvík eina, ætla neytendur þá að sjá um sölu á því, sem þeir nota ekki sjálfir? Nokkurn tíma ársins kemur það lítið magn til allra búanna fjögurra, sem selja nýmjólk til Rvíkur, að það hrekkur trauðlega, en í annan tíma kemur helmingi meira en neytendur þurfa. Ætla þeir að taka við því? Mig langar að fá skýringu á, hvaða neytendur eiga að taka við þessu.

Ég vil vita, hvernig þetta fyrirkomulag er hugsað, út frá því, sem formælendur málsins segja sjálfir, að þeir taki bara við því, sem neytendur þurfa á degi hverjum. En hvað á þá að gera við hitt?

Það var spurt um flutningana frá Flóabúinu til Rvíkur og talað um, að með þeim væri lagður skattur á neytendur. Ég veit, að árið 1942 er það hér um bil 5½ farmur Eimskipafélagsskipanna, sem flutt er til Rvíkur frá Ölfusá, jafnt helga daga sem aðra daga, og að vetrinum eftir Þingvallaleiðinni, þegar Hellisheiði er ekki fær, og enn fremur nokkurn tíma á hestum, þegar allar leiðir voru lokaðar. Kostnaður var um 70 au. á tonn pr. km., 43 kr. tonnið frá Ölfusá og hingað að meðaltali yfir árið.

Þá var spurt um það, hvort mjólkurverðlagsn. hefði fylgt nokkrum ákveðnum reglum um verðlagið, búið til nokkurn stiga. Já, hún hefur gert þeta alltaf og aldrei öðruvísi. Kostnaðurinn hefur verið liðaður sundur, annars vegar kostnaður bænda, hins vegar kostnaður við dreifingu og sölu. En hvernig sem að er farið, eru vissir menn, sem alltaf vilja rengja, rengja. Og þeir mundu halda því áfram, þó að á ný yrðu skipaðir endurskoðendur og staðfest, að ég fer með rétt mál.

Við höfum ekki lagt eins mikla vinnu í að afla upplýsinga um verkakaup og sex manna n., en við höfum þó símað til manna hingað og þangað um landið til að fylgjast með kaupgreiðslum, og frá 1933 höfum við fylgzt með því, hvað margt kaupafólk hefur verið í sveit á sumrin og hvað því hefur verið greitt. Enda munu hv. þm. sjá það, þegar þeir gá að því, að við höfum ekki farið hátt með mjólkurverðið undanfarin ár í samanburði við sex manna n. Ég held, að það liggi ljóst fyrir, að mjólkurverðið hjá n. hefur sízt verið hærra en það þyrfti að vera miðað við tilkostnaðinn.

Ég tel það ekkert aðalatriði, hver ákveður kostnaðinn, sem á að leggja við þessa kr. 1.23. Ég er sannfærður um, að ef það er gert af mönnum, sem hafa vilja til að kynna sér málið, komast þeir að sömu niðurstöðu og við. Það getur orðið hærra, ef við tökum einstaka mánuði, en það jafnar sig, þegar árið er tekið allt. Hitt er annað mál, ef við ættum von á því, að um þetta fjölluðu menn með svipuðu hugarfari og virzt hefur koma fram hjá sumum ræðumönnum hér. Það er ekki annað sýnna en að viljandi sé reynt að halla réttu máli, þegar farið er að slá því föstu, að vísvitandi hafi verið brotið samkomulag sex manna n. Slíkum mönnum trúi ég ekki fyrir því að fara með málið.